Viðskipti erlent

Statoil borar nyrstu brunna Norðurslóða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Helge Lund, forstjóri Statoil.
Helge Lund, forstjóri Statoil.
Tvær holur sem norska ríkisolíufélagið Statoil borar í vor í Barentshafi á svokölluðu Hoop-svæði, um 350 kílómetra norðan Hammerfest, verða nyrstu olíubrunnar á jörðinni til þessa. Forstjóri Statoil kveðst ekki efast um að heimurinn þarfnist olíu Norðurslóða.

Þetta kemur fram í frásögnum norskra fjölmiðla af ráðstefnu sem Petroleumstilsynet, olíueftirlit Noregs, stóð fyrir í Stavanger á föstudag um öryggi og áhættu við olíustarfsemi á svæðum norðan heimskautsbaugs, en íslenska Drekasvæðið er í þeim hópi. Ráðstefnuna sóttu meðal annarra helstu forystumenn norska olíuiðnaðarins sem og fulltrúar margra stærstu olíufélaga heims.

Helge Lund, forstjóri Statoil, flutti inngangsfyrirlesturinn. Hann sagði það ekki markmið Statoil að vera fyrst inn á svæðið. Félagið hefði hins vegar metnað, og hefði lagt mikið fé og fyrirhöfn, í að undirbúa sig sem best fyrir örugga og skilvirka starfsemi á krefjandi svæðum. Félagið hefði því samkeppnisforskot.

Greenpeace-samtökin hafa harðlega gagnýnt áform Statoil og meðal annars vísað til reiknilíkana sérfræðinga norsku veðurstofunnar um að olíuleki frá fyrirhuguðu borsvæði gæti náð til hafísrandarinnar og náttúrufriðlandsins á Bjarnareyju.

Um áhyggjur umhverfisverndarsamtaka sagði Statoil-stjórinn: „Við höfum strangar kröfur sem yfirvöld setja og strangar eigin kröfur og borum ekki nema við teljum það forsvaranlegt. Við höfum oft verið gagnrýndir og margir hafa lengi haft áhyggjur af norska olíuiðnaðinum. Ég held að það megi samt halda því fram að iðnaðurinn hafi náð mjög góðum árangri og verði stöðugt betri.“

Greenpeace-samtökin fordæmdu forystumenn Statoil á dögunum fyrir að neita að tjá sig um hvort olíufélagið ætli að styðja baráttu samtakanna fyrir frelsun Grænfriðunga úr rússnesku fangelsi.  30 aðgerðarsinnar Greenpeace sitja í varðhaldi í Murmansk og eiga yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi fyrir að klifra utan á rússneskan olíuborpall í Barentshafi þann 18. september síðastliðinn.

„Við förum stöðugt norðar og fáum betri tækni. En við erum háð pólitískum velvilja og áhuga,“ hefur vefmiðilinn Offshore eftir Helge Lund og bendir á að um 20% af óuppgötvuðum auðlindum séu á Norðurslóðum. „Heimurinn þarf meiri orku. Allar trúverðugar greiningar sem ég hef séð sýna að öll form af orku þurfa að vaxa, einnig olía og gas.“

Statoil-forstjórinn sagði mikilvægt að hafa traust samfélagsins til framtíðar. Þess yrði ekki aflað með auglýsingaherferðum. Hlutar samfélagsins efuðust um starfsemi olíufélaga og væru sérstaklega gagnrýnir á áform þeirra á þessum svæðum. Mikilvægt væri að olíuiðnaðurinn væri rekinn með háum gæðastöðlum og með opinni umræðu.

„Við erum iðnaður sem á hverjum degi verður að gera sig verðugan að þeim auðlindum sem hann vill þróa. Traust er forsenda þess að við fáum aðgang að fleiri auðlindum. Það verður ekki leyst með auglýsingaherferðum. Það sem eykur traust er að iðnaðurinn starfi stöðugt á háu stigi og að við séum opnir um starfsemi okkar. Við höfum lítið að fela og mikið að vinna með því að vera opnir,“ segir Helge Lund í viðtali við Aftenbladet.

Borpallurinn West Hercules mun hefja boranirnar í apríl næsta vor.
Hann segir Norðurslóðir ekki fyrir byrjendur. Krafan um miklar fjárfestingar og tækniþróun þýði að stóru fyrirtækin verði að leiða þessa þróun. Hann segir mikilvægt þegar rætt sé um norðurhjarann að skilja á milli þess sem hann skilgreinir sem þrjú mismunandi svæði og kallar „Workable Arctic“, „Stretch Arctic“ og „Extreme Arctic“. Í fyrsta flokknum séu svæði eins og Mjallhvít, þar sem starfsemi sé þegar hafin, í öðrum flokknum séu svæði sem kalli á meiri nýsköpun en svæðin í þriðja flokknum séu það krefjandi að áratugir muni líða áður en þar hefjist starfsemi.


Tengdar fréttir

Björgunarmiðstöð verði á Bjarnarey

Einn helsti áhrifamaður olíugeirans í Norður Noregi hvetur norsk stjórnvöld til að gera Bjarnarey að björgunarmiðstöð vegna olíuleitar í Barentshafi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×