Viðskipti erlent

Fátækum fækkar verulega í landsbyggðum Kína

Fátæku fólki í landsbyggðum Kína hefur fækkað umtalsvert á undanförnum áratug. Fátækum hefur fækkað úr 92 milljón manns árið 2000 og niður í tæplega 27 milljónir manna í fyrra.

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum frá Hagstofu Kína. Þar segir að fyrir tíu árum hafi rúmlega 10% af fólki á landsbyggðinni lifað undir fátæktarmörkunum en í fyrra var þetta hlutfall komið niður í 2,8%. Þessi þróun hafi átt sér stað þrátt fyrir að fátæktarmörkin hafi verið hækkuð úr mánaðartekjum upp á 865 juan eða 16.000 krónum árið 2000 og upp í 1274 juan eða 24.000 krónur í fyrra.

Kínversk stjórnvöld segja að þessi góði árangur í að berjast gegn fátækt meðal landsbyggðafólks sé einkum til kominn vegna breytinga á byggðastefnu stjórnvalda. Styrkir til landbúnaðarframleiðslu hafi verið hækkaðir verulega, velferðarkerfið styrkt og bændum veitt aukið aðgengi að vatni, rafmagni og samgönguæðum.

Duncan Innes-Ker hagfræðingur hjá Economist Intelligence Unit segir að þessi fækkun fátækra í Kína komi ekki á óvart þegar litið sé á launhækkanir á þessu tímabili. Hann bendir á að laun hafi hækkað um 15-20% á hverju ári frá aldamótunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×