Tónlist

Selur 10.000 plötur heima hjá sér

10.000 titlar Plötusafn Arnars Eggerts stórt og spannar fjölbreytta tónlist. Hann verður með yfir 10.000 titla til sölu í bakgarðinum um helgina.
Fréttablaðið/stefán
10.000 titlar Plötusafn Arnars Eggerts stórt og spannar fjölbreytta tónlist. Hann verður með yfir 10.000 titla til sölu í bakgarðinum um helgina. Fréttablaðið/stefán
„Ég er að reyna að grisja safnið eins og ég get svo ég geti haldið áfram og safnað af meiri fókus. Það kom tímabil þar sem ég ætlaði að kaupa allar plötur heimsins en það er víst óþarfi," segir Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarmógúll, sem verður með yfir 10.000 titla úr tónlistarsafni sínu á garðsölu um komandi helgi.

Plötusafn Arnars Eggerts er líklegast með þeim stærri á landinu og því líklegt að flestir muni finna eitthvað við sitt hæfi á sölunni.

„Þarna verður að finna góða sneið af þeirri músík sem komið hefur út. Íslensk og erlend tónlist, popp og rokk og bara allur skalinn," segir hann en verðinu verður haldið vel í skefjum og verða plöturnar falar á frá 100 upp í 500 krónur.

Arnar býst við miklu fjöri á sölunni sem haldin verður í bakgarðinum heima hjá honum, að Auðarstræti 13, Reykjavík, laugardaginn 14. júlí og sunnudaginn 15. júlí frá klukkan 11 til 17.

„Ég finn að það er að skapast mikil stemning fyrir þessu og fólk í músíkbransanum er sérstaklega spennt. Þetta gæti því endað í einhvers konar blokk-partýi í leiðinni," segir hann spenntur, en ekki skemmir góð veðurspá helgarinnar þar fyrir. Ástæða sölunnar er yfirvofandi flutningur Arnars og fjölskyldu hans til Edinborgar þar sem hann hyggst setjast á skólabekk og stunda framhaldsnám í tónlistarfræði eða musicology.

„Það er hugur í fjölskyldunni en þetta verður auðvitað mikil breyting. Við erum á fullu í alls kyns handavinnu þessa dagana og að græja hitt og þetta," segir hann en fjölskyldan heldur utan 2. ágúst næstkomandi. - trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×