Fótbolti

U-17 liðið tapaði fyrir Þjóðverjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Íslenska U-17 landsliðið tapaði með minnsta mun, 1-0, fyrir Þýskalandi á Evrópumeistaramótinu sem fer nú fram í Slóveníu.

Marc Stendera skoraði eina mark leiksins á 20. mínútu eftir að Þjóðverjar færðu sér mistök íslensku varnarinnar í nyt. Stendera skoraði með laglegu skoti af vítateigslínunni.

Sigurinn var sanngjarn enda Þjóðverjar hættulegri aðilinn í leiknum og mun meira með boltann. Strákarnir fengu þó sín færi. Ævar Ingi Jóhannesson skoraði mark sem var dæmt ógilt vegna rangstöðu sem var þó afar tæpur dómur. Stefán Þór Pálsson og Daði Bergsson komust svo báðir í góð skotfæri í seinni hálfleik en inn vildi boltinn ekki.

Óliver Sigurjónsson átti góðan leik í íslenska liðinu, sem og Ævar Ingi á vinstri kantinum. Heilt yfir voru þó íslensku strákarnir nokkuð ragir við að sækja fram og ekki fyrr en á síðasta stundarfjórðungnum að þeir létu reyna almennilega á þýsku vörnina.

Þjóðverjar eru með sigrinum komnir áfram í undanúrslitin og skiptir engu þó svo að liðið tapi fyrir Frökkum í lokaumferð riðlakeppninnar á fimmtudaginn.

Íslendingar mæta Georgíumönnum í lokaumferðinni og geta með sigri komist í undanúrslitin. En þá þurfa þeir líka að treysta á að Frakkar vinni ekki sinn leik gegn Þýskalandi.

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×