Guðlegar orrustur háðar við Hagatorg Gunnar Reynir Valþórsson skrifar 11. febrúar 2013 11:15 Tónleikar. Skálmöld. Háskólabíó. Laugardaginn 9. febrúar. Boðið var upp á veislu fyrir augu og eyru í Háskólabíói á laugardagskvöldið þegar drengirnir í Skálmöld tjölduðu öllu til og fluttu nýjustu plötuna sína, Börn Loka, í heild sinni og af miklum metnaði. Þar er sögð saga flækingsins Hilmars Baldurssonar, sem fenginn er til að ráða niðurlögum barna Loka og uppskera mikinn heiður að launum. Heiður sem hann þarf síðan að gjalda dýru verði. Bibbi bassaleikari á heiðurinn af textum plötunnar og sögunni allri og þar hefur hann unnið afrek. Hann er enda tilnefndur sem textahöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og hlýtur bara að vinna, annað væri ekki sanngjarnt. Sagan af Hilmari og systur hans Brynhildi myndi sæma sér vel sem grunnur að fínustu víkingamynd a la Hrafn. Á tónleikunum var sagan líka í aðalhlutverki og stórt bíótjaldið nýtt til þess að sýna textana, og vel unnin myndskeið og teikningar sköpuðu ásamt góðri lýsingu ansi magnað andrúmsloft. Stórleikarinn Ólafur Darri var í hlutverki sögumanns og á milli laga fyllti hann í eyðurnar með sinni djúpu röddu þannig að úr varð heilsteypt saga, eins konar þungarokksópera á epískum skala. Ballið byrjaði þegar félagar í kammerkórnum Hljómeyki stigu á stokk með Skálmaldarmönnum og fyrsta lag plötunnar, Óðinn, dúndraðist út í sal. Ef hávaðinn úr hljóðkerfinu hefði ekki verið svo mikill sem raun var hefði sennilega mátt heyra gæsahúðina spretta fram á tónleikagestum. Svo var rennt í hvert lagið á eftir öðru. Troðfullur salurinn var vel með á nótunum og ungir sem aldnir tóku hraustlega undir í viðlögunum. Spilamennskan var óaðfinnanleg og sérstaklega gaman að sjá Þráin gítarleikara fara í gegnum hvert hetjusólóið á eftir öðru án þess að slá feilnótu. Sannkölluð íslensk gítarhetja. Jón Geir trommari átti líka á tíðum stórleik, sem og raunar allt bandið. Björgvin forsöngvari skilaði dýrt kveðnum textunum vel frá sér og dýrsleg öskrin í Baldri gítarleikara voru svakaleg. Það sem skilur Skálmöld frá flestum öðrum þungarokksböndum eru raddanirnar í þjóðlegum stíl, sem Gunnar hljómborðsleikari útsetur eftir kúnstarinnar reglum. Hann átti síðan sitt andartak þegar hann fór með rímu Miðgarðsorms og uppskar mikið klapp fyrir. Hámarkinu var síðan náð í besta lagi plötunnar að mínu mati, sem er Hel. Þá bættist Edda í Angist í hópinn á sviðinu og "söng" eða rumdi línur Heljar. Enn eitt gæsahúðarmómentið (hér má sjá upptöku áhorfanda af laginu). Kórinn mætti síðan aftur í síðasta laginu og hringnum var lokað með stæl. Og þeir sem héldu að ballið væri búið þarna höfðu rangt fyrir sér. Eftir stutta pásu var aftur slegið í klárinn og boðið upp á nokkur vel valin lög af Baldri, fyrstu plötu sveitarinnar, í kaupbæti. Salurinn tók hraustlega undir í lokalaginu Kvaðningu, sem hver einasti gestur virtist kunna utanbókar. Sérstaklega var gaman að sjá hve breiður aldurshópur aðdáenda Skálmaldar er og voru yngstu gestirnir komnir vel fram yfir venjulegan háttatíma þegar yfir lauk. Víkingamálmurinn sem Skálmaldarmenn bræða saman er ekki allra en ég fullyrði að enginn fer ósnortinn út af tónleikum hjá þeim. Þeir eru geysiþéttir, syngja allir og spila eins og englar (eða einherjar öllu heldur) og það sem mest er um vert, spilagleðin skín svo af hverju andliti að það er eiginlega ekki hægt annað en að hrífast með. Frábært kvöld og fullt hús stiga. Gagnrýni Mest lesið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Lifa hægara lífi í New York en á Íslandi Lífið Bein útsending: Vikulöng þrekraun Einars Lífið Nammimaðurinn er allur Lífið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Fagnar átta árum án hugbreytandi efna Lífið Glæsileg folaldasýning í Skálakoti undir Eyjafjöllum Lífið Rómantík í loftinu hjá Sveindísi Jane Lífið „Sigmundur Davíð gerði ekki shit þegar hann var forsætisráðherra“ Lífið Málningartrönur á miðri götu Berlínar breyttu gangi sögunnar Lífið Fleiri fréttir Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Tónleikar. Skálmöld. Háskólabíó. Laugardaginn 9. febrúar. Boðið var upp á veislu fyrir augu og eyru í Háskólabíói á laugardagskvöldið þegar drengirnir í Skálmöld tjölduðu öllu til og fluttu nýjustu plötuna sína, Börn Loka, í heild sinni og af miklum metnaði. Þar er sögð saga flækingsins Hilmars Baldurssonar, sem fenginn er til að ráða niðurlögum barna Loka og uppskera mikinn heiður að launum. Heiður sem hann þarf síðan að gjalda dýru verði. Bibbi bassaleikari á heiðurinn af textum plötunnar og sögunni allri og þar hefur hann unnið afrek. Hann er enda tilnefndur sem textahöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og hlýtur bara að vinna, annað væri ekki sanngjarnt. Sagan af Hilmari og systur hans Brynhildi myndi sæma sér vel sem grunnur að fínustu víkingamynd a la Hrafn. Á tónleikunum var sagan líka í aðalhlutverki og stórt bíótjaldið nýtt til þess að sýna textana, og vel unnin myndskeið og teikningar sköpuðu ásamt góðri lýsingu ansi magnað andrúmsloft. Stórleikarinn Ólafur Darri var í hlutverki sögumanns og á milli laga fyllti hann í eyðurnar með sinni djúpu röddu þannig að úr varð heilsteypt saga, eins konar þungarokksópera á epískum skala. Ballið byrjaði þegar félagar í kammerkórnum Hljómeyki stigu á stokk með Skálmaldarmönnum og fyrsta lag plötunnar, Óðinn, dúndraðist út í sal. Ef hávaðinn úr hljóðkerfinu hefði ekki verið svo mikill sem raun var hefði sennilega mátt heyra gæsahúðina spretta fram á tónleikagestum. Svo var rennt í hvert lagið á eftir öðru. Troðfullur salurinn var vel með á nótunum og ungir sem aldnir tóku hraustlega undir í viðlögunum. Spilamennskan var óaðfinnanleg og sérstaklega gaman að sjá Þráin gítarleikara fara í gegnum hvert hetjusólóið á eftir öðru án þess að slá feilnótu. Sannkölluð íslensk gítarhetja. Jón Geir trommari átti líka á tíðum stórleik, sem og raunar allt bandið. Björgvin forsöngvari skilaði dýrt kveðnum textunum vel frá sér og dýrsleg öskrin í Baldri gítarleikara voru svakaleg. Það sem skilur Skálmöld frá flestum öðrum þungarokksböndum eru raddanirnar í þjóðlegum stíl, sem Gunnar hljómborðsleikari útsetur eftir kúnstarinnar reglum. Hann átti síðan sitt andartak þegar hann fór með rímu Miðgarðsorms og uppskar mikið klapp fyrir. Hámarkinu var síðan náð í besta lagi plötunnar að mínu mati, sem er Hel. Þá bættist Edda í Angist í hópinn á sviðinu og "söng" eða rumdi línur Heljar. Enn eitt gæsahúðarmómentið (hér má sjá upptöku áhorfanda af laginu). Kórinn mætti síðan aftur í síðasta laginu og hringnum var lokað með stæl. Og þeir sem héldu að ballið væri búið þarna höfðu rangt fyrir sér. Eftir stutta pásu var aftur slegið í klárinn og boðið upp á nokkur vel valin lög af Baldri, fyrstu plötu sveitarinnar, í kaupbæti. Salurinn tók hraustlega undir í lokalaginu Kvaðningu, sem hver einasti gestur virtist kunna utanbókar. Sérstaklega var gaman að sjá hve breiður aldurshópur aðdáenda Skálmaldar er og voru yngstu gestirnir komnir vel fram yfir venjulegan háttatíma þegar yfir lauk. Víkingamálmurinn sem Skálmaldarmenn bræða saman er ekki allra en ég fullyrði að enginn fer ósnortinn út af tónleikum hjá þeim. Þeir eru geysiþéttir, syngja allir og spila eins og englar (eða einherjar öllu heldur) og það sem mest er um vert, spilagleðin skín svo af hverju andliti að það er eiginlega ekki hægt annað en að hrífast með. Frábært kvöld og fullt hús stiga.
Gagnrýni Mest lesið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Lifa hægara lífi í New York en á Íslandi Lífið Bein útsending: Vikulöng þrekraun Einars Lífið Nammimaðurinn er allur Lífið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Fagnar átta árum án hugbreytandi efna Lífið Glæsileg folaldasýning í Skálakoti undir Eyjafjöllum Lífið Rómantík í loftinu hjá Sveindísi Jane Lífið „Sigmundur Davíð gerði ekki shit þegar hann var forsætisráðherra“ Lífið Málningartrönur á miðri götu Berlínar breyttu gangi sögunnar Lífið Fleiri fréttir Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira