Um listþörfina Guðmundur Andri Thorsson skrifar 22. júlí 2013 07:00 „Það vantar ekki þessa listamenn,“ sagði hún Laufey amma mín stundum þegar hún var í mat hjá okkur og einhverja listamenn bar á góma, sem stundum vildi við brenna, og henni tók að leiðast þófið. Hún sagði þetta glaðlega og kímdi, en það var alltaf einhver tónn í þessu sem gaf til kynna að henni þætti satt að segja alveg nóg um alla þessa listamenn.Mitt er að yrkja – ykkar að styrkja (Játning: Fyrir allmörgum árum fékk ég svokölluð starfslaun rithöfunda, einhverja mánuði, og alls ekki jafn mikið og mér fannst að mér bæri og ekki nóg til að ég gæti helgað mig skáldsagnagerð eins og mig langaði að gera þá. En ég var auðvitað ekki dómbær. Margir listamenn sveiflast á milli þess að líta svo á að annað fólk standi unnvörpum í þakkarskuld við sig fyrir að gefa því allra náðarsamlegast kost á því að vera samtíðarmenn sínir og svo aftur hins að líta á sig og verk sín sem einskisvert drasl. En ég fékk sem sé ekki það sem mér bar, frekar en til dæmis Þorgrímur Þráinsson, og svo fór að ég hætti að sækja um slík laun og ákvað með sjálfum mér að margir rithöfundar væru betur að þeim komnir en ég og auk þess gæti ég svo sem unnið fyrir mér með öðrum hætti. Ég bið afsökunar á þessum sjálfsútaustri en ég nefni þetta vegna þess að ég hef stundum rekist á athugasemdir þess efnis að ég sé mikill styrkjakall og því ekki að marka neitt af því sem ég segi.) Þá er það úr sögunni. En ég er hálfsmeykur. Ég skynja eitthvert andrúmsloft um þessar mundir. Mér finnst ég verða var við eindregna og jafnvel sigri hrósandi andúð á menntamönnum, fræðum og þekkingarleit, verðmætasköpun andans – og listum alveg sérstaklega. Fólk sem náði meirihluta á alþingi vegna loforða um lækkun lána og hækkun launa notar nú umboðið sem það fékk vegna þeirra loforða – og einskis annars – til að efna til stórfellds niðurskurðar á ríkisútgjöldum, sem aldrei var minnst á í kosningabaráttunni, en lánamálin fóru í nefnd. Vonandi skjátlast mér, en einhvern veginn skynjar maður að nú liggi í loftinu stórfelldur niðurskurður á framlögum til lista og menningar; þar hafa verið settir til verka Guðlaugur Þór, sem mun vera styrktasti þingmaður Íslandssögunnar, Ásmundur Einar, starfsmaður styrktustu atvinnugreinar Evrópu, íslensks sauðfjárbúskapar, og Vigdís Hauksdóttir sem hefur lagt sig fram af sérstakri alúð við að fara með fleipur um listamannalaun, við nokkur fagnaðarlæti skoðanasystkina; Vigdís hefur reyndar slíka unun af því að ganga fram af listamönnum, að það örlar á því að hún sé kannski svolítill listamaður sjálf, í henni sé þessi listræna viðleitni sem á frönsku er kölluð „épater les bourgeois“. Sennilega verða listamenn að setja traust sitt á hana frekar en styrkjatröllin tvö.Að vera andvígur meinatæknum Samfélagið er net, þéttofið og síkvikt. Það samanstendur af skyldri og óskyldri starfsemi alls konar stakmengja og sniðmengja og raðmengja, flöktmengja og víxlmengja sem hafa gert með sér einhvers konar óformlegan sáttmála um að vera sammengi, það er að segja „þjóð“. Samfélagið er forógnarmikil bygging þar sem eru ótal vistarverur sem tengjast margvíslega í litlu og ættræknu samfélagi. Einn á frænku þarna, annar skólabróður hér, og ekki má gleyma besta vini eiginmanns náfrænku móðursystur eiginkonunnar. Sem sé: dýnamík og verkaskipting. Það er varla til tómarúm í samfélaginu, og flest höfum við vissa innsýn í iðju hvert annars; það er meðal þess sem er fallegt við íslenskt samfélag: bændurnir gerðu við bíla, bílasalarnir héldu rollur, meinatæknir sem opnar búð, sjómaður sem heklar dúka, ráðuneytisstjóri sem fer að læra trésmíði. Og svo framvegis. En þó er það nú svo að hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá fylgir nútímanum viss sérhæfing. Til dæmis meinatæknar. Ég veit ekkert hvað þeir eru að bauka. En ekki er þar með sagt að ég þurfi að gruna þá um græsku eða vera vera andvígur þeim, eða vilji að framlög verði skorin niður til meinatæknigreina. Mér finnst heldur ekki að ég hafi einhvern sérstakan rétt sem skattborgari til að skilja meinatækna alveg fyrirhafnarlaust. Ég treysti því bara að þeir sigli ekki undir fölsku flaggi og að iðja þeirra hafi sitt gildi sem þar til bært fólk leggur mat á. Þannig starfar sérhæfingin í samfélaginu. Eins og margtuggið er: Van Gogh hefði aldrei náð að þróa og þroska sína list ef bróðir hans Theo hefði ekki styrkt hann á alla lund. Það dæmi eitt og sér ætti að nægja til að afgreiða þá firru að eftirláta eigi markaðnum að launa listamönnum. Þar með er ekki sagt að sérhver listamaður sem öllum finnst lélegur sé Van Gogh. En hver á þá að leggja dóm á erindi listamanna við samtíma sinn? Ásmundur Einar Daðason? Og eins og margtuggið er líka: Allt skilar sér aftur inn í þá margbrotnu hringrás sem samfélagið er. Í peningum. Í góðum listaverkum. Í frægð. Í kúlheitum. Í skatti. Í listaverkunum sem tókust ekki og listaverkunum sem engum líkaði en kveiktu kannski hugmyndir og elda. Í listaverkunum sem vöktu viðbjóð en stungu á kýlum. Í hugmyndastreyminu og andlega fjörinu, lífsgleðinni, tjáningunni á því óumræðilega og neistafluginu, í lyginni sem segir satt og þúsundum spegilbrota. Nei, amma mín. Það vantar alltaf þessa listamenn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun
„Það vantar ekki þessa listamenn,“ sagði hún Laufey amma mín stundum þegar hún var í mat hjá okkur og einhverja listamenn bar á góma, sem stundum vildi við brenna, og henni tók að leiðast þófið. Hún sagði þetta glaðlega og kímdi, en það var alltaf einhver tónn í þessu sem gaf til kynna að henni þætti satt að segja alveg nóg um alla þessa listamenn.Mitt er að yrkja – ykkar að styrkja (Játning: Fyrir allmörgum árum fékk ég svokölluð starfslaun rithöfunda, einhverja mánuði, og alls ekki jafn mikið og mér fannst að mér bæri og ekki nóg til að ég gæti helgað mig skáldsagnagerð eins og mig langaði að gera þá. En ég var auðvitað ekki dómbær. Margir listamenn sveiflast á milli þess að líta svo á að annað fólk standi unnvörpum í þakkarskuld við sig fyrir að gefa því allra náðarsamlegast kost á því að vera samtíðarmenn sínir og svo aftur hins að líta á sig og verk sín sem einskisvert drasl. En ég fékk sem sé ekki það sem mér bar, frekar en til dæmis Þorgrímur Þráinsson, og svo fór að ég hætti að sækja um slík laun og ákvað með sjálfum mér að margir rithöfundar væru betur að þeim komnir en ég og auk þess gæti ég svo sem unnið fyrir mér með öðrum hætti. Ég bið afsökunar á þessum sjálfsútaustri en ég nefni þetta vegna þess að ég hef stundum rekist á athugasemdir þess efnis að ég sé mikill styrkjakall og því ekki að marka neitt af því sem ég segi.) Þá er það úr sögunni. En ég er hálfsmeykur. Ég skynja eitthvert andrúmsloft um þessar mundir. Mér finnst ég verða var við eindregna og jafnvel sigri hrósandi andúð á menntamönnum, fræðum og þekkingarleit, verðmætasköpun andans – og listum alveg sérstaklega. Fólk sem náði meirihluta á alþingi vegna loforða um lækkun lána og hækkun launa notar nú umboðið sem það fékk vegna þeirra loforða – og einskis annars – til að efna til stórfellds niðurskurðar á ríkisútgjöldum, sem aldrei var minnst á í kosningabaráttunni, en lánamálin fóru í nefnd. Vonandi skjátlast mér, en einhvern veginn skynjar maður að nú liggi í loftinu stórfelldur niðurskurður á framlögum til lista og menningar; þar hafa verið settir til verka Guðlaugur Þór, sem mun vera styrktasti þingmaður Íslandssögunnar, Ásmundur Einar, starfsmaður styrktustu atvinnugreinar Evrópu, íslensks sauðfjárbúskapar, og Vigdís Hauksdóttir sem hefur lagt sig fram af sérstakri alúð við að fara með fleipur um listamannalaun, við nokkur fagnaðarlæti skoðanasystkina; Vigdís hefur reyndar slíka unun af því að ganga fram af listamönnum, að það örlar á því að hún sé kannski svolítill listamaður sjálf, í henni sé þessi listræna viðleitni sem á frönsku er kölluð „épater les bourgeois“. Sennilega verða listamenn að setja traust sitt á hana frekar en styrkjatröllin tvö.Að vera andvígur meinatæknum Samfélagið er net, þéttofið og síkvikt. Það samanstendur af skyldri og óskyldri starfsemi alls konar stakmengja og sniðmengja og raðmengja, flöktmengja og víxlmengja sem hafa gert með sér einhvers konar óformlegan sáttmála um að vera sammengi, það er að segja „þjóð“. Samfélagið er forógnarmikil bygging þar sem eru ótal vistarverur sem tengjast margvíslega í litlu og ættræknu samfélagi. Einn á frænku þarna, annar skólabróður hér, og ekki má gleyma besta vini eiginmanns náfrænku móðursystur eiginkonunnar. Sem sé: dýnamík og verkaskipting. Það er varla til tómarúm í samfélaginu, og flest höfum við vissa innsýn í iðju hvert annars; það er meðal þess sem er fallegt við íslenskt samfélag: bændurnir gerðu við bíla, bílasalarnir héldu rollur, meinatæknir sem opnar búð, sjómaður sem heklar dúka, ráðuneytisstjóri sem fer að læra trésmíði. Og svo framvegis. En þó er það nú svo að hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá fylgir nútímanum viss sérhæfing. Til dæmis meinatæknar. Ég veit ekkert hvað þeir eru að bauka. En ekki er þar með sagt að ég þurfi að gruna þá um græsku eða vera vera andvígur þeim, eða vilji að framlög verði skorin niður til meinatæknigreina. Mér finnst heldur ekki að ég hafi einhvern sérstakan rétt sem skattborgari til að skilja meinatækna alveg fyrirhafnarlaust. Ég treysti því bara að þeir sigli ekki undir fölsku flaggi og að iðja þeirra hafi sitt gildi sem þar til bært fólk leggur mat á. Þannig starfar sérhæfingin í samfélaginu. Eins og margtuggið er: Van Gogh hefði aldrei náð að þróa og þroska sína list ef bróðir hans Theo hefði ekki styrkt hann á alla lund. Það dæmi eitt og sér ætti að nægja til að afgreiða þá firru að eftirláta eigi markaðnum að launa listamönnum. Þar með er ekki sagt að sérhver listamaður sem öllum finnst lélegur sé Van Gogh. En hver á þá að leggja dóm á erindi listamanna við samtíma sinn? Ásmundur Einar Daðason? Og eins og margtuggið er líka: Allt skilar sér aftur inn í þá margbrotnu hringrás sem samfélagið er. Í peningum. Í góðum listaverkum. Í frægð. Í kúlheitum. Í skatti. Í listaverkunum sem tókust ekki og listaverkunum sem engum líkaði en kveiktu kannski hugmyndir og elda. Í listaverkunum sem vöktu viðbjóð en stungu á kýlum. Í hugmyndastreyminu og andlega fjörinu, lífsgleðinni, tjáningunni á því óumræðilega og neistafluginu, í lyginni sem segir satt og þúsundum spegilbrota. Nei, amma mín. Það vantar alltaf þessa listamenn.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun