Viðskipti erlent

Svíar streyma brátt til Danmerkur að kaupa ódýran bjór og gosdrykki

Svíar hugsa nú gott til glóðarinnar að geta keypt ódýran bjór og gosdrykki í Danmörku á næstunni, og sparað sér þar með ferð til Þýskalands.

Fjallað er um málið á vefsíðu börsen. Þar segir að ef áform danskra stjórnvalda um lækkun á sköttum og gjöldum á bjór og gosdrykkjum nái fram að ganga séu Svíar reiðubúnir. Búast megi við að þeir keyri innkaupakerrur af stærri gerðinni, hlaðnar bjór og gosdrykkjum, út úr dönskum verslunum í Frederikshavn, Helsingör og Kaupmannahöfn á næstunni.

Þegar er byrjað að fjalla um þessa gósentíð í sænskum fjölmiðlum. Þannig segir í blaðinu Expressen að brátt muni Svíar streyma til Danmerkur til að kaupa ódýran bjór, sænskum brugghúsum til mikillar hrellingar.

Hér er ekki um nein smáviðskipti að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá sambandi sænskra brugghúsa flytur sænskur almenningur inn til landsins um 100 milljónir lítra af bjór á hverju ári. Þetta magn samsvarar um fjórðungi af allri bjórdrykkju í Svíþjóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×