Gagnrýni

Hljómmikið rokk í Hörpu

Jónas Sen skrifar
Rokkið hljómaði alveg frábærlega í salnum! Bassinn var einstaklega hljómmikill og breiður, og tónarnir fyrir ofan tærir og fallegir.
Rokkið hljómaði alveg frábærlega í salnum! Bassinn var einstaklega hljómmikill og breiður, og tónarnir fyrir ofan tærir og fallegir.
Tónlist

Opnunartónleikar Hörpu. Ýmsir flytjendur.

Hin eiginlegu opnunartónleikar í Hörpu voru hálfgert maraþon. Þeir byrjuðu klukkan sex og stóðu til tíu, reyndar með tveimur löngum hléum. Á efnisskránni var allt mögulegt, frá lítilli veikradda hörpu yfir í ærandi rokktónlist, með viðkomu í kórsöng, píanóeinleik, óperuatriðum og fleiru.

Litla, veikradda harpan var fyrst. Katie Buckley úr Sinfóníunni spilaði nýja útsetningu á Kvæðinu um fuglana eftir Atla Heimi Sveinsson. Ég sat á 24. bekk niðri, fremur aftarlega. Samt heyrðist ágætlega í hljóðfærinu. Flutningurinn kom prýðilega út.

Kvæði um fuglana var greinilega vinsælasta lagið á dagskránni, því það var flutt alls þrisvar sinnum. Börn úr Kársnesskóla sungu það einkar fallega undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur, og ekki var síðra þegar Raddir Íslands sungu það (ásamt þremur öðrum lögum). Raddir Íslands er kór sem var settur sérstaklega saman fyrir þessa tónleika. Meginuppistaða kórsins var Hamrahlíðakórinn og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, en í honum var líka ungt fólk víðs vegar af landinu. Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnaði, og var söngurinn tær og tilfinningaríkur og naut sín prýðilega.

Ég er afar ánægður með það hve söngraddir berast vel í Eldborginni, þótt heil sinfóníuhljómsveit spili með. Á dagskránni var m.a. kvartett úr óperunni Don Carlo eftir Verdi, og voru einsöngvarar þau Sigrún Hjálmtýsdóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir, Ágúst Ólafsson og Bjarni Thor Kristinsson. Kvartettinn hljómaði hreint ágætlega, a.m.k. heyrði ég vel í öllum söngvurunum þrátt fyrir að hljómsveitin spilaði af miklum krafti undir stjórn Petri Sakari.

Tvö verk eftir Daníel Bjarnason, Fanfare og Millispil, voru líka frábær. Í hinu fyrrnefnda spilaði málmblásturssveitin Wonderbrass (ásamt slagverksleikara) á svölunum beint fyrir ofan sviðið og gerði það glæsilega. Í hinu verkinu hafði hópurinn dreift sér um salinn, og lúðrablásturinn umvafði áheyrendur. Það var verulega áhrifaríkt.

Einn af hápunktum tónleikanna var þegar Sinfónían frumflutti Í sjöunda himni eftir Hauk Tómasson. Tónlistin byrjaði á fremur kuldalegum, en seiðmögnuðum hljómum, sem uxu upp í glaðlegan, kraftmikinn hápunkt. Án efa var það með því flottara sem Haukur hefur samið.

Gaman var líka að öðru íslensku verki, kafla úr saxófónkonsert eftir Veigar Margeirsson. Þar var einleikari Sigurður Flosason. Saxófónleikurinn var magnaður í hljómburðinum í Eldborg. Og annar einleikur, fiðla Sigrúnar Eðvaldsdóttur í Sígaunaljóði Sarasates, kom sérlega vel út.

Hér er ekki pláss til að nefna hvert einasta atriði þessara miklu tónleika. Ég verð þó að fjalla um rafmögnuðu tónlistina, sem var síðust fyrir seinna hléið. Gusgus spilaði tvö lög, Dikta sömuleiðis og svo söng Páll Óskar Það geta ekki allir verið gordjöss ásamt Memfismafíunni. Það verður að segjast eins og er að rokkið hljómaði alveg frábærlega í salnum! Bassinn var einstaklega hljómmikill og breiður, og tónarnir fyrir ofan tærir og fallegir.

Í seinna hléinu skipti ég um stað og fór upp á efstu svalirnar. Þar hlustaði ég á lokakaflann úr níundu sinfóníu Beethovens. Í það heila var flutningurinn glæsilegur og hljómburðurinn var stórfenglegur! Það er ljóst að Harpa lofar virkilega góðu.

Niðurstaða: Opnunartónleikarnir í Hörpu voru í senn fjölbreyttir, vandaðir og skemmtilegir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×