Viðskipti erlent

Upp úr sauð á milli mótmælenda í Aþenu

Slegið hefur í brýnu á milli óeirðaseggja og annarra mótmælenda í Aþenu höfuðborg Grikklands í dag. Þúsundir komu saman fyrir utan þinghúsið í borginni til þess að lýsa vanþóknun sinni á nýjum niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar. Grjótkasti og bensínsprengjum var beitt í bardaga sem braust út á milli grímuklæddra ungmenna og liðsmanna verkalýðsfélaga sem njóta stuðnings kommúnista á Grikklandi.

Boðað var til tveggja daga allsherjarverkfalls í landinu í gær sem lamað hefur innviði samfélagsins. Talið er að tæplega fjörutíuþúsund manns séu saman komin í miðborginni en óljóst er hve margir hafa slasast í dag. Í gær særðust um fjörutíu manns í slagsmálum.

Búist er við því að gríska þingið samþykki nýju niðurskurðartillögurnar síðar í dag en ríkisstjórnin vonast til þess að frumvarpið verði til þess að stjórnin fái aðgang að lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×