Skammsýn skattahækkun Ólafur Þ. Stephensen skrifar 10. október 2011 06:00 Ríkisstjórnin áformar að lækka skattafrádrátt vegna iðgjalda til viðbótarlífeyrissparnaðar úr fjórum prósentum af launum fólks í tvö. Þetta er að sjálfsögðu skattahækkun á almenning, þótt forystumenn ríkisstjórnarinnar reyni að halda öðru fram. Nái áformin fram að ganga mun það að öllum líkindum hafa þau áhrif að verulega dragi úr sparnaði, enda verða iðgjaldagreiðslurnar tvískattaðar. Sá sem hyggst leggja í viðbótarlífeyrisjóð meira en tvö prósent af laununum sínum mun þannig greiða tekjuskatt af umframiðgjaldinu og greiðslurnar úr lífeyrissjóðnum verða svo skattlagðar þegar þar að kemur. Lífeyrissjóðirnir hafa bent á að þetta muni draga úr lífeyrissparnaði og segjast munu ráðleggja sjóðfélögum sínum að gera eitthvað annað við peningana. Alþýðusambandið hefur sömuleiðis mótmælt þessum áformum harðlega. „Til að komast út úr kreppu er hyggilegra að hvetja til sparnaðar og fjárfestinga fremur en að refsa fólki fyrir að spara til að auka neyslu,“ sagði í ályktun miðstjórnar sambandsins í síðustu viku. Stjórnarmeirihlutinn veit þó augljóslega hvað hann er að gera. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, sagði umbúðalaust hér í blaðinu fyrir helgi að breytingin væri hugsuð til þess að heimilin hefðu meiri ráðstöfunartekjur í stað þess að spara og aukin neyzla myndi örva hagkerfið. Þetta skemmdarverk á lífeyriskerfinu á með öðrum orðum að hjálpa til svo að bjartsýnar spár ríkisstjórnarinnar um aukna einkaneyzlu rætist. Áformin sýna í raun ráðleysi ríkisstjórnarinnar; hún vill vinna þetta til að auka einkaneyzluna vegna þess að hún treystir sér ekki til að stuðla að nægilegum auknum fjárfestingum til að þær verði fremur drifkraftur hagvaxtarins. Sparnaður hefur verið alltof lítill á Íslandi. Skattaívilnanir vegna viðbótarlífeyrissparnaðar sem teknar voru upp um aldamótin örvuðu slíkan sparnað hins vegar mjög verulega. Þannig var stuðlað að því að fólk gæti eignazt raunverulegan varasjóð til elliáranna. Þetta hafa margir nýtt sér; yfir 82.000 launþegar hafa greitt viðbótariðgjald í séreignarlífeyrissjóð. Það er eins og ríkisstjórnin sé búin að gleyma að lífeyriskerfið varð fyrir alvarlegu áfalli í bankahruninu. Margir töpuðu þá tugum prósenta af séreignarsparnaði sínum. Það væri nær að auka hvatann til að leggja til hliðar og byggja sjóðina upp á nýjan leik en að refsa fólki fyrir að spara. Þessi skattahækkun ríkisstjórnarinnar mun auka neyzlu til skemmri tíma, en til lengri tíma getur hún haft alvarleg, neikvæð áhrif. Eins og svo margt annað sem þessi ríkisstjórn gerir einkennast þessi áform af skammsýni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Kolbrún Pálsdóttir – Öflugur leiðtogi fyrir framtíð Háskóla Íslands Kristín Jónsdóttir,Þórdís Jóna Sigurðardóttir Skoðun Við erum ekki Rússland Sigmar Guðmundsson Skoðun Er ný ESB-langavitleysa íslenzkrar ríkisstjórnar í uppsiglingu? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Silja Bára - öflugur málsvari sjálfbærni og loftslagsmála Íris Lind Sæmundsdóttir Skoðun Björn veit að þekking þrífst í samfélagi, ekki í einangrun Magnea Rut Gunnarsdóttir Skoðun Íslendingar eru dónalegir, óhófsamir, þjófóttir villimenn Sif Sigmarsdóttir Fastir pennar Af hverju veljum við Silju Báru? Auður Birna Stefánsdóttir,Pia Hansson Skoðun Samskipti: Lykillinn að vellíðan og árangri í vinnuumhverfi Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir Skoðun Sagnaarfur Biblíunnar – Davíð og Golíat, hugrekki og berskjöldun Dr. Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Háskólasamfélag á tímamótum - Silja Bára sem næsti rektor HÍ Berglind Rós Magnúsdóttir Skoðun
Ríkisstjórnin áformar að lækka skattafrádrátt vegna iðgjalda til viðbótarlífeyrissparnaðar úr fjórum prósentum af launum fólks í tvö. Þetta er að sjálfsögðu skattahækkun á almenning, þótt forystumenn ríkisstjórnarinnar reyni að halda öðru fram. Nái áformin fram að ganga mun það að öllum líkindum hafa þau áhrif að verulega dragi úr sparnaði, enda verða iðgjaldagreiðslurnar tvískattaðar. Sá sem hyggst leggja í viðbótarlífeyrisjóð meira en tvö prósent af laununum sínum mun þannig greiða tekjuskatt af umframiðgjaldinu og greiðslurnar úr lífeyrissjóðnum verða svo skattlagðar þegar þar að kemur. Lífeyrissjóðirnir hafa bent á að þetta muni draga úr lífeyrissparnaði og segjast munu ráðleggja sjóðfélögum sínum að gera eitthvað annað við peningana. Alþýðusambandið hefur sömuleiðis mótmælt þessum áformum harðlega. „Til að komast út úr kreppu er hyggilegra að hvetja til sparnaðar og fjárfestinga fremur en að refsa fólki fyrir að spara til að auka neyslu,“ sagði í ályktun miðstjórnar sambandsins í síðustu viku. Stjórnarmeirihlutinn veit þó augljóslega hvað hann er að gera. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, sagði umbúðalaust hér í blaðinu fyrir helgi að breytingin væri hugsuð til þess að heimilin hefðu meiri ráðstöfunartekjur í stað þess að spara og aukin neyzla myndi örva hagkerfið. Þetta skemmdarverk á lífeyriskerfinu á með öðrum orðum að hjálpa til svo að bjartsýnar spár ríkisstjórnarinnar um aukna einkaneyzlu rætist. Áformin sýna í raun ráðleysi ríkisstjórnarinnar; hún vill vinna þetta til að auka einkaneyzluna vegna þess að hún treystir sér ekki til að stuðla að nægilegum auknum fjárfestingum til að þær verði fremur drifkraftur hagvaxtarins. Sparnaður hefur verið alltof lítill á Íslandi. Skattaívilnanir vegna viðbótarlífeyrissparnaðar sem teknar voru upp um aldamótin örvuðu slíkan sparnað hins vegar mjög verulega. Þannig var stuðlað að því að fólk gæti eignazt raunverulegan varasjóð til elliáranna. Þetta hafa margir nýtt sér; yfir 82.000 launþegar hafa greitt viðbótariðgjald í séreignarlífeyrissjóð. Það er eins og ríkisstjórnin sé búin að gleyma að lífeyriskerfið varð fyrir alvarlegu áfalli í bankahruninu. Margir töpuðu þá tugum prósenta af séreignarsparnaði sínum. Það væri nær að auka hvatann til að leggja til hliðar og byggja sjóðina upp á nýjan leik en að refsa fólki fyrir að spara. Þessi skattahækkun ríkisstjórnarinnar mun auka neyzlu til skemmri tíma, en til lengri tíma getur hún haft alvarleg, neikvæð áhrif. Eins og svo margt annað sem þessi ríkisstjórn gerir einkennast þessi áform af skammsýni.
Kolbrún Pálsdóttir – Öflugur leiðtogi fyrir framtíð Háskóla Íslands Kristín Jónsdóttir,Þórdís Jóna Sigurðardóttir Skoðun
Kolbrún Pálsdóttir – Öflugur leiðtogi fyrir framtíð Háskóla Íslands Kristín Jónsdóttir,Þórdís Jóna Sigurðardóttir Skoðun