Viðskipti erlent

Skuldabréfaútboð Ítalíu betra en óttast var

Fyrsta alvarlega prófraunin á sýn fjárfesta á skuldakreppu Ítalíu gekk betur en óttast var. Ítölsk stjórnvöld stóðu fyrir skuldabréfaútgáfu í dag upp á 4,5 milljarða evra eða tæplega 750 milljarða kr. en um 5 og 15 ára bréf var að ræða. Vextirnir á 15 ára bréfunum reyndust 5,9% en á 5 ára bréfunum urðu þeir 4,93%.

Jyllands Posten ræðir við Jacob Graven aðalhagfræðing Sydbank um málið. Hann segir að þrátt fyrir að ávöxtunarkrafan á 5 ára bréfunum hafi verið sú hæsta í þrjú ár og mun hærri en í sambærilegu útboði í júní séu þetta samt góðar fréttir. „Eftir óróann á mörkuðunum þar sem fjárfestar flúðu úr ítölskum og spænskum ríkisskuldabréfum hefðu útboðið í dag getað farið miklu verr,“ segir Graven.

Graven segir að þótt útboðið hafi tekist betur en von var á sé Ítalía síður en svo laus úr skuldakreppu sinni. Hinsvegar megi draga þá ályktun af útboðinu að skuldakreppan á evrusæðinu sé ekki að verða alveg stjórnlaus.

Í öðrum miðlum kemur fram að eftirspurnin 15 ára bréfunum var nær tvöfalt meiri en framboðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×