Gagnrýni

Óvitar er EKKI skrípó

Jón Viðar Jónsson skrifar
"Leikmynd, búningar og jafnvel leikgervi eru meira og minna einhvers konar fígúruverk sem ég læt öðrum eftir að lýsa eða ættfæra,“ segirJón Viðar.
"Leikmynd, búningar og jafnvel leikgervi eru meira og minna einhvers konar fígúruverk sem ég læt öðrum eftir að lýsa eða ættfæra,“ segirJón Viðar.
Leiklist:

Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur í Þjóðleikhúsinu

Leikstjórn: Gunnar Helgason. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Tónlist: Moses Hightower. Hljóðmynd: Andri Ólafsson, Kristinn Gauti Einarsson, Kristján Sigmundur Einarsson. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson.



Hin nýja sýning Þjóðleikhússins á barnaleikriti Guðrúnar Helgadóttur, Óvitum, er fyrir margra hluta sakir furðulegt verk. Leikstjórinn, Gunnar Helgason, hefur kosið að sviðsetja leikinn sem hreinan grínleik. Honum finnst auðsæilega sem verkið standi eða falli með því hversu mikið sé hægt að hlæja að því. Leikmynd, búningar og jafnvel leikgervi eru meira og minna einhvers konar fígúruverk sem ég læt öðrum eftir að lýsa eða ættfæra.



En Óvitar er ekkert grínleikrit. Þar er brotið upp á mjög alvarlegum spurningum um samskipti barna og uppalenda, virðingarleysi fullorðna fólksins fyrir unga fólkinu sem er enn ofurselt valdi þess, valdi sem hinir fullorðnu kunna svo skelfilega oft ekki að fara með og taka ábyrgð á. Þar er fjallað um brotnar fjölskyldur, einmanaleik, örvæntingu, heimilisofbeldi, afneitun og þöggun. Hið einfalda snilldarbragð Guðrúnar, að snúa við hlutverkum, láta börn leika fullorðnar persónur, fullorðna leikara börn, framandgerir svo margt í hegðun okkar sem við höfum annaðhvort afneitað eða orðið vanablind á; henni tekst þannig með meðulum leikhússins að afhjúpa óvitaskap hinna fullorðnu í sínum fjölmörgu fáránlegu myndum, jafnframt því sem hún dregur fram visku barnanna, skilning þeirra á því sem máli skiptir: vináttu, trúnaði, hollustu, samhjálp. Þau hafa ekki enn náð að týna sér í eftirsókn eftir vindi, deyðandi kapphlaupi um lífsgæði sem eru í reynd engin gæði, aðeins veraldlegt hjóm og hismi.



En þó að Guðrúnu liggi mikið á hjarta er hún enginn siðaprédikari. Hún er húmanisti sem kann að nota húmorinn í þágu alvörunnar. Hún kann að skapa hið rétta jafnvægi milli harmleiksins og háðleiksins, að láta fyndnina og gleðina kallast á við tregann og sorgina. Hún kann að milda ádeiluna með elskulegu brosi. Þetta fer allt saman að langmestu leyti forgörðum í þeim leikstjórnaráherslum sem Gunnar kýs að leggja, endalausum tilraunum hans til að fitja upp á alls kyns sprelli og sniðugheitum. Það er helst ef leikendur fá að vera í friði fyrir honum og bara leika af einlægni að þeir nái tangarhaldi á angistinni sem að baki býr; það gerir hún til dæmis, hún Ágústa Eva Erlendsdóttir þegar hún í hlutverki Dagnýjar reynir að hreyfa við foreldrum sínum og hrópar til þeirra ein mikilvægustu orð leiksins: „Okkur vantar ykkur!“ Það er ekki nóg að hafa til hnífs og skeiðar, fín föt að klæðast í og fínt hús að búa í. Maðurinn lifir ekki af einu saman brauði, var eitt sinn sagt; Óvitar Guðrúnar eru á sinn hátt tilbrigði við það stef, tilbrigði sem leiðir beint inn í samtíma sem er svo oft ráðvilltur og vegalaus.



Slík andartök eru því miður sjaldséð í sýningunni. Púðrinu er eytt í annað, hringsviðið snýst og snýst, líkt og það sé orðið að hringekju; svo er alltaf verið að syngja og dansa. En rokkuð og ólagræn tónlist Moses Hightower virðist samin fyrir unglinga og dansatriðin eru hvorki fugl né fiskur, enda dans í söngleikjastíl ekkert barna meðfæri. Ég náði ekki að greina nema lítið eitt af söngtextunum, en það sem ég heyrði benti ekki til að ég væri að missa af miklu. Verk Guðrúnar þarf ekki á svona tertuskreytingum að halda.



Gunnar Helgason kann sannarlega að setja kraft í „showið“, þrusukraft meira að segja; það hefur hann sýnt og sannað oft áður. Börnin voru enda ófeimin og óþvinguð, léku bæði af einbeitingu og ósvikinni leikgleði og víst hittu þau stundum á skemmtilega tóna. Samleikur þeirra Jóhannesar Hauks Jóhannessonar og nýliðans Odds Júlíussonar í burðarhlutverkunum virtist á nokkuð góðri leið og gæti átt eftir að batna, einkum þegar Oddur nær að slaka betur á og finna sig í sínu hlutverki. Af öðrum í eldri hópnum vakti Friðrik Friðriksson eftirtekt fyrir fínleg vinnubrögð, getu til að sýna hið barnslega án þess að grípa til yfirborðslegra takta; það var vel gert hjá leikara sem hefur vaxið og mætti fara að sjást í stærri hlutverkum.



Að lokum: vanmetum ekki börn sem áhorfendur. Rétt eins og við fara þau ekki í leikhús til þess eins að sækja sér stundarafþreyingu, af henni fá þau meira en nóg annars staðar. Þau koma þangað til að láta segja sér góðar sögur, kynnast fólki sem býr að óvenjulegri og á einhvern hátt merkilegri lífsreynslu, læra meira um veröldina sem bíður þeirra handan við hornið. Þau eru að leita að húmor, mannlegri hlýju, lífsvisku – sem nóg er af í verki Guðrúnar Helgadóttur. Það sýndi hin snjalla uppfærsla Brynju Benediktsdóttur á því fyrir þrjátíu árum. Við verðum að vona að næsta uppfærsla Þjóðleikhússins, hvenær sem hún nú verður, sýni það jafn vel.

Niðurstaða: Kraftmikil og litskrúðug sýning sem líður mjög fyrir grunnfærna nálgun leikstjórans að verki Guðrúnar Helgadóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×