Viðskipti erlent

Aldraðir í Hollandi reiðir vegna skerðinga á lífeyrisgreiðslum

Mikil reiði ríkir meðal aldraða í Hollandi vegna þess að lífeyrissjóðir landsins hafa skorið niður lífeyrisgreiðslur sínar að skipan seðlabanka landsins.

Fjallað er um málið í Financial Times. Þar segir að gífurlegt gat hafi myndast í lífeyrissjóðum Hollands. Um síðustu áramót vantaði þá 30 milljarða evra, eða 4.800 milljarða króna, til þess að sjóðirnir gætu staðið við framtíðarskuldbindingar sínar.

Ástæðan fyrir þessari slæmu stöðu lífeyrissjóðanna er sambland af því að vextir eru í sögulegu lágmarki, efnahagslíf landsins hefur verið í mikilli lægð vegna evrukreppunnar og lífaldur fólks fer stöðugt hækkandi.

Seðlabanki Hollands skipaði 66 lífeyrissjóðum landsins í síðasta mánuði að lækka lífeyrisgreiðslur sínar vegna þeirrar stöðu sem komin er upp. Lækkunin er að meðaltali 2% en sumir af minni sjóðunum þurfa að lækka greiðslurnar um allt að 7%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×