Viðskipti erlent

Örvænting á gullmörkuðum, mesta verðhrun í sögunni

Örvænting greip um sig á gullmörkuðum heimsins í gærdag þegar mesta verðhrun á heimsmarkaðsverði á gulli i sögunni varð staðreynd.

Heimsmarkaðsverð á gulli hrapaði um yfir 14% á tveimur dögum, það er á föstudag og í gærdag.  Verðið lækkaði í gær um 125 dollara sem er mesta verðhrun á gullmarkaðinum á einum degi í sögunni.

Um tíma í gærdag var staðgreiðsluverðið á gulli komið nokkuð niður fyrir 1.330 dollara á únsuna. Leita verður aftur til ársins 1983 til að finna álíka mikla lækkun á gullverðinu á tveimur dögum í röð. Í morgun hefur verðið svo hækkað aðeins að nýju eða um 1%.

Örvæntingin hófst þegar ljóst var að hagvöxtur í Kína stóð ekki alveg undir væntingum á fyrsta ársfjórðung ársins. Raunar mælist 7,7% hagvöxtur í landinu og ætti það ekki að valda verðhruni í sjálfu sér. Hinsvegar komu þessi tíðindi beint ofan í fréttir um að Kýpur mundi selja megnið af yfir 13 tonna gullforða sínum á næstunni.

Það varð svo ekki til að bæta ástandið þegar orðrómur fór um gullmarkaðinn um að Goldman Sachs bankinn væri að losa sig úr skortstöðum á honum með því að selja samninga sína í stórum stíl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×