Tónlist

Bitlaust bossaskak

Miley Cyrus í djörfum dansi á VMA-hátíðinni.
Miley Cyrus í djörfum dansi á VMA-hátíðinni. mynd/getty
Fjórir dagar eru nú liðnir frá umdeildu atriði Miley Cyrus á VMA-hátíð MTV-sjónvarpsstöðvarinnar og andköfin heyrast enn. Sumir hneyksluðust en aðrir fundu kjánahrollinn hríslast um sig. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr klámvæðingu popptónlistar almennt en þetta atriði fannst mér heldur aumt.

Mér dettur að sjálfsögðu í hug hið víðfræga „Nipplegate“-mál frá 2004, þegar Justin Timberlake afhjúpaði annað brjóst söngkonunnar Janet Jackson í hálfleik Super Bowl-leiksins. Húsmæður signdu sig og í nokkra sólarhringa hætti fólki að vera skítsama um Janet Jackson. Þetta augljósa og lítið ögrandi auglýsingatrix gerði samt lítið fyrir feril Jackson til lengri tíma litið. Til þess er hún, með fullri virðingu, of ómerkilegur listamaður.

Kannski er ég bara svona þrælskemmdur eftir tíunda áratuginn. Áratuginn þegar meginstraums-tónlistarmaðurinn Marilyn Manson lék sér með táknmyndir nasista og kallaði sig „The God of Fuck“. Þegar hljómsveitin Metallica söng í beinni útsendingu á MTV-hátíðinni um að drepa börn og hafa mök við geitur. Þegar Madonna hafði samfarir í tónlistarmyndböndum sínum og rapparar sungu nær eingöngu um að skjóta löggur, neyta eiturlyfja og neyða konur til kynferðisathafna. Þessu hlógu reyndar norsku svartþungarokkararnir að, enda brenndu þeir kirkjur og drápu hver annan.

Það er því kannski ekkert skrýtið að ég hafi ekki kippt mér upp við sýndarsamfarir Miley Cyrus. Fyrir mér voru þær nákvæmlega jafn ögrandi og slagarinn sem gerði pabba hennar frægan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×