Bakþankar

Sykursíkið

Atli Fannar Bjarkason skrifar
Páskadagur er á morgun og ég er búinn með helminginn af páskaegginu mínu. Þegar ég segi „helminginn" meina ég „eiginlega allt". Ég er kámugur á puttunum eftir óhóflega neyslu af unaðslegu súkkulaði og sé ekki eftir neinu. Samt er ég meðvitaður um að sykur er ávanabindandi eitur sem er að drepa okkur öll.

Dr. Robert Lustig, prófessor við Kalíforníuháskóla í San Francisco, er nú í mikilli krossferð gegn sykri. Hann segir þessa yndislegu hvítu kristalla vera á ástæðuna fyrir mörgum af helstu lífstílssjúkdómum sem herja á íbúa hins vestræna heims. Hann hefur örugglega rétt fyrir sér og þetta kemur ekki neinum á óvart.

Sælgætisframboð á Íslandi er um 6.000 tonn á ári, samkvæmt landlækni. Það eru svona 36 milljónir poka af blandípoka fyrir hundraðkall. Svo fáum við auðvitað fullt af sykri úr mjólkurvörum, brauðmeti og öðrum mat. Nammibarir taka meira pláss í matvöruverslunum en ostur og pokarnir eru svo stórir að það þarf að skófla ofan í þá kílói til að sjá högg á vatni. Fyrsti nammibarinn sem ég sá var í Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi fyrir svona 15 árum. Hann var rúmur metri á breidd og innihélt kannski 30 tegundur af sælgæti. Í mesta lagi.

Í dag er sykur alls staðar. Ég þarf stundum að taka bólgueyðandi verkjalyfið Voltaren. Töflurnar eru agnarsmáar, bleikar og jú, sykurhúðaðar. Sykurhúðaðar verkjatöflur (?). Það sem við áttum okkur ekki á, en lyfjafyrirtækin eru eflaust með á hreinu, er að unaðslega sætt bragð sykurs virkjar frumhvöt sem segir okkur að það sem við erum að borða er gott. Ekki bara á bragðið, heldur beinlínis gott fyrir okkur. Næringarríkt. Hollt.

Auðvitað er samt enginn að segja að við eigum að hætta að borða sykur. Þetta er bara spurning um jafnvægi. Ég ætla að klára páskaeggið mitt og kaupa mér annað. Tvö í viðbót jafn vel. Mjólkurvörur halda áfram að vera aðalsykuruppspretta heimilanna og nammibarirnir teygja sig inn í grænmetisrekkanna. Lífið gengur sinn vanagang í sykursíkinu.






×