Veiði

Hörgá að gefa flotta bleikjuveiði

Guðrún Una með glæsilega bleikju úr Hörgsá.
Guðrún Una með glæsilega bleikju úr Hörgsá. Mynd/Svak.is
Á vef Stangaveiðifélags Akureyrar segir frá góðri bleikjuveiði í Hörgá, en í veiðibókina á netinu eru skráðar 211 bleikjur ásamt slatta af urriða/sjóbirtingi og besti tíminn að ganga í garð.

Formaður SVAK, Guðrún Una Jónsdóttir (sjá viðtal Veiðivísis fyrr í sumar) fór til veiða í vikunni á svæði 3 ásamt tengdaföður sínum Jóhannesi Sigurjónssyni. Uppskeran var góð eins og segir í fréttinni:

"Nú þegar besti bleikjuveiðitíminn er að ganga í garð heyra menn meira og meira um fína bleikjuveiði og voru okkur að berast myndir af glæsilegum bleikjum úr Hörgá […] þau voru ekki lengi að ná sér í 5 flottar bleikjur. Sú stærsta þeirra var rúm 4 pund og önnur tæp 4 pund hinar voru um 2 pundin. Jói sem er duglegur að skreppa í Hörgá talaði um að bleikjurnar væru að koma flottar úr sjó og næstu dagar í Hörgá yrðu líklega mjög skemmtilegir."

Nokkrar bleikjur sluppu einnig og talar Guðrún um það í fréttinni að hafa misst eina talsvert stærri en þessa 4 punda, þannig að þessar stóru eru greinilega að láta sjá sig með í aflanum.

Lausa daga í Hörgá má finna hér,
en til gamans má geta að laust er á nokkrum svæðum þar á meðal svæði 3 um verslunarmannahelgina sem gæti verið spennandi kostur.

svavar@frettabladid.is






×