Gagnrýni

Fersk efnisskrá

Jónas Sen skrifar
Einar Jóhannesson og Alessandra Pompili.
Einar Jóhannesson og Alessandra Pompili.
Sumartónleikar 2012. Einar Jóhannesson og Alessandra Pompili. Listasafn Sigurjóns 21. ágúst.



Marlon Brando hafði í fyrstu ekki áhuga á að leika Guðföðurinn. Hann vildi ekki taka þátt í að upphefja mafíuna. Síðar skipti hann um skoðun, eins og frægt er. Eitt af því sem upphefur mafíuna er tónlistin í kvikmyndinni. Hún er unaðslega fögur. Öll leiðarstefin sem sérstaklega tákna mafíuna eru svo grípandi, að maður sjálfkrafa heldur með vonda fólkinu.

Nino Rota er sennilega þekktastur fyrir þessa tónlist. En hann samdi músík við ótal aðrar myndir, þ. á m. eftir Fellini. Hann var gríðarlega afkastamikill. Fyrir utan kvikmyndatónlist samdi hann líka alls konar öðruvísi músík, t.d. kammerverk. Þau hafa ekki verið áberandi í tónlistarlífinu hér. Ég man ekki eftir að hafa heyrt neitt af þeim á tónleikum. Fyrr en nú.

Í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á þriðjudagskvöldið léku þau Einar Jóhannesson klarínettuleikari og hin ítalska Alessandra Pompili sónötu í D-dúr eftir Rota. Það er sjarmerandi tónlist, lagræn og fljótandi. Einar spilaði afar fallega, hver hending var smekklega mótuð, innileg og tilfinningaþrungin. Og Pompili lék af alúð, tónarnir voru mjúkir og dreymandi. Útkoman var sérlega notaleg áheyrnar.

Efnisskráin var skemmtilega fjölbreytt. Þau Einar og Pompili léku ýmist saman, eða hvort í sínu lagi. Píanóeinleiksverkin voru fleiri, fyrst hið sérkennilega La lugubre gondola eftir Franz Liszt. Ég segi hið sérkennilega, vegna þess að Liszt var oft þungt hugsi í síðari verkum sínum. Þau eru tilraunakennd og á margan hátt langt á undan sinni samtíð. Það er líka verulegur drungi í þeim.

Pompili spilaði verkið fallega, öll innhverfan var vel mótuð og áhrifamikil. Ég hefði þó viljað heyra dramatískari, snarpari hápunkt. Maður hafði á tilfinningunni að píanistinn væri óþarflega mikið að vanda sig. Auk þess var flygillinn ekki opinn af einhverjum undarlegum ástæðum; það dempaði hljóminn.

Sömu sögu er að segja um þriðju ungversku rapsódíuna eftir Liszt, sem skorti dálítið léttleikann. Hann þarf líka að vera til staðar þótt yfirbragð verksins sé alvarlegt. En nokkrar örstuttar tónsmíðar eftir hinn argentínska Sergio Calligaris (tvær æfingar op. 11 og Il Quaderno Pianistico di Renzo) voru litríkar og túlkaðar af sannfæringarkrafti. Þetta eru tiltölulega ný verk, en aðgengileg og skemmtilega margbrotin.

Einar lék líka einleik, það var Kveðja eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Tónlistin er samin í minningu Gunnars Egilssonar klarínettuleikara. Túlkun Einars var mjúk og draumkennd, jafnvel töfrakennd.

Loks spiluðu þau Einar og Pompili Karnival í Feneyjum eftir Paul Jean-jean. Það er leikandi tónlist með mikilli flugeldasýningu sem var prýðilega útfærð. Óneitanlega flottur endir á fjölbreyttri dagskrá.

Niðurstaða: Falleg túlkun, en píanóleikarinn hefði mátt spila af meiri krafti þegar við átti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.