Gagnrýni

Langdregin vessaveisla

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
The Human Centipede 2.
The Human Centipede 2.
Bíó. The Human Centipede 2. Leikstjóri: Tom Six. Leikarar: Laurence R. Harvey, Ashlynn Yennie, Vivien Bridson. Hollenski leikstjórinn Tom Six hefur enn ekki komist af þermistiginu og slengir hér framan í áhorfendur öðrum hluta í þríleik sínum um hina mennsku margfætlu. Í fyrstu myndinni hlífði hann okkur við grafískum skotum af blóði og hægðum, en nú er komið að skuldadögum og vessarnir hreinlega leka af tjaldinu í þessari ógeðfelldu framhaldsmynd. Dvergvaxni málleysinginn Martin stúderar fyrstu myndina í þaula á meðan hann fullnægir sér með sandpappír utan um lókinn. Hann safnar fórnarlömbum til þess að búa til sína eigin margfætlu, en hann ætlar að sauma saman 12 manns í það heila. Minna má það nú ekki vera. Öllu er tjaldað til svo myndin sé sem mest sjokkerandi. Við sjáum fyrrnefndu blóðugu sjálfsfróunarsenuna, óléttri konu misþyrmt, tennur slegnar úr munni með hamri, gaddavírsnauðgun, svo ekki sé minnst á alla leðjuna sem rennur afturenda og munna á milli. Allt væri þetta tiltölulega gott og blessað ef myndin væri ekki svona hryllilega illa gerð og leiðinleg. Að misbjóða áhorfendum sínum með ofbeldi og úrkynjun er eitt, en að láta þeim drepleiðast allan tímann er óafsakanlegt. Niðurstaða: Langdregin og húmorslaus vessaveisla sem höfðar ekki einu sinni til markhóps síns, hryllingsmyndaáhugafólks.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×