Ský á mig 21. júlí 2012 06:00 Snjór úti, snjór inni, snjór í hjarta, snjór í sinni. Snjó meiri snjó!" söng þriggja ára dóttir mín og gerði snjóengil á stofugólfið sem skýringu á því af hverju hún vildi ekki fara út. Þetta var á fimmtánda degi í sumarfríi þar sem einu sinni hafði komið dropi úr lofti en sólin annars bulið á glaðbeittum hægfara hringförum allan tímann með tilheyrandi bílahita og rykmekki á fáfarnari leiðum. Breyttir tííímaar, hugsaði ég og mundaði sólarvörnina. Þegar ég var lítil og óx úr grasi í Reykjavík var skilgreiningin á sumri að þurfa ekki að fara með vettlinga út að leika. Stuttbuxur og stuttermabolir voru flíkur keyptar til sólarlandaferða og notaðar af tómri þrjósku í útilegum fjölskyldunnar þar sem næturkuldinn gat orðið slíkur að einu sinni breiddi amma útrúllaðar pönnukökur ofan á okkur mömmu þegar allt annað þraut. Ís var snæddur inni í bíl með miðstöðina á. Mér skilst reyndar (og man eftir fréttum þess efnis) að á Akureyri og Austfjörðum hafi stundum verið sólríkt fyrr á sumrum. Einn og einn dag, jafnvel viku í senn. En ekki í Reykjavík. Sökum sólarleysis í bernsku var ég alin upp við að „nota veðrið". Ef sólin sást skyldu börn fara út að leika sér. Ég og besta vinkona mín, sem áttum það sameiginlegt að lesa heil ósköp þó við lékum okkur líka reiðinnar býsn, gerðum þær málamiðlanir við foreldra okkar að fara út í garð með bókasafnsstaflana okkar og lesa úti í sólinni, til að hún færi ekki ónýtt gegnum heilan dag. Rokið var reyndar oft á undan okkur að fletta blaðsíðunum. Nú er öldin önnur (í alvöru) og sól telst ekki eins ákjósanleg á hvíta íslenska barnshúð, hvað þá föla mömmufreknuhúð og á þeirri síðustu. Fyrir utan að sólskin dag eftir dag, viku eftir viku, telst vart til tíðinda lengur. Enn býr samt áróðurinn í sálinni, sólin vekur allt með kossi, slær silfri á voga og gott er í henni að gleðja sig. Og þess vegna hef ég, og að því er mér sýnist flestir Íslendingar, verið á þönum að nota veðrið í heilan mánuð og margir orðnir nokkuð lúnir. Nú á að rigna í Reykjavík um helgina. Vinir mínir í tölvunni hlakka unnvörpum til að geta leyft sér að vera inni og lesa, spila, horfa á sjónvarp eða spjalla. Stelpurnar hlakka líka rosalega til. Þær ætla út. Að hoppa í pollum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Brynhildur Björnsdóttir Mest lesið Mamma fékk fjórar milljónir fyrir að eignast þig í apríl Guðfinna Kristín Björnsdóttir Skoðun Tímaskekkja í velferðarríki Stefán Þorri Helgason Skoðun Þegar Steve Jobs græddi milljarða á Toy Story Björn Berg Gunnarsson Fastir pennar Þegar Inga Sæland sendir reikninginn á næsta borð Einar Þorsteinsson Skoðun Þreytta þjóðarsjálfið Starri Reynisson Skoðun Umferðarslys eða umhverfisslys Baldur Sigurðsson Skoðun Síðan hvenær var bannað að hafa gaman? Hópur stjórnarmanna í Uppreisn Skoðun Milljarðarnir óteljandi og bókun 35 Haraldur Ólafsson Skoðun Vextir eins og í útlöndum? Björn Berg Gunnarsson Skoðun Kynjuð vísindi, leikskólaráð á villigötum, klámsýki, svipmyndir frá Norður-Kóreu Fastir pennar
Snjór úti, snjór inni, snjór í hjarta, snjór í sinni. Snjó meiri snjó!" söng þriggja ára dóttir mín og gerði snjóengil á stofugólfið sem skýringu á því af hverju hún vildi ekki fara út. Þetta var á fimmtánda degi í sumarfríi þar sem einu sinni hafði komið dropi úr lofti en sólin annars bulið á glaðbeittum hægfara hringförum allan tímann með tilheyrandi bílahita og rykmekki á fáfarnari leiðum. Breyttir tííímaar, hugsaði ég og mundaði sólarvörnina. Þegar ég var lítil og óx úr grasi í Reykjavík var skilgreiningin á sumri að þurfa ekki að fara með vettlinga út að leika. Stuttbuxur og stuttermabolir voru flíkur keyptar til sólarlandaferða og notaðar af tómri þrjósku í útilegum fjölskyldunnar þar sem næturkuldinn gat orðið slíkur að einu sinni breiddi amma útrúllaðar pönnukökur ofan á okkur mömmu þegar allt annað þraut. Ís var snæddur inni í bíl með miðstöðina á. Mér skilst reyndar (og man eftir fréttum þess efnis) að á Akureyri og Austfjörðum hafi stundum verið sólríkt fyrr á sumrum. Einn og einn dag, jafnvel viku í senn. En ekki í Reykjavík. Sökum sólarleysis í bernsku var ég alin upp við að „nota veðrið". Ef sólin sást skyldu börn fara út að leika sér. Ég og besta vinkona mín, sem áttum það sameiginlegt að lesa heil ósköp þó við lékum okkur líka reiðinnar býsn, gerðum þær málamiðlanir við foreldra okkar að fara út í garð með bókasafnsstaflana okkar og lesa úti í sólinni, til að hún færi ekki ónýtt gegnum heilan dag. Rokið var reyndar oft á undan okkur að fletta blaðsíðunum. Nú er öldin önnur (í alvöru) og sól telst ekki eins ákjósanleg á hvíta íslenska barnshúð, hvað þá föla mömmufreknuhúð og á þeirri síðustu. Fyrir utan að sólskin dag eftir dag, viku eftir viku, telst vart til tíðinda lengur. Enn býr samt áróðurinn í sálinni, sólin vekur allt með kossi, slær silfri á voga og gott er í henni að gleðja sig. Og þess vegna hef ég, og að því er mér sýnist flestir Íslendingar, verið á þönum að nota veðrið í heilan mánuð og margir orðnir nokkuð lúnir. Nú á að rigna í Reykjavík um helgina. Vinir mínir í tölvunni hlakka unnvörpum til að geta leyft sér að vera inni og lesa, spila, horfa á sjónvarp eða spjalla. Stelpurnar hlakka líka rosalega til. Þær ætla út. Að hoppa í pollum.