Hin árlega busavígsla Guðmundur Andri Thorsson skrifar 3. október 2011 07:00 Árleg hefð virðist komin á að þingmenn gangi svipugöngin milli dómkirkjunnar og Alþingis þar sem talið er tilheyra að veitast að þeim með fáryrðum, bauli og fúleggjum. Þessi fyrrum hátíðlega athöfn frá annarri öld er æ meira farin að líkjast busavígslu, þar sem þingmenn eru í hlutverki busanna. Ástandið er karnivalískt: fátækt og valdalaust fólk kemur á þessa þingsetningu og lætur fúleggjum og fáryrðum rigna yfir hina meintu valdamenn í samfélaginu. Þarna er mannfjöldi samankominn til að láta í ljós óánægju sína. Ýmsu er mótmælt: verðtryggingunni, atvinnuleysinu, niðurskurði til velferðarmála, kvótakerfinu, kaupleigufyrirtækjunum, bönkunum, vogunarsjóðunum, eignarhaldsfélagasvindlinu, AGS, VSÍ, LÍÚ, ASÍ, málþófi stjórnarandstöðu, ofríki stjórnarmeirihluta, „aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar“, spillingu, græðgi – sjálfu valdinu, fyrir svo utan ýmsa persónulega harma. Flestir sem þarna eru samankomnir vilja með þátttöku sinni tjá óánægju sína og þeim ber í sjálfu sér engin sérstök skylda til að sundurgreina það sérstaklega sem veldur þeim óánægju og vansæld. Fólk er vansælt og það vill láta það í ljós – til þess hefur það rétt. Og okkur sem stöndum álengdar ber að virða það. Við þurfum að velta fyrir okkur hugsanlegum ástæðum og hugsanlegum úrbótum – við þurfum að hugsa um þetta gagnrýnið og yfirvegað og við getum ekki afgreitt þetta fólk sem vitleysinga eða ginningarfífl eða hurðarása-um-öxl-reisendur. Það mætir þarna til að tjá eitthvað sem gæti jafnvel verið mjög mikilvægt fyrir okkur öll. Að vera eða vera ekki – „þjóðin“Mörg okkar ranghvolfa í sér augunum og gnísta tönnum af pirringi yfir Dorrit forsetafrú þegar hún „stígur niður“ til „þegna“ sinna og „knúsar þá“ eins og góða drottningin í ævintýrinu en hún má samt eiga það að hún sýnir hugrekki, viðurkennir í verki að þessi einkennilega sýning á valdinu sem prósessían hefur verið gegnum árin er orðin merkingarlaus og jafnvel óviðeigandi. Hún stígur út úr þessari ömurlegu busavígslu og spinnur nýtt ævintýri. Hún gefur þessu reiða og örvilnaða fólki á Austurvelli nokkuð sem ráðamönnum og þingmönnum gengur svo illa að gefa af sér í önnum og gráma dagsins: mannlega nálægð, mannlega hlýju. Tilfinningasemin er raunar farin að vella fram úr óvæntum áttum – nú síðast í yfirlýsingu sem Landssamband lögreglumanna sendi frá sér þar sem það harmar að hafa þurft að vera „mannlegur skjöldur milli þings og þjóðar“. Þetta er óneitanlega hátimbrað orðalag og athyglisvert að eggjakösturum skuli hlotnast sú upphefð í túlkun lögreglunnar að vera hvorki meira né minna en „þjóðin“. Í raun táknar yfirlýsingin að lögreglumenn harma það að hafa þurft að verja borgara þessa lands fyrir árásum ofbeldisseggja. Hvað er þeim eiginlega kennt þarna í Lögregluskólanum? Það er ótrúlegt að lögreglumenn skuli láta annað eins út úr sér og öðru verður ekki trúað en að þeir sem sömdu þessi ósköp fái aldeilis að heyra það í dag frá Ríkislögreglustjóra. Mörk hins ásættanlegaFátt jafnast á við það að vera í stórum hópi skoðanasystkina sem setja fram skýrar kröfur í einni taktfastri stemmningu. En því fylgja hættur. Þegar maður gengur inn í stóran hóp fólk að mótmæla og er sjálfur með fróman ásetning og snjallar hugmyndir þá getur það komið fyrir lítið, því að þeir sem hæst garga og lengst ganga fá athyglina og eru þar með orðnir andlit hópsins, gefa aðgerðunum merkingu og lit. Maður getur átt á hættu að fyrirgera einstaklingstjáningu sinni í svona aðgerðum, persónulegum vilja, ábyrgð á gerðum sínum. Hugsun manns verður einfaldari þegar hún rennur saman við hugsun hópsins. Við hættum í stemmningunni að sjá aðrar hliðar málsins en þá sem hópurinn sér. Fólk sem hópur getur tekið upp á ýmsu sem það myndi aldrei gera sem einstaklingar, stigið yfir einhver mörk, losað sig við hömlur – fært mörk hins ásættanlega. Er ekki kominn tími til að við veltum fyrir okkur mörkum þess sem ásættanlegt getur talist? Þau hafa færst. Þegar Árni Þór Sigurðsson fellur í götuna af völdum eggjakasts þá er hann ekki „þingið“, ekki „valdið“, ekki „þeir“ heldur er þetta einstaklingurinn Árni Þór sem orðið hefur fyrir árás fyrir þær sakir einar að vera þjóðkjörinn fulltrúi á Alþingi. Eggið er ekki fyrst og fremst táknrænt eins og ég las á facebook-síðu hjá vinstri sinnuðu ljóðskáldi – það er einmitt mjög áþreifanlegt. Og sá sem henti egginu í Árna Þór er ekki „fólkið“ og ekki „við“, ekki „hinir valdalausu“ og alls ekki „þjóðin“ heldur er þetta einstaklingur með nafn og einkenni. Þegar hann henti egginu var hann ekki að tjá „reiði almennings“ heldur að beita annan mann ofbeldi. Það er óréttlætanlegt. Um leið og hann henti egginu hafði hann ekki lengur neitt að segja annað en að hann væri maður af því tagi sem hendir hlutum úr launsátri á annað fólk. Við verðum að hætta að gefa slíku fólki lögmæti og réttlætingu fyrir sjúklegu framferði sínu. Við getum reynt að skilja fólkið sem er samankomið á Austurvelli til að tjá vansæld sína og reiði, við getum reynt að setja okkur inn í málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna og samtaka skuldaranna, rökrætt við þetta fólk, talað saman: en við þann sem hendir eggjum og tómötum í annað fólk eigum við ekkert vantalað. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun
Árleg hefð virðist komin á að þingmenn gangi svipugöngin milli dómkirkjunnar og Alþingis þar sem talið er tilheyra að veitast að þeim með fáryrðum, bauli og fúleggjum. Þessi fyrrum hátíðlega athöfn frá annarri öld er æ meira farin að líkjast busavígslu, þar sem þingmenn eru í hlutverki busanna. Ástandið er karnivalískt: fátækt og valdalaust fólk kemur á þessa þingsetningu og lætur fúleggjum og fáryrðum rigna yfir hina meintu valdamenn í samfélaginu. Þarna er mannfjöldi samankominn til að láta í ljós óánægju sína. Ýmsu er mótmælt: verðtryggingunni, atvinnuleysinu, niðurskurði til velferðarmála, kvótakerfinu, kaupleigufyrirtækjunum, bönkunum, vogunarsjóðunum, eignarhaldsfélagasvindlinu, AGS, VSÍ, LÍÚ, ASÍ, málþófi stjórnarandstöðu, ofríki stjórnarmeirihluta, „aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar“, spillingu, græðgi – sjálfu valdinu, fyrir svo utan ýmsa persónulega harma. Flestir sem þarna eru samankomnir vilja með þátttöku sinni tjá óánægju sína og þeim ber í sjálfu sér engin sérstök skylda til að sundurgreina það sérstaklega sem veldur þeim óánægju og vansæld. Fólk er vansælt og það vill láta það í ljós – til þess hefur það rétt. Og okkur sem stöndum álengdar ber að virða það. Við þurfum að velta fyrir okkur hugsanlegum ástæðum og hugsanlegum úrbótum – við þurfum að hugsa um þetta gagnrýnið og yfirvegað og við getum ekki afgreitt þetta fólk sem vitleysinga eða ginningarfífl eða hurðarása-um-öxl-reisendur. Það mætir þarna til að tjá eitthvað sem gæti jafnvel verið mjög mikilvægt fyrir okkur öll. Að vera eða vera ekki – „þjóðin“Mörg okkar ranghvolfa í sér augunum og gnísta tönnum af pirringi yfir Dorrit forsetafrú þegar hún „stígur niður“ til „þegna“ sinna og „knúsar þá“ eins og góða drottningin í ævintýrinu en hún má samt eiga það að hún sýnir hugrekki, viðurkennir í verki að þessi einkennilega sýning á valdinu sem prósessían hefur verið gegnum árin er orðin merkingarlaus og jafnvel óviðeigandi. Hún stígur út úr þessari ömurlegu busavígslu og spinnur nýtt ævintýri. Hún gefur þessu reiða og örvilnaða fólki á Austurvelli nokkuð sem ráðamönnum og þingmönnum gengur svo illa að gefa af sér í önnum og gráma dagsins: mannlega nálægð, mannlega hlýju. Tilfinningasemin er raunar farin að vella fram úr óvæntum áttum – nú síðast í yfirlýsingu sem Landssamband lögreglumanna sendi frá sér þar sem það harmar að hafa þurft að vera „mannlegur skjöldur milli þings og þjóðar“. Þetta er óneitanlega hátimbrað orðalag og athyglisvert að eggjakösturum skuli hlotnast sú upphefð í túlkun lögreglunnar að vera hvorki meira né minna en „þjóðin“. Í raun táknar yfirlýsingin að lögreglumenn harma það að hafa þurft að verja borgara þessa lands fyrir árásum ofbeldisseggja. Hvað er þeim eiginlega kennt þarna í Lögregluskólanum? Það er ótrúlegt að lögreglumenn skuli láta annað eins út úr sér og öðru verður ekki trúað en að þeir sem sömdu þessi ósköp fái aldeilis að heyra það í dag frá Ríkislögreglustjóra. Mörk hins ásættanlegaFátt jafnast á við það að vera í stórum hópi skoðanasystkina sem setja fram skýrar kröfur í einni taktfastri stemmningu. En því fylgja hættur. Þegar maður gengur inn í stóran hóp fólk að mótmæla og er sjálfur með fróman ásetning og snjallar hugmyndir þá getur það komið fyrir lítið, því að þeir sem hæst garga og lengst ganga fá athyglina og eru þar með orðnir andlit hópsins, gefa aðgerðunum merkingu og lit. Maður getur átt á hættu að fyrirgera einstaklingstjáningu sinni í svona aðgerðum, persónulegum vilja, ábyrgð á gerðum sínum. Hugsun manns verður einfaldari þegar hún rennur saman við hugsun hópsins. Við hættum í stemmningunni að sjá aðrar hliðar málsins en þá sem hópurinn sér. Fólk sem hópur getur tekið upp á ýmsu sem það myndi aldrei gera sem einstaklingar, stigið yfir einhver mörk, losað sig við hömlur – fært mörk hins ásættanlega. Er ekki kominn tími til að við veltum fyrir okkur mörkum þess sem ásættanlegt getur talist? Þau hafa færst. Þegar Árni Þór Sigurðsson fellur í götuna af völdum eggjakasts þá er hann ekki „þingið“, ekki „valdið“, ekki „þeir“ heldur er þetta einstaklingurinn Árni Þór sem orðið hefur fyrir árás fyrir þær sakir einar að vera þjóðkjörinn fulltrúi á Alþingi. Eggið er ekki fyrst og fremst táknrænt eins og ég las á facebook-síðu hjá vinstri sinnuðu ljóðskáldi – það er einmitt mjög áþreifanlegt. Og sá sem henti egginu í Árna Þór er ekki „fólkið“ og ekki „við“, ekki „hinir valdalausu“ og alls ekki „þjóðin“ heldur er þetta einstaklingur með nafn og einkenni. Þegar hann henti egginu var hann ekki að tjá „reiði almennings“ heldur að beita annan mann ofbeldi. Það er óréttlætanlegt. Um leið og hann henti egginu hafði hann ekki lengur neitt að segja annað en að hann væri maður af því tagi sem hendir hlutum úr launsátri á annað fólk. Við verðum að hætta að gefa slíku fólki lögmæti og réttlætingu fyrir sjúklegu framferði sínu. Við getum reynt að skilja fólkið sem er samankomið á Austurvelli til að tjá vansæld sína og reiði, við getum reynt að setja okkur inn í málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna og samtaka skuldaranna, rökrætt við þetta fólk, talað saman: en við þann sem hendir eggjum og tómötum í annað fólk eigum við ekkert vantalað.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun