Gagnrýni

Heimurinn sem safngripur

Ragna Sigurðardóttir skrifar
Kortlagning hverfulleikans, Anna Líndal. Listasafn ASÍ við Freyjugötu
Kortlagning hverfulleikans, Anna Líndal. Listasafn ASÍ við Freyjugötu
Myndlist. Kortlagning hverfulleikans, Anna Líndal. Listasafn ASÍ við Freyjugötu. Til 5. febrúar. Opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13-17.



Gripir, myndir og sýnishorn frá þremur löndum eru uppistaðan í sýningu Önnu Líndal í Listasafni ASÍ. Anna sýnir í safninu öllu, enda úr miklu að moða en hún hefur að undanförnu sankað að sér efni í list sína á ferðum til fjarlægra staða og nálægra; Havaí, Aserbaídsjan og Íslands.

Persónuleg kortlagning náttúrunnar og umheimsins hefur um nokkurt skeið verið uppistaðan í list Önnu, sem jöfnum höndum vinnur skúlptúra, myndbönd og iðulega með þræði af ýmsum toga, bæði í útsaum eins og hér og sem inngrip í rými. Niðurstöður rannsókna sinna setur hún hér fram í skápum sem líkjast sýningarskápum, til dæmis náttúrugripasafna, í hillum og skúffum undir gleri, hún skapar sitt einkasafn.

Í safninu hennar má sjá sýnishorn af gróðri, ljósmyndir, útsaum þar sem útsaumsefnið er hæðarlínur landakorta, myndbönd tekin í ferðum með jöklarannsóknarmönnum og ýmsa gripi. Undirliggjandi er leit að sögu, samhengi og vangaveltur um ímyndarsköpun þjóða, en löndin þrjú sem koma við sögu eru ólík við fyrstu sýn. List Önnu veitir ekki svör, það er áhorfandans að komast að niðurstöðu.

Vinnubrögð listakonunnar eru í anda hugmyndalistar frá síðari hluta tuttugustu aldar, þegar margvísleg skrásetning ruddi sér til rúms meðal listamanna, sem dæmi má nefna ljósmyndir þeirra Bernd og Hilla Becher sem skrásettu með hjálp ljósmynda byggingar í Þýskalandi. Myndlist sem notar sér framsetningarmáta safna birtist á frábæran hátt í list Marcel Broodthaers í Belgíu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, en hann skoðaði fyrirbærið safn í gegnum list sína.

Anna kýs að finna list sinni farveg sem á uppsprettu sína í hugmyndalist af þessum toga og hefur birst á ótal vegu síðustu áratugi. Hérlendis hefur t.d. Olga Bergmann unnið jafnt og þétt innan slíks ramma. Anna hefur fyrir löngu fundið sér sinn persónulega farveg innan þessa opna ramma.

Mikil rannsóknarvinna býr að baki verkum Önnu, en það kemur á óvart hversu lítið af henni verður í raun sýnilegt, áþreifanlegt eða snertir áhorfandann. Kuldi jöklanna, dulmagn og kraftur gígs í Eyjafjallajökli, hiti og fjölskrúðugt gróður- og dýralíf Havaí eða aðstæður í Aserbaídsjan ná ekki alveg að spretta fram og hreyfa við manni. Birtan á jöklinum á myndbandinu er dauf í dagsbirtunni í Ásmundarsal en hlýtur að vera nær blindandi í raun. Smáatriði eins og þurrkað blóm og ýmsir smámunir eru þó eins og litlir gluggar inn í annan heim og gefa sýningunni líf. Anna heldur áfram á ferli því sem hún hefur markað sér á undanförnum árum og er það vel.

Niðurstaða: Áhugaverð og vel unnin einkasýning eins okkar fremstu listamanna. Sýningin í heild er helst til áhrifalítil en innan hennar gera smærri atriði heildina eftirminnilegri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×