Gangið lengra Þórður Snær Júlíusson skrifar 7. janúar 2012 06:00 Sitjandi ríkisstjórn efndi vilyrði úr stjórnarsáttmála sínum á gamlársdag þegar hún fækkaði ráðuneytum í níu og kynnti áform um að fækka þeim í átta. Opinberar umræður um þessa aðgerð hafa að mestu snúist um persónur þeirra sem þurftu að standa upp úr ráðherrastólum sínum og þá meintu pólitísku óvild sem bjó að baki brottvikningu þeirra. Mun minna hefur verið rætt um hversu skynsamlegt það er að ráðast í skipulagsbreytingar í íslensku stjórnkerfi. Og enn minna um hversu nauðsynlegt er að halda þeim áfram. Á Íslandi búa 318 þúsund manns. Þorri þeirra er tiltölulega einsleitur hópur búinn til úr bræðingi af Keltum og Norðmönnum. Útflutningur okkar er 95,5% sjávarafurðir og iðnaðarvörur, aðallega ál sem er framleitt með íslenskri orku. Þriðja hjólið undir vagninum er ört vaxandi ferðaþjónusta, en á síðasta ári komu um 540 þúsund manns hingað. Hér ríkir sæmileg þjóðarsátt um tilveru velferðarkerfis, gildi menntunar, stuðning við réttarríkið og virðingu fyrir mannréttindum. Með öðrum orðum þá er þetta tiltölulega einfalt samfélag byggt á fáum en gríðarlega mikilvægum stoðum. Samt voru hér tólf ráðuneyti fyrir ekki alls löngu, eitt fyrir hverja rúmlega 26 þúsund Íslendinga. Í byrjun árs 2010 voru um 200 opinberar stofnanir á Íslandi. Útgjöld ríkissjóðs tvöfölduðust í krónum talið á árunum 1999-2007. Þetta dreifða og veika kerfi gerði sérhagsmunaöflum mjög auðvelt fyrir að halda heilu málaflokkunum í herkví og koma fólki að sínu skapi inn á þær hillur sem skipta þau mestu máli. Í samtakamættinum og stærðarhagkvæmninni sem fylgir fækkun ráðuneyta felst viðspyrna gegn slíku ástandi. Með henni spörum við líka peninga og sköpum betri grundvöll fyrir lýðræðislega kjörin stjórnvöld til að koma þeim stefnumálum sem þau eru kosin til að framfylgja í framkvæmd. Neikvæðu hliðarnar á hagræðingunni eru þær að störf tapast. Ráðuneytis-, skrifstofu-, stofnana- og bílstjórum fækkar töluvert, en þeir voru einfaldlega allt of margir fyrir. Samhliða þessum breytingum væri heiðarlegast að gera stjórnmálamönnum sem veljast til að stýra landinu hverju sinni kleift með lögum að taka með sér stærra pólitískt starfslið inn í ráðuneytin en einn aðstoðarmann eins og nú er. Það myndi gera þeim mun auðveldara að fylgja eftir sínum áherslum og takmarka um leið þann sóðalega leik að troða samherjum sínum í embættismannastörf undir fölsku flaggi tímabundinna ráðninga. Þegar viðkomandi stjórnmálamaður yfirgefur ráðuneytið myndi hið pólitíska starfslið fylgja með, án biðlauna eða kvaða um að því verði útveguð sambærileg störf á svipuðum kjörum innan vébanda hins opinbera. Umræðan um tiltektina í íslensku samfélagi hefur að alltof miklu leyti snúist um uppsóp eftir fjármálakerfið eða nauðsyn þess að innleiða illa skilgreinda siðvæðingu. Hún hefur alltof lítið snúist um að ríkisbáknið, sem blés út á uppgangsárunum fyrir bankahrun, verði að aðlaga sig að raunveruleikanum og átta sig á að það gegnir þjónustuhlutverki gagnvart eiganda sínum, íslensku þjóðinni. Það verður að minnka, kosta minna og skilgreina betur hvaða þjónustu það þarf að veita. Skref hafa verið stigin í þessa átt. En það þarf að ganga miklu lengra. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórður Snær Júlíusson Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Kosningabaráttan er kostuð af þér Ragnar Sigurður Kristjánsson Skoðun Af hverju ætti ég að standa með kennurum? Stefán Birgir Jóhannesson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Veldu Viðreisn Katrín Sigríður J Steingrímsdóttir Skoðun Dýrkeypt jólagjöf Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Reikningskúnstir Ragnars Þórs Björn Leví Gunnarsson Skoðun
Sitjandi ríkisstjórn efndi vilyrði úr stjórnarsáttmála sínum á gamlársdag þegar hún fækkaði ráðuneytum í níu og kynnti áform um að fækka þeim í átta. Opinberar umræður um þessa aðgerð hafa að mestu snúist um persónur þeirra sem þurftu að standa upp úr ráðherrastólum sínum og þá meintu pólitísku óvild sem bjó að baki brottvikningu þeirra. Mun minna hefur verið rætt um hversu skynsamlegt það er að ráðast í skipulagsbreytingar í íslensku stjórnkerfi. Og enn minna um hversu nauðsynlegt er að halda þeim áfram. Á Íslandi búa 318 þúsund manns. Þorri þeirra er tiltölulega einsleitur hópur búinn til úr bræðingi af Keltum og Norðmönnum. Útflutningur okkar er 95,5% sjávarafurðir og iðnaðarvörur, aðallega ál sem er framleitt með íslenskri orku. Þriðja hjólið undir vagninum er ört vaxandi ferðaþjónusta, en á síðasta ári komu um 540 þúsund manns hingað. Hér ríkir sæmileg þjóðarsátt um tilveru velferðarkerfis, gildi menntunar, stuðning við réttarríkið og virðingu fyrir mannréttindum. Með öðrum orðum þá er þetta tiltölulega einfalt samfélag byggt á fáum en gríðarlega mikilvægum stoðum. Samt voru hér tólf ráðuneyti fyrir ekki alls löngu, eitt fyrir hverja rúmlega 26 þúsund Íslendinga. Í byrjun árs 2010 voru um 200 opinberar stofnanir á Íslandi. Útgjöld ríkissjóðs tvöfölduðust í krónum talið á árunum 1999-2007. Þetta dreifða og veika kerfi gerði sérhagsmunaöflum mjög auðvelt fyrir að halda heilu málaflokkunum í herkví og koma fólki að sínu skapi inn á þær hillur sem skipta þau mestu máli. Í samtakamættinum og stærðarhagkvæmninni sem fylgir fækkun ráðuneyta felst viðspyrna gegn slíku ástandi. Með henni spörum við líka peninga og sköpum betri grundvöll fyrir lýðræðislega kjörin stjórnvöld til að koma þeim stefnumálum sem þau eru kosin til að framfylgja í framkvæmd. Neikvæðu hliðarnar á hagræðingunni eru þær að störf tapast. Ráðuneytis-, skrifstofu-, stofnana- og bílstjórum fækkar töluvert, en þeir voru einfaldlega allt of margir fyrir. Samhliða þessum breytingum væri heiðarlegast að gera stjórnmálamönnum sem veljast til að stýra landinu hverju sinni kleift með lögum að taka með sér stærra pólitískt starfslið inn í ráðuneytin en einn aðstoðarmann eins og nú er. Það myndi gera þeim mun auðveldara að fylgja eftir sínum áherslum og takmarka um leið þann sóðalega leik að troða samherjum sínum í embættismannastörf undir fölsku flaggi tímabundinna ráðninga. Þegar viðkomandi stjórnmálamaður yfirgefur ráðuneytið myndi hið pólitíska starfslið fylgja með, án biðlauna eða kvaða um að því verði útveguð sambærileg störf á svipuðum kjörum innan vébanda hins opinbera. Umræðan um tiltektina í íslensku samfélagi hefur að alltof miklu leyti snúist um uppsóp eftir fjármálakerfið eða nauðsyn þess að innleiða illa skilgreinda siðvæðingu. Hún hefur alltof lítið snúist um að ríkisbáknið, sem blés út á uppgangsárunum fyrir bankahrun, verði að aðlaga sig að raunveruleikanum og átta sig á að það gegnir þjónustuhlutverki gagnvart eiganda sínum, íslensku þjóðinni. Það verður að minnka, kosta minna og skilgreina betur hvaða þjónustu það þarf að veita. Skref hafa verið stigin í þessa átt. En það þarf að ganga miklu lengra.