Viðskipti erlent

Eiginkona Hildebrand viðurkennir gjaldeyrisbraskið

Eiginkona Phillip Hilderbrand formanns bankastjórnar Seðlabanka Sviss hefur viðurkennt að það var hún sem stóð að viðamiklu gjaldeyrisbraski s.l. haust og notaði til þess sameiginlegan reikning þeirra hjóna hjá Bank Sarasin.

Sjálfur sendi Hildebrand frá sér yfirlýsingu um málið í gærdag þar sem hann sver af sér allar sakir í málinu. Eiginkona hans, Kashya að nafni, segir aftur á móti að hún hafi keypt 500.000 dollara í haust þar sem dollarinn var orðinn hlægilega ódýr að hennar sögn.

Kaupin áttu sér stað skömmu áður en Hildebrand stóð fyrir viðamiklum aðgerðum seðlabankans til að veikja gengi svissneska frankans.

Fyrst var greint fram málinu í svissnesku vikutímariti og hefur málið vakið mikla athygli í Sviss og víðar. Sá starfsmaður Bank Sarasin sem lak upplýsingunum í vikuritið hefur verið ákærður fyrir brot á lögum um bankaleynd í Sviss.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×