Viðskipti erlent

Deutsche Bank reynir að semja við ítalska saksóknara

Lögmenn Deutsche Bank hafa setið á fundi í morgun með ítölsku saksóknurunum sem rannsaka stórt svikamál í Monte dei Paschi bankanum, elsta banka heimsins  og þeim þriðja stærsta á Ítalíu. Lögmennirnir eru að reyna að koma í veg fyrir að saksóknararnir leggi hald á fjármuni Deutsche Banka á Ítalíu svipað og gert var hjá japanska bankanum Nomura.

Í frétt á Reuters segir að tengsl Deutsche Bank við þetta hneykslismál megi rekja aftur til ársins 2008 þegar Monte dei Paschi gerði afleiðusamninga við þýska bankann sem kallaðir voru „Santorini“. Ítalski bankinn tapaði gífurlegum upphæðum á þessum afleiðusamningum sem og tveimur öðrum slíkum sem gerðir voru í framhaldinu við aðra banka. Monte dei Paschi reyndi síðan að fela tapið í bókhaldi sínu með kolólöglegum aðferðum.

Eins og fram hefur komið í fréttum lögðu saksóknarnir hald á upphæð hjá útibúi Nomura á Ítalíu sem nam nærri 2 milljörðum evra eða um 300 milljörðum króna. Monte dei Paschi gerði afleiðusamninga við Nomura sem kallaðir voru „Alexandria“ og tapaði miklu á þeim. Nomura bankinn er grunaður um að hafa aðstoðað Monte dei Paschi við að leyna tapinu af Alexandria.

Ekki er vitað hvort niðurstaða hafi náðst á fundinum í morgun og Reuters segir að talsmaður Deutsche Bank hafi neitað að tjá sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×