Fastir pennar

ESB og aðlögunin

Ólafur Stephensen skrifar

Andstæðingar aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið, undir forystu Jóns Bjarnasonar ráðherra, hafa nú fundið sér enn eina ástæðuna til að fara fram á að viðræðunum verði hætt. Það er að í raun sé „aðlögun" Íslands að löggjöf Evrópusambandsins þegar hafin, án þess að þjóðin hafi ákveðið að ganga í sambandið. Jón Bjarnason hefur látið hafa eftir sér að aðildarferlið sé eitthvað allt annað en það sem Alþingi samþykkti á sínum tíma.

Þetta er misskilningur, eins og samráðherrar Jóns urðu til að benda á í gær. Alþingi samþykkti að fara í aðildarviðræður við ESB. Það ferli, sem nú er hafið, er þekkt og ekkert frábrugðið því ferli sem önnur ríki, sem hafa sótt um aðild að ESB, hafa gengið í gegnum. Það felst m.a. í margvíslegum undirbúningi fyrir hugsanlega aðild. En nógur tími er til að afgreiða breytingar á lögum og stofnunum, sem verða að ganga í gegn gerist Ísland aðili að ESB, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, samþykki Íslendingar að ganga í sambandið.

Hitt er svo annað mál að ýmsar breytingar, sem framkvæmdastjórn ESB hefur bent á að Ísland þurfi að gera vilji það ganga í sambandið, eru þarfar og gagnlegar alveg burtséð frá ESB-aðild. Það á til dæmis við um að ráðherrar geti ekki skipað dómara að eigin geðþótta. Og að hagsmunasamtök séu ekki í samkrulli við ríkisvaldið um skráningu hagtalna og útgreiðslu ríkisstyrkja, eins og nú tíðkast í íslenzka landbúnaðarkerfinu. Ýmsar aðrar breytingar á vinnubrögðum í stjórnsýslunni til samræmis við það sem gerist í ESB-ríkjum eru eingöngu til bóta, án tillits til þess hvort Ísland gengur í ESB.

Sömuleiðis má hafa í huga að vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefur Ísland verið í stöðugri aðlögun að löggjöf Evrópusambandsins undanfarin sextán ár. Ísland hefur tekið upp að mestu eða öllu leyti 22 af þeim 35 köflum laga ESB, sem semja þarf um í aðildarviðræðum. Við erum því býsna langt komin í aðlögun okkar að ESB - en reyndar án þess að hafa nokkur áhrif á reglurnar, sem við þurfum að laga okkur að.

Það er svolítið spaugilegt að ýmsir þeir, sem nú hlaupa upp til handa og fóta vegna gruns um „aðlögun" hafa sjálfir staðið fyrir slíkri aðlögun, og það án þess að búið væri að sækja um aðild að ESB. Einar K. Guðfinnsson, sem nú vill fund í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd vegna málsins, lagði til dæmis fram frumvarp um aðlögun íslenzks landbúnaðar að heilbrigðisreglum ESB, sem landbúnaðurinn kunni honum reyndar litlar þakkir fyrir.

Evrópusambandið er svo fyrirferðarmikið á alþjóðavettvangi og samskipti Íslands við sambandið svo mikil, að alls konar aðlögun að reglum sambandsins er og verður nauðsynleg, jafnvel þótt Ísland gangi aldrei í ESB. Þannig hefur verið nokkuð víðtæk samstaða um að náist samkomulag um aukna fríverzlun á vettvangi Heimsviðskiptastofnunarinnar, muni Ísland þurfa að breyta stuðningi sínum við landbúnað til samræmis við það sem gerist í ESB.

Með aðild að Evrópusambandinu hefði Ísland áhrif á alls konar reglur, sem það þarf í dag að laga sig að, þótt það standi utan ESB. Þannig væri hagsmunum Íslands betur borgið. En það vilja þeir auðvitað alls ekki sjá, sem nú hræðast „aðlögunina".






×