Viðskipti erlent

S&P veldur niðursveiflu á mörkuðum og gengisfalli evrunnar

Matsfyrirtækið Standard & Poor´s  (S&P) hefur sett 15 þjóðir evrusvæðisins, þar á meðal Þýskaland og Frakkland, á athugunarlista með neikvæðum horfum.

Markaðir í Bandaríkjunum höfðu verið í uppsveiflu þegar tilkynning Standard & Poor´s birtist skömmu fyrir lokun þeirra í gærkvöldi. Uppsveiflan breyttist í niðursveiflu á síðustu mínútunum og hið sama var upp á teningnum á Asíumörkuðum í nótt þar sem helstu hlutabréfavísitölur lækkuðu um 1,5%. Þá lækkaði evran gagnvart dollar um hálft prósentustig.

Standard & Poor´s segir að ef leiðtogar evrusvæðisins komi sér ekki saman um trúverðuga áætlun gegn skuldakreppunni á svæðinu muni lánshæfiseinkunnir allra evruþjóðanna verða lækkaðar. Í fréttum erlendra viðskiptafjölmiðla um ákvörðun Standard & Poor´s segir að í raun þýði hún að 50% líkur séu á að þessar lánshæfiseinkunnir lækki innan 90 daga.

Um er að ræða allar þjóðirnar á evrusvæðinu nema Kýpur og Grikkland. Kýpur var þegar á athugunarlista matsfyrirtækisins með neikvæðum horfum og Grikkland er fyrir löngu komið í ruslflokk hjá Standard & Poor´s.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×