Tónlist

Ég var auðvitað tónleikahundur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Emilíana útilokar ekki tónleika á Djúpavogi eða öðrum góðum stöðum á Íslandi í framhaldi af útgáfu Tookah. "Það væri allt í lagi, þá tæki ég bara strákinn minn með.“
Emilíana útilokar ekki tónleika á Djúpavogi eða öðrum góðum stöðum á Íslandi í framhaldi af útgáfu Tookah. "Það væri allt í lagi, þá tæki ég bara strákinn minn með.“
Það er hryssingslegur dagur í miðborg Reykjavíkur og Tjörnin eins og ólgusjór þar sem hún blasir við okkur Emilíönu Torrini af efstu hæð Iðnós. Ég sit í ullaryfirhöfn, með trefil og sötra heitt kaffi en Emilíana er í kjól, með bera handleggi upp að olnboga og drekkur kalt sódavatn.

„Ég er svo vön hráslaga frá Englandi,“ segir hún hlæjandi, þegar haft er orð á kuldanum. „Mömmu var oft hrollkalt þegar hún kom til mín úti svo ég varð að gjöra svo vel að hækka á ofnunum en ég var hins vegar með svitaskegg á vör í heimsóknum hér á landi því hús eru kynt svo mikið.“

Nú er Emilíana sjálf flutt til Íslands frá Bretlandi fyrir nokkrum mánuðum, með kærasta og son, og fer eflaust að venjast íslenskum ósiðum. Hún flutti út fyrir tvítugt og kveðst hafa nálgast það að búa þar jafnlengi og hér á landi.

„Ég var útlendingur í Englandi og hugsaði oft um að ég færi að verða útlendingur líka hér á Íslandi. Því fannst mér þetta rétti tíminn til að koma heim.“ Hún kveðst samt enn starfa mikið erlendis. Spurð hvort hún eigi eða leigi þar húsnæði svarar hún: „Nei, ég nota bara vini mína og er sófadýr hjá þeim til skiptis. Þeir gefa mér tækifæri til að eyða tíma með sér. Það hefur verið mikið flakk á mér undanfarið í sambandi við nýju plötuna en nú fer ég að verða meira heima.“

Unnustinn elskar Ísland

Sonurinn er akkúrat þriggja ára. Hann heitir Fionn. Það er írskt nafn, því þótt faðir hans sé uppalinn í Liverpool á hann til Íra að telja og ber írskt eftirnafn, að sögn Emilíönu.

Unnustinn er menntaður hönnuður og smiður sem starfar við að smíða fætur í stoðtækjasmiðju Össurar. Hvernig skyldi hann una sér hér á landi? „Hann elskar Ísland enda er hann algert náttúrubarn og hefur alltaf liðið best úti í sveit. Þegar hann var krakki sá hann alltaf fyrir sér að flytja á norðurpólinn og nú hefur hann nálgast það takmark. Honum finnst æði að vera hér – og okkur öllum.“

Fjölskyldan er aðaláhugamál Emilíönu um þessar mundir og svo auðvitað tónlistin, lagasmíðarnar og söngurinn. „Líf mitt er orðið miklu innihaldsríkara eftir að ég eignaðist mann og son og er bara einhvern veginn fullkomið,“ segir hún og brosir sínu fallega brosi.

Þegar Emilíana fer út í lönd að sinna músíkinni kveðst hún oftast skilja soninn eftir hér heima hjá föður sínum.

„Fionn á sitt líf hér og er líka nýlega búinn að flytja svo það má ekki hringla of mikið í honum. Ég tek hann þó með mér stöku sinnum, það fer eftir því hversu strembið verkefnið er. Ég er mest tvær vikur í einu að heiman, það er alveg hámark, og var alveg miður mín fyrstu vikuna sem ég var ein úti. En ég þarf stundum að minna mig á að flestir foreldrar eru að vinna allan daginn frá börnunum sínum. Ég er hins vegar frá syni mínum tíma og tíma, að gera það sem ég elska að gera og nota tímann minn vel og er svo alveg heima þess á milli, þá fær hann það besta af mér. Þegar platan er komin út ætla ég að vera heima í ár. Þá á hann mig.“

En þarf hún ekki að túra eftir útkomu nýju plötunnar?

„Jú, ég þarf þess en ætla samt ekki að gera það. Síðast túraði ég í tvö og hálft ár. Það kemur ekki til greina núna. Nú verð ég að búa mér til reglur, annars getur þetta svo auðveldlega farið úr böndunum.“

Hún útilokar samt ekki tónleika á Djúpavogi eða öðrum góðum stöðum á Íslandi. „Það væri allt í lagi, þá tæki ég bara strákinn minn með. En ekki eins og ég gerði áður. Ég var auðvitað tónleikahundur og það átti rosalega vel við mig en ég aðhyllist meiri rólegheit eins og er.“

Hlustar aldrei á fyrstu plöturnar

Margar söngkonur nútímans eru fremur fáklæddar á sviði en Emilíana hefur aldrei fallið í þá gryfju og kveðst ekki vita hvernig hún gæti það.

„Ég er engin Rihanna, Madonna eða Mariah Carey. Er ekkert í snertingu við þann heim sem þær lifa í og er ekki á leiðinni þangað, heldur að reyna að þróast sem tónlistarmaður og lagasmiður á allt öðrum stað.“

Hún kveðst trúa á mátt sjálfsvirðingar. „Að virða sjálfan sig er grundvallaratriði og svo púslast allt einhvern veginn utan um það en auðvitað hef ég ekki alltaf hugsað þannig. Ég hef bara lært að það sé leiðin. Lífið er svo mikill skóli.“

Fyrst fortíðin er aðeins komin á dagskrá. Hvernig skyldu fyrstu plötur Emilíönu hljóma í eyrum hennar núna?

„Meinarðu þessar fyrstu, fyrstu? Eins og Crouçie D‘où Là? Ég tengist þeim bara ekkert lengur. En þær mega alveg lifa. Ég skammast mín ekkert fyrir þær.“

Hún kveðst aldrei hlusta á fyrstu plöturnar, ekki einu sinni þegar þær voru nýjar.

„Lögin á nýju plötunni Tookah eru þau fyrstu með sjálfri mér sem ég laumast stundum til að hlusta á. Núna finnst mér fyrstu plöturnar vera yfirborðslegar. En þetta var tímabilið sem ég uppgötvaði röddina mína. Þó hafði ég verið sólósöngkona í barnakór Kársness og síðan í óperunámi og vissi að ég gæti sungið þar en ekki á neinn annan hátt. Það var þegar ég fór að leika Hárinu sem það kom í ljós. Jón Ólafsson var þar og ég spurði hann hvort hann gæti tekið upp nokkur lög með mér fyrir fimmtugsafmæli pabba.

Þetta voru stuðlög og Jón spurði hvort ég hefði prófað að syngja þau. „E…neei“ svaraði ég. Svo fórum við í stúdíó og tókum upp og þá kom hann með hugmynd um að við gæfum bara út plötu. Á þeirri næstu bjó ég til textana og hann lögin. Svo fór ég út í bæ að syngja á hótelum og veitingastöðum og alls staðar. Ég var 16, 17 ára, á útopnu og sagði já við öllu. En platan sem varð mikilvægust fyrir mig í þróuninni er Love in the Time of Science frá 1999. Mér finnst hún hafa verið mín „ágætis byrjun“.

Skyldi Emilíana hafa einhvern tíma unnið við annað en söng?

„Ég ólst upp á veitingahúsi og hjálpaði stundum til, alveg á milljón. Svo vann ég í snjóbrettabúð í smá tíma og líka í Bakkavör í Kópavogi meðan hún var bara fiskvinnslufyrirtæki. Þá var ég þar að vigta og skera fisk og taka hrognin. Ég var alveg ótrúlega góð í því! Svo fór ég í Hárið á kvöldin, lyktandi af fiskinum eftir vinnu.“

Nýja platan Tookah kemur út víða um heim en þegar viðtalið fer fram á Emilíana enn eftir að fá hana í hendur.

„Ég er að deyja, ég hlakka svo til,“ segir hún hlæjandi og bætir við: „Svo verð ég kannski alveg brjáluð þegar ég sé hana: „Hvaða pappír er þetta?“ Nei, nei. Þetta verður æði. Það er alltaf mikill áfangi að fá plötu í hendur.“

Helsti samstarfsmaður Emilíönu er Dan Carey. Hún segir hans fjölskyldu og hennar tengjast náið. „Við erum hvort guðforeldri barna annars og við Dan vinnum mikið saman. Ég hef verið spurð: „Ætlarðu ekki að prófa að vinna með einhverjum öðrum?“ og þá bara rekur mig í rogastans. Hvað meinar fólk eiginlega?!“

Allt fullt af Emilíönum

Undir lokin berst talið aftur að syninum Fionn, sem líf Emilíönu snýst eðlilega mikið um. Hún er minnt á að hann sé heppinn að íslensku nafnalögunum skuli hafa verið breytt, því fyrir 20 árum hafi allir sem gerðust íslenskir ríkisborgarar þurft að heita íslenskum nöfnum.

Hún kannast manna best við það. „Já, pabbi var einn af þeim. Hann er ítalskur og nafninu hans var breytt úr Salvatore Torrini í Davíð Eiríksson. Mamma og pabbi fóru svo til Ítalíu að gefa mér mitt nafn. Þau vildu að ég héti Emilíana í höfuðið á báðum ömmunum mínum, sú íslenska heitir Emilía og sú ítalska Anna. Það var eitthvert vesen með að fá það nafn í gegn hér. Torrini var svo skráð millinafn hjá mér og ég varð Davíðsdóttir. Það var mjög ruglandi fyrir mig þegar ég fékk minn fyrsta passa – Davíðsdóttir. Strákurinn minn þarf sem betur fer ekki að ganga í gegnum neitt svona. Enda kæmi það ekki til greina.“

Hún er alveg hissa þegar henni er tjáð að nú skipti Emilíönur tugum í þjóðskránni, svo hún hafi örugglega komið af stað tískubylgju. „Í alvörunni?“ segir hún. „Við fengum reyndar stundum hringingar um að einhver hefði skírt eftir mér. Það var ótrúlega sætt.“

 

 

Tookah

Tookah er fjórða plata Emilíönu Torrini sem gefin er út á alþjóðavísu. Hún er enn einn afrakstur gjöfuls samstarfs Emilíönu og Dans Carey upptökustjóra, sem hefur staðið í nokkur ár og gefið af sér þrjár plötur.

Tookah fylgir eftir plötunni Me And Armini sem kom út árið 2008 og naut gífurlegra vinsælda. Hver man ekki eftir Jungle Drum sem fór sigurför um heiminn?

Lögin á Tookah eru

Tookah

Caterpillar

 Autumn Sun

Home

Elisabet

Animal Games

Speed of Dark

Blood Red

When Fever Breaks

Nafnið Tookah er orð sem Emilíana bjó til og segir meðal annars þetta um:



„Tookah er eitthvað sem tengir okkur við alla og allt. Það er það sem súfistarnir dansa. Þetta er augnabliksþakklætistilfinning sem þú upplifir þegar þú aðhefst ekkert sérstakt, augnablikið sem allt er yndislega fullkomið. Sumir kalla það guðlegt ástand. Ég kalla það Tookah.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×