Viðskipti erlent

IATA spáir 67% aukningu á hagnaði flugfélaga í ár

Alþjóðaflugumferðarstofnunin IATA spáir því að hagnaður flugfélaga heimsins muni aukast um 20% umfram það sem stofnunin spáði fyrir aðeins þremur mánuðum.  Gangi spáin eftir mun hagnaðurinn aukast um 67% frá fyrra ári.

Þannig reiknar IATA með að hreinn hagnaður félaganna verði 12,7 milljarðar dollara eða um 1.600 milljörðum kr. í ár. Fyrri spá IATA sem sett var fram í mars s.l. gerði ráð fyrir að hagnaðurinn yrði 10,6 milljarðar dollara. Gangi hin uppfærða spá eftir mun hagnaðurinn verða 67% meiri en í fyrra sem fyrr segir.

Bloomberg fréttaveitan fjallar um málið en þar kemur fram að hin uppfærða spá byggir á mun betri sætanýtingu flugfélagana en fyrri spá. Nýtingin er tilkomin vegna samdráttar á sætaframboðinu.

Flugfélög heimsins munu flytja samtals 3 milljarða farþega í ár og er þetta í fyrsta skipti sem farþegafjöldinn nær þeirri tölu.

Mesti hagnaðurinn verður hjá flugfélögum í Asíu og Norður Ameríku eða vel yfir 4 milljarða dollara í hvorri heimsálfu um sig. Evrópa kemur í þriðja sæti en þar er reiknað með að hreinn hagnaður flugfélaga nemi 1,6 milljörðum dollara eða um 200 milljörðum kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×