Hagræðingarhelvíti Guðmundur Andri Thorsson skrifar 11. febrúar 2013 06:00 Um árabil hefur verið litið á framlög til heilbrigðismála sem vandamál – útgjöld, tapað fé, fjárfestingu sem engu skilar – hít. Stundum er engu líkara en eimi eftir af hreppsómaga-hugsunarhætti fyrri alda hjá Íslendingum; að sjá eftir því fé sem fer til þess að annast „aumingja", horfa þá í aurinn: mætti ekki hafa fleiri á stofu? Senda fleiri heim? Auka afköst? Stjórnendur spítalanna bíða eftir stóru byggingunni sem kemur einn góðan veðurdag og mun öllu breyta og allt leysa. Á meðan sleppa þeir því að láta gera við þökin þegar þau leka en tala þeim mun meira um hagræðingu. Þeir tala um afköst og framleiðni eins og alvöru stjórnendur í alvöru rekstri og eins og sjúklingarnir séu þúsund þorskar [sem] á færibandinu þokast nær. Og við heyrum sögur. Þetta eru sögur af fárveikum krabbameinssjúklingum húkandi á yfirfullri bráðamóttöku innan um börn með meiddi og dópista í fráhvarfi. Sögur af fólki sem sent var út á guð og gaddinn. Sögur af sprungnu kerfi. Sögur af ómennsku álagi. Sögur af hagræðingu á réttlætinu. Og á meðan er beðið eftir stóru byggingunni sem allt á að leysa og á að reisa fyrir féð sem hvarf einhvern veginn í skiptum fyrir ekkert í einhverri óskiljanlegri afskriftagerningahríðinni.Eins og í stríðhrjáðu landi Íslendingar eru ein ríkasta þjóð í heimi en okkur ætlar að reynast um megn að halda sómasamlega úti þjóðarspítala. Íslendingar eiga frábært fólk í heilbrigðisþjónustunni, vel menntað, flinkt og umhyggjusamt en okkur ætlar að reynst um megn að búa því sómasamleg kjör. Þetta er ekki Jóhönnu að kenna, Steingrími, Guðbjarti, Ólafi Ragnari eða krónunni. Þetta er ekki Framsókn að kenna, Jóni Ásgeiri eða Evrópusambandinu – við getum ekki einu sinni kennt Davíð Oddssyni um þetta. En þetta vitnar um hugsunarhátt. Þetta sýnir forgangsröð. Skyldi vera til sá stjórnmálamaður síðustu áratuga sem stungið hefur upp á að framlög til heilbrigðismála yrðu aukin? Niðurskurðurinn hefur smám saman orðið sjálfsagður á meðan við bíðum eftir stóru byggingunni, næstum eins og lífsstíll. Ekki þarf annað en að skoða götur, hús og farkosti hér á landi til að sjá auðinn sem flýtur um samfélagið. Við mokum upp verðmætum úr hafinu og brot af því sem þau gefa af sér dygði til að reka hér góða spítala með kátu starfsfólki. En flokkarnir sem meirihluti landsmanna styður að sögn vilja heldur að allur arðurinn fari á aflandsreikninga nokkurra ætta sem fengu óveiddan fiskinn gefins og sjá ekki sóma sinn í því að greiða af því eðlilegan skatt til samfélagsins heldur láta samfélagið greiða sér ómælda fjármuni í formi afskrifta. Hér vantar sáttmála og þegnskap. Um árabil hefur það verið talin höfuðdyggð fjármálaráðherra að sýna dugnað, hugkvæmni og miskunnarleysi við að skera niður „útgjöld" til heilbrigðismála. Hægt og rólega, og án þess að við gæfum því gaum, voru þau skorin niður við almenna velþóknun þangað til ástandið á spítölunum er skyndilega orðið eins og í stríðshrjáðu landi.Hagræðingin Spítali er ekki verksmiðja. Sjúklingar eru ekki framleiðsluvörur á færibandi til að setja roðlausa og beinlausa í neytendapakkningar. Hagkvæmni er ekki markmið í sjálfu sér. Orðið „hagræðing" má ekki vera helsta leiðarljós í heilbrigðiskerfinu, nema þá í þeirri merkingu að hagræða fólki í rúminu þannig að betur fari um það. Við þurfum að spyrja alla frambjóðendur fyrir komandi kosningar mikilvægustu spurningarinnar: Hvernig ætlið þið að endurreisa heilbrigðiskerfið á Íslandi? Hér þarf breyttan hugsunarhátt í samtaki, og eins og dæmin sanna þarf sú hugarfarsbreyting að hefjast í sjálfu þjóðardjúpinu. Almenningur þarf að gera stjórnmálamönnum ljóst að þjóðin ætlist til þess að hér sé ekki bara skorið niður, lagt niður, hagrætt og dregið saman heldur líka byggt upp – og þá er ekki verið að tala um steinsteypu sem er það fyrsta sem stjórnmálamönnum dettur yfirleitt í hug þegar kemur að framlögum til nauðsynjamála, heldur bein og vöðva og sálir. Fólk sem við kjósum til að fara með landstjórnina hverju sinni þarf að sjá til þess að aldrei komi upp staða eins og nú blasir við: neyðarástand, taugastríð fólks sem öðru fremur þarf á vinnufriði að halda. Sjálfsagt þurfa allir hlutaðeigandi að slá af kröfum sínum og mætast á miðri leið, þannig er það í kjaradeilum. En þetta er ekki venjuleg kjaradeila heldur einhvers konar endastöð þeirrar stefnu sem rekin hefur verið gagnvart Landspítalanum áratugum saman. Við þurfum nýjan sáttmála, nýjan þegnskap. Við hljótum að eiga heimtingu á því að nú linni því ástandi innan Landspítalans að helst minnir á stríðshrjáðar þjóðir. Óskandi væri að honum verði breytt úr ríkjandi hagræðingarhelvíti og í stofnun þar sem er krefjandi og spennandi, gott og skemmtilegt að starfa þjóðinni til heilla. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Kynþáttahyggja, einangrunarhyggja og Evrópusambandsaðild Haraldur Ólafsson Skoðun Kæru kjósendur í Suðvesturkjördæmi Alma D. Möller Skoðun Keyrum á nýrri menntastefnu Arnór Heiðarsson Skoðun Íslenska, hvað? Gauti Kristmannsson Skoðun
Um árabil hefur verið litið á framlög til heilbrigðismála sem vandamál – útgjöld, tapað fé, fjárfestingu sem engu skilar – hít. Stundum er engu líkara en eimi eftir af hreppsómaga-hugsunarhætti fyrri alda hjá Íslendingum; að sjá eftir því fé sem fer til þess að annast „aumingja", horfa þá í aurinn: mætti ekki hafa fleiri á stofu? Senda fleiri heim? Auka afköst? Stjórnendur spítalanna bíða eftir stóru byggingunni sem kemur einn góðan veðurdag og mun öllu breyta og allt leysa. Á meðan sleppa þeir því að láta gera við þökin þegar þau leka en tala þeim mun meira um hagræðingu. Þeir tala um afköst og framleiðni eins og alvöru stjórnendur í alvöru rekstri og eins og sjúklingarnir séu þúsund þorskar [sem] á færibandinu þokast nær. Og við heyrum sögur. Þetta eru sögur af fárveikum krabbameinssjúklingum húkandi á yfirfullri bráðamóttöku innan um börn með meiddi og dópista í fráhvarfi. Sögur af fólki sem sent var út á guð og gaddinn. Sögur af sprungnu kerfi. Sögur af ómennsku álagi. Sögur af hagræðingu á réttlætinu. Og á meðan er beðið eftir stóru byggingunni sem allt á að leysa og á að reisa fyrir féð sem hvarf einhvern veginn í skiptum fyrir ekkert í einhverri óskiljanlegri afskriftagerningahríðinni.Eins og í stríðhrjáðu landi Íslendingar eru ein ríkasta þjóð í heimi en okkur ætlar að reynast um megn að halda sómasamlega úti þjóðarspítala. Íslendingar eiga frábært fólk í heilbrigðisþjónustunni, vel menntað, flinkt og umhyggjusamt en okkur ætlar að reynst um megn að búa því sómasamleg kjör. Þetta er ekki Jóhönnu að kenna, Steingrími, Guðbjarti, Ólafi Ragnari eða krónunni. Þetta er ekki Framsókn að kenna, Jóni Ásgeiri eða Evrópusambandinu – við getum ekki einu sinni kennt Davíð Oddssyni um þetta. En þetta vitnar um hugsunarhátt. Þetta sýnir forgangsröð. Skyldi vera til sá stjórnmálamaður síðustu áratuga sem stungið hefur upp á að framlög til heilbrigðismála yrðu aukin? Niðurskurðurinn hefur smám saman orðið sjálfsagður á meðan við bíðum eftir stóru byggingunni, næstum eins og lífsstíll. Ekki þarf annað en að skoða götur, hús og farkosti hér á landi til að sjá auðinn sem flýtur um samfélagið. Við mokum upp verðmætum úr hafinu og brot af því sem þau gefa af sér dygði til að reka hér góða spítala með kátu starfsfólki. En flokkarnir sem meirihluti landsmanna styður að sögn vilja heldur að allur arðurinn fari á aflandsreikninga nokkurra ætta sem fengu óveiddan fiskinn gefins og sjá ekki sóma sinn í því að greiða af því eðlilegan skatt til samfélagsins heldur láta samfélagið greiða sér ómælda fjármuni í formi afskrifta. Hér vantar sáttmála og þegnskap. Um árabil hefur það verið talin höfuðdyggð fjármálaráðherra að sýna dugnað, hugkvæmni og miskunnarleysi við að skera niður „útgjöld" til heilbrigðismála. Hægt og rólega, og án þess að við gæfum því gaum, voru þau skorin niður við almenna velþóknun þangað til ástandið á spítölunum er skyndilega orðið eins og í stríðshrjáðu landi.Hagræðingin Spítali er ekki verksmiðja. Sjúklingar eru ekki framleiðsluvörur á færibandi til að setja roðlausa og beinlausa í neytendapakkningar. Hagkvæmni er ekki markmið í sjálfu sér. Orðið „hagræðing" má ekki vera helsta leiðarljós í heilbrigðiskerfinu, nema þá í þeirri merkingu að hagræða fólki í rúminu þannig að betur fari um það. Við þurfum að spyrja alla frambjóðendur fyrir komandi kosningar mikilvægustu spurningarinnar: Hvernig ætlið þið að endurreisa heilbrigðiskerfið á Íslandi? Hér þarf breyttan hugsunarhátt í samtaki, og eins og dæmin sanna þarf sú hugarfarsbreyting að hefjast í sjálfu þjóðardjúpinu. Almenningur þarf að gera stjórnmálamönnum ljóst að þjóðin ætlist til þess að hér sé ekki bara skorið niður, lagt niður, hagrætt og dregið saman heldur líka byggt upp – og þá er ekki verið að tala um steinsteypu sem er það fyrsta sem stjórnmálamönnum dettur yfirleitt í hug þegar kemur að framlögum til nauðsynjamála, heldur bein og vöðva og sálir. Fólk sem við kjósum til að fara með landstjórnina hverju sinni þarf að sjá til þess að aldrei komi upp staða eins og nú blasir við: neyðarástand, taugastríð fólks sem öðru fremur þarf á vinnufriði að halda. Sjálfsagt þurfa allir hlutaðeigandi að slá af kröfum sínum og mætast á miðri leið, þannig er það í kjaradeilum. En þetta er ekki venjuleg kjaradeila heldur einhvers konar endastöð þeirrar stefnu sem rekin hefur verið gagnvart Landspítalanum áratugum saman. Við þurfum nýjan sáttmála, nýjan þegnskap. Við hljótum að eiga heimtingu á því að nú linni því ástandi innan Landspítalans að helst minnir á stríðshrjáðar þjóðir. Óskandi væri að honum verði breytt úr ríkjandi hagræðingarhelvíti og í stofnun þar sem er krefjandi og spennandi, gott og skemmtilegt að starfa þjóðinni til heilla.