Lífið er plastfiskur Brynhildur Björnsdóttir skrifar 26. ágúst 2011 06:00 Lífið er ekki lengur saltfiskur. Lífið er plast. Tölvurnar okkar, símarnir, leikföng, hjólahjálmar, bílar, flugvélar, föt, húsgögn, rafmagnssnúrur, barbídúkkur, málning... Sumt af því sem við fyrstu sýn virðist vera úr tré eða málmi er í raun úr plasti. Flestur neysluvarningur er vafinn inn í mörg lög af plasti og síðan settur í plastpoka til að auðvelda heimflutning. Plastást heimsins er afar rökrétt. Það er svo auðvelt að nota plast, þægilegt að láta það passa inn í líf sitt. Það er mótanlegt, einangrar vel, er létt, sveigjanlegt, ryðgar ekki og er auðvelt að þrífa. Svo er það yfirleitt ódýrt, oft litskrúðugt og lítil lykt af því. Plast er manngert efni, búið til úr olíu en það er hægt að búa allt til úr plasti. Hundrað og fimmtíu ára plastlifnaður heimsins er hins vegar farin að taka sinn toll. Plast er unnið úr hráolíu, sem er ekki til í endalausu magni og verður auk þess dýrari með hverjum deginum. Plast brotnar afar hægt niður í náttúrunni, þannig að stór hluti af rusli heimsins er plast. En þó að plast eyðist illa í náttúrunni geta efni úr því samt borist í matvæli sem eru geymd í eða neytt úr plastílátum. Efni þessi sem líkjast hormónum geta haft margvísleg áhrif á mannslíkamann, til dæmis dregið úr frjósemi og flýtt kynþroska. Í Kyrrahafinu miðju er hringiða sem er tólf sinnum stærri en Ísland. Í henni hringsnúast hundrað milljón tonn af plasti sem hafa sogast þangað úr ruslahaugum og grunnsævi meginlandanna sem að Kyrrahafinu liggja. Plastið tætist smám saman niður í hringiðunni og endar í meltingarkerfi smádýra á hafsbotni, sem eru líka á botni fæðukeðjunnar. Þannig berst þetta plast svo inn í líkama okkar. Það er ekkert skrýtið að við elskum plast, það verður alltaf stærri og stærri hluti af okkur. Mannkynið breytist hægt og sígandi í lifandi risabarbídúkkur. Næst þegar þú ferð í búð, væri kannski ráð að kippa með lítið notuðum plastpoka, sem ég er alveg viss um að þú átt í hrúgum heima hjá þér, frekar en að kaupa alltaf nýjan? Eða bara baðmullartuðru? Og hvernig væri að skila heimilisplastinu í endurvinnslugám frekar en að henda því í ruslið? Einn af góðum kostum plasts er nefnilega sá að það er auðvelt að endurvinna það og nota aftur og aftur. En best væri samt að vera meðvituð um að plasta ekki heiminn í drasl. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Brynhildur Björnsdóttir Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Lífið er ekki lengur saltfiskur. Lífið er plast. Tölvurnar okkar, símarnir, leikföng, hjólahjálmar, bílar, flugvélar, föt, húsgögn, rafmagnssnúrur, barbídúkkur, málning... Sumt af því sem við fyrstu sýn virðist vera úr tré eða málmi er í raun úr plasti. Flestur neysluvarningur er vafinn inn í mörg lög af plasti og síðan settur í plastpoka til að auðvelda heimflutning. Plastást heimsins er afar rökrétt. Það er svo auðvelt að nota plast, þægilegt að láta það passa inn í líf sitt. Það er mótanlegt, einangrar vel, er létt, sveigjanlegt, ryðgar ekki og er auðvelt að þrífa. Svo er það yfirleitt ódýrt, oft litskrúðugt og lítil lykt af því. Plast er manngert efni, búið til úr olíu en það er hægt að búa allt til úr plasti. Hundrað og fimmtíu ára plastlifnaður heimsins er hins vegar farin að taka sinn toll. Plast er unnið úr hráolíu, sem er ekki til í endalausu magni og verður auk þess dýrari með hverjum deginum. Plast brotnar afar hægt niður í náttúrunni, þannig að stór hluti af rusli heimsins er plast. En þó að plast eyðist illa í náttúrunni geta efni úr því samt borist í matvæli sem eru geymd í eða neytt úr plastílátum. Efni þessi sem líkjast hormónum geta haft margvísleg áhrif á mannslíkamann, til dæmis dregið úr frjósemi og flýtt kynþroska. Í Kyrrahafinu miðju er hringiða sem er tólf sinnum stærri en Ísland. Í henni hringsnúast hundrað milljón tonn af plasti sem hafa sogast þangað úr ruslahaugum og grunnsævi meginlandanna sem að Kyrrahafinu liggja. Plastið tætist smám saman niður í hringiðunni og endar í meltingarkerfi smádýra á hafsbotni, sem eru líka á botni fæðukeðjunnar. Þannig berst þetta plast svo inn í líkama okkar. Það er ekkert skrýtið að við elskum plast, það verður alltaf stærri og stærri hluti af okkur. Mannkynið breytist hægt og sígandi í lifandi risabarbídúkkur. Næst þegar þú ferð í búð, væri kannski ráð að kippa með lítið notuðum plastpoka, sem ég er alveg viss um að þú átt í hrúgum heima hjá þér, frekar en að kaupa alltaf nýjan? Eða bara baðmullartuðru? Og hvernig væri að skila heimilisplastinu í endurvinnslugám frekar en að henda því í ruslið? Einn af góðum kostum plasts er nefnilega sá að það er auðvelt að endurvinna það og nota aftur og aftur. En best væri samt að vera meðvituð um að plasta ekki heiminn í drasl.