Fótbolti

Eiður Smári táraðist í sjónvarpsviðtali: Minn síðasti landsleikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Daníel
Eiður Smári Guðjohnsen táraðist í viðtali í útsendingu sjónvarpsins eftir tapleikinn á móti Króatíu. Hann tilkynnti síðan í lok viðtalsins að hann hafi líklega spilað sinn síðasta landsleiks í Zagreb í kvöld.

„Í heildina lítið, því miður, náðum við ekki að spila nógu vel í kvöld. Vorum ragir framan af að taka boltann niður og spila á milli. mikið af háum boltum fram sem við náðum ekki að vinna. Spilaðist ekki nægilega vel, alla vega ekki eins og við ætluðum okkur," sagði Eiður Smári í viðtali við Hauk Harðarson, íþróttafréttamann hjá Sjónvarpinu.

„Svo kemur rauða spjaldið og við náum að halda ró okkar fram að hálfleik. En annað markið var rothögg og drepur okkur í raun. Hefði staðan verið 1-0 hefði þetta alltaf verið mögulegt en miðað við hvernig leikurinn þróaðist var erfitt að brjóta þá á bak aftur og skora tvö," sagði Eiður Smári.

„Fyrri leikurinn tók líklega of mikla orku af okkur, að spila manni færri í rúmar 45 mínútur hefur tekið sinn toll. Svekkelsið er mikið. menn leyfðu sér að dreyma, eins og allir landsmenn gerðu kannski. Eftir mesta svekkelsið ættum við að reyna að halda upp á þann áfanga sem við náðum. Við náðum að gleðja fólkið og skapa smá spennu í kringum landsliðið," sagði Eiður Smári.

Haukur spurði síðan Eið Smára um framhaldið í landsliðinu og þá tóku við dramatískar sekúndur þar sem markahæsti leikmaður Íslands frá upphafi réð ekki við tilfinningar sínar, brotnaði niður og táraðist. „Ég er ansi hræddur að þetta hafi verið minn síðasti landsleikur," sagði Eiður Smári síðan og fékk síðan faðmlag að launum frá Hauki. Dramatísk og söguleg stund.

Hér má horfa á viðtalið við Eið Smára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×