Gagnrýni

Langur forleikur

Elísabet Brekkan skrifar
Valdimar Örn Flygering leikstjóri á heiður skilinn fyrir gott samspil hópsins.
Valdimar Örn Flygering leikstjóri á heiður skilinn fyrir gott samspil hópsins.
Leikhús. Póker eftir Patrick Marber . Sýnt í Tjarnarbíói. Leikarar: Magnús Guðmundsson, Ellert A. Ingimundarson, Jón Stefán Sigurðsson, Þorsteinn Gunnar Björnsson, Ingi Hrafn Hilmarsson, Finnbogi Þorkell Jónsson, þýðandi: Jón Stefán Sigurðsson, ljós: Björn E. Sigmarsson, leikmynd: Svanur Þór Bjarnason, leikstjóri: Valdimar Örn Flygenring.



Spilafíkn, græðgi, einfeldni, von og örvænting einkenna hegðun persónanna í leikritinu Póker sem frumsýnt var á sunnudag. Það gerist á veitingastaðnum Charlie þar sem starfsmenn spila saman póker einu sinni í viku þegar viðskiptavinir hafa yfirgefið staðinn.

Leikritið sjálft er svo sem ekki upp á marga fiska en leikurinn hjá hverjum og einum leikara nokkuð góður. Ungir nýútskrifaðir leikarar úr skólum erlendis leika hér með einum eldri; Ellerti A. Ingimundarsyni sem með sinni miklu og skemmtilegu rödd skilar vel hinum grófa en þó nokkuð skilningsríka Stephen.

Son hans Charlie leikur Ingi Hrafn Hilmarsson og skilaði hann mjög vel þessari ábyrgðarlausu hegðun sem einkennir spilafíkla. Mugsy er einn þjónanna. Hálfgerður einfeldningur sem á sér von um eigið veitingahús en leggur full mikið undir í spilunum og er meira í skýjunum en niðri á jörðunni. Magnús Guðmundsson leikur þennan fyndna þjón og á marga mjög skemmtilega spretti og heillaði salinn. Hann hefur einkar góða nærveru og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni. Sweeney er viðkvæmur matreiðslumaður sem Finnbogi Þorkell Jónsson léði lífi á fantagóðan hátt. Sá sem kom til þess að innheimta skuldir og var með hið raunverulega pókerandlit var leikinn af Þorsteini Gunnari Bjarnasyni og hélt hann andlitinu allan tímann. Annar langur og glettilegur þjónn að nafni Frankie er einn af pókerspilurunum og leikur Jón Stefán Sigurðsson hann og á líka nokkuð hressilega spretti.

Ef ekki væri fyrir húmorinn og hraðann í samtölum lifði þetta leikverk varla því undirbúningur undir pókerspil og þá ógæfu sem því fylgir er varla nóg til þess að halda spennu. Engu að síður var varla dauður punktur í sýningunni og hefur Valdimari Flygenring farnast það vel úr hendi að ná góðu samspili hópsins.

Lýsingin sem Björn E. Sigmarsson er skrifaður fyrir var mjög góð og hæfði verkinu vel. Áhorfendur sitja í kringum leiksviðið sem átti einkum vel við í seinni hluta verksins þegar mennirnir sex sitja og spila póker með skæra birtu úr hangandi ljósakrónu alveg eins og við sjáum í öllum glæpamyndum. Þess má geta að lokum að lýsing Björns E. Sigmarssonar var mjög góð.

Niðurstaða: Góður leikur hjá samstilltum hópi en leikritið er ekki uppá marga fiska.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×