Gagnrýni

Prýðileg með poppinu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Harrison Ford flottur í Cowboys and Aliens.
Harrison Ford flottur í Cowboys and Aliens.
Bíó. Cowboys and Aliens. Leikstjóri: Jon Favreau. Aðalhlutverk: Harrison Ford, Daniel Craig, Olivia Wilde, Sam Rockwell, Paul Dano, Keith Carradine.



Árið 1973 gekk vélknúni kúrekinn Yul Brynner um skemmtigarð og drap mann og annan í kvikmyndinni Westworld, og sannaði það um leið að mögulegt er að blanda saman vestra og vísindaskáldsögu með góðum árangri. Í kvikmyndinni Cowboys and Aliens er þetta reynt eina ferðina enn og í þetta sinn mæta kúrekarnir illskeyttum verum frá fjarlægri plánetu.

Cowboys and Aliens er stórskemmtilegur vestri en ekki nema sæmilegasta vísindaskáldsaga. Hræringurinn er þó nokkuð hressilegur og er það mikið til þeim Daniel Craig og Harrison Ford að þakka. Craig er reyndar þurr og svipbrigðalaus frá upphafi til enda, en það fer persónu hans ágætlega. Harrison Ford er skemmtilegur skúrkur og persóna hans er talsvert safaríkari.

Í myndinni segir prestur nokkur að hann hafi bæði séð góða menn fremja illvirki og illmenni gera góðverk. Þetta þema er rauði þráður myndarinnar. Craig er hetjan, en fortíð hans er vafasöm. Ford er skúrkurinn, en ekki er allt sem sýnist. Þetta er nokkuð vel gert og leikstjórinn Favreau passar sig að falla ekki í hinn varasama væmnispytt.

Það vantar þó einhvern herslumun til þess að myndin geti talist fyrsta flokks ævintýri. Geimverurnar eru óspennandi, kvenhlutverkið með lítið kjöt á beinunum og lokahasarinn er handahófskenndur og draslaralegur. Engu að síður er Cowboys and Aliens prýðileg skemmtun, og sérstaklega í fyrri hálfleik.

Niðurstaða: Vestrinn Cowboys and Aliens gjörsigrar vísindaskáldsöguna Cowboys and Aliens. Hræran fer þó ágætlega niður með poppinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×