Hagsmunir fórnarlambanna Ólafur Þ. Stephensen skrifar 5. júlí 2011 07:00 Tillaga Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, um að skoðað verði hvort ástæða sé til að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verði látin sjá um að rannsaka alvarleg kynferðisbrot um allt land, hefur vakið hörð viðbrögð hjá lögreglumönnum víða á landsbyggðinni. Bragi lagði þetta til eftir að í ljós kom að maður í Vestmannaeyjum, sem nauðgaði barni og tók myndir af verknaðinum, gekk laus í marga mánuði eftir að hin óhugnanlegu sönnunargögn komu fram. Langan tíma tók að rannsaka málið til fulls og Bragi hefur áhyggjur af því að rannsóknartími kynferðisbrota gegn börnum sé almennt langur. Hann sagði í helgarblaði Fréttablaðsins að óumdeilt væri að vegna stærðar sinnar byggi kynferðisbrotadeild LRH yfir mestri reynslu. Bragi benti jafnframt á að forðast mætti þá miklu nálægð rannsakenda og sakborninga sem oft er í smærri byggðarlögum. Viðbrögð lögregluembættanna úti á landi eru meðal annars að forstjóri Barnaverndarstofu viti ekkert um hvað hann er að tala. „Svona sleggjudómar, að ekki sé hægt að rannsaka neitt nema í Reykjavík, eru algjörlega tilhæfulausir og ég er mjög ósáttur við þá. Það fer eftir reynslu mannanna, ekki búsetu þeirra,“ sagði sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum í helgarblaðinu. Rétt er að það er ekki sízt reynslan sem ræður um hæfni lögreglumanna í rannsóknum, en framhjá því verður heldur ekki horft að vegna stærðar sinnar og fjölda brota í umdæminu býr lögreglan á höfuðborgarsvæðinu yfir langmestri reynslu í þessum málaflokki og er eina lögregluembættið með sérstaka kynferðisbrotadeild og þá sérhæfingu og sérþekkingu sem því fylgir. Ekki má gleyma að forstjóri Barnaverndarstofu er líka með áratugareynslu af málaflokknum og ætti að vita um hvað hann er að tala. Málið sem kveikti þessa umræðu er ekki einsdæmi. Þannig ónýttist mál gegn meintum barnaníðingi í Vestmannaeyjum fyrir dómstólum fyrr á árinu vegna þess að lögreglan þar í bæ lét undir höfuð leggjast að senda fórnarlambið strax til skýrslutöku í Barnahúsi eins og á þó að vera vinnuregla. Fyrir tæpum áratug gerði embætti ríkissaksóknara úttekt á meðferð lögreglu og ákæruvalds á nauðgunarmálum. Athugasemdir þær sem þar voru settar fram um óhóflegan drátt á rannsókn, slælega eða enga vettvangsrannsókn, lélega yfirheyrslutækni og litla eftirfylgni, sneru fyrst og fremst að smærri lögregluumdæmum. Lögreglan í Reykjavík, eins og embættið hét þá, fékk hins vegar hrós fyrir að standa vel að málum. Síðan hafa margvíslegar umbætur verið gerðar á rannsókn þessara mála og meðal annars orðið til stærri og öflugri rannsóknardeildir á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu hefur stærsta skrefið hins vegar verið tekið með stofnun sérstakrar kynferðisbrotadeildar. Full ástæða er því til að skoða tillögu Braga Guðbrandssonar og meta hvort breyta eigi fyrirkomulagi á rannsókn kynferðisbrota. Í þessu efni á hreppapólitík ekki að ráða, heldur hagsmunir fórnarlamba þeirra andstyggilegu glæpa sem kynferðisbrot eru. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Kæra vinkona Margrét Pála María Ösp Ómarsdóttir,Tinna Björg Kristinsdóttir Skoðun Gerræðisleg og hjartalaus leyfisveiting, sem stöðva verður! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Dýrkeypt skiptimynt! María Védís Ólafsdóttir Skoðun Opið bréf til stjórnar Leikfélags Reykjavíkur Margrét Tryggvadóttir Skoðun Ráðningarvernd samrýmist grunnstoðum lýðræðisins Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Hugleiðingar leikskólakennara í verkfalli Elín Gíslína Steindórsdóttir Skoðun Reykjalundur í 80 ár Pétur Magnússon Skoðun Opið bréf til þingmanna frá húsmóður í Vesturbænum Margrét Kristín Blöndal Skoðun Opið bréf til kennara og stjórnenda allra framhaldsskóla Klara Nótt Egilson Skoðun Menntun í gíslingu hrímþursa Þorsteinn Gunnarsson Skoðun
Tillaga Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, um að skoðað verði hvort ástæða sé til að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verði látin sjá um að rannsaka alvarleg kynferðisbrot um allt land, hefur vakið hörð viðbrögð hjá lögreglumönnum víða á landsbyggðinni. Bragi lagði þetta til eftir að í ljós kom að maður í Vestmannaeyjum, sem nauðgaði barni og tók myndir af verknaðinum, gekk laus í marga mánuði eftir að hin óhugnanlegu sönnunargögn komu fram. Langan tíma tók að rannsaka málið til fulls og Bragi hefur áhyggjur af því að rannsóknartími kynferðisbrota gegn börnum sé almennt langur. Hann sagði í helgarblaði Fréttablaðsins að óumdeilt væri að vegna stærðar sinnar byggi kynferðisbrotadeild LRH yfir mestri reynslu. Bragi benti jafnframt á að forðast mætti þá miklu nálægð rannsakenda og sakborninga sem oft er í smærri byggðarlögum. Viðbrögð lögregluembættanna úti á landi eru meðal annars að forstjóri Barnaverndarstofu viti ekkert um hvað hann er að tala. „Svona sleggjudómar, að ekki sé hægt að rannsaka neitt nema í Reykjavík, eru algjörlega tilhæfulausir og ég er mjög ósáttur við þá. Það fer eftir reynslu mannanna, ekki búsetu þeirra,“ sagði sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum í helgarblaðinu. Rétt er að það er ekki sízt reynslan sem ræður um hæfni lögreglumanna í rannsóknum, en framhjá því verður heldur ekki horft að vegna stærðar sinnar og fjölda brota í umdæminu býr lögreglan á höfuðborgarsvæðinu yfir langmestri reynslu í þessum málaflokki og er eina lögregluembættið með sérstaka kynferðisbrotadeild og þá sérhæfingu og sérþekkingu sem því fylgir. Ekki má gleyma að forstjóri Barnaverndarstofu er líka með áratugareynslu af málaflokknum og ætti að vita um hvað hann er að tala. Málið sem kveikti þessa umræðu er ekki einsdæmi. Þannig ónýttist mál gegn meintum barnaníðingi í Vestmannaeyjum fyrir dómstólum fyrr á árinu vegna þess að lögreglan þar í bæ lét undir höfuð leggjast að senda fórnarlambið strax til skýrslutöku í Barnahúsi eins og á þó að vera vinnuregla. Fyrir tæpum áratug gerði embætti ríkissaksóknara úttekt á meðferð lögreglu og ákæruvalds á nauðgunarmálum. Athugasemdir þær sem þar voru settar fram um óhóflegan drátt á rannsókn, slælega eða enga vettvangsrannsókn, lélega yfirheyrslutækni og litla eftirfylgni, sneru fyrst og fremst að smærri lögregluumdæmum. Lögreglan í Reykjavík, eins og embættið hét þá, fékk hins vegar hrós fyrir að standa vel að málum. Síðan hafa margvíslegar umbætur verið gerðar á rannsókn þessara mála og meðal annars orðið til stærri og öflugri rannsóknardeildir á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu hefur stærsta skrefið hins vegar verið tekið með stofnun sérstakrar kynferðisbrotadeildar. Full ástæða er því til að skoða tillögu Braga Guðbrandssonar og meta hvort breyta eigi fyrirkomulagi á rannsókn kynferðisbrota. Í þessu efni á hreppapólitík ekki að ráða, heldur hagsmunir fórnarlamba þeirra andstyggilegu glæpa sem kynferðisbrot eru.