Gagnrýni

Kani í völundarhúsi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Clooney er góður í American.
Clooney er góður í American.

Bíó ****

The American

Leikstjóri: Anton Corbijn.

Aðalhlutverk: George Clooney, Thekla Reuten, Violante Placido, Paolo Bonacelli.

George Clooney kallar sig Jack og er staddur í Svíþjóð á fyrstu mínútum kvikmyndarinnar The American. Þar berst hann við byssuglaða snáða í snjónum og hefur betur. Skömmu síðar gengur hann undir nafninu Edward í smáþorpi á Ítalíu þar sem örlög hans munu ráðast.

Í fyrstu dregst áhorfandinn inn í sögufléttuna en þegar líða tekur á myndina kemur í ljós að hún skiptir ekki máli. Hver mun drepa hvern og af hverju? Hverjir eru sannir bandamenn Ameríkanans og hverjir munu stinga hann í bakið? Edward treystir engum vegna þess að hann er í helvíti. Vingjarnlegur prestur reynir að benda honum á það en líklega er það orðið of seint.

Aftanverð eyrun á George Clooney eru í miklu aðalhlutverki. Við sjáum aftan á hann þar sem hann gengur hægum en ákveðnum skrefum um þröng og tómleg stræti þorpsins, fram og til baka. Það er líkt og hann sé staddur í völundarhúsi án útgönguleiðar.

Það eru engar sprengingar í myndinni. Hún býður áhorfandanum upp á merkilegri og betri hluti en það. Á endanum stoppar sýningarvélin en kvikmyndin heldur áfram. Tveir sólarhringar hafa liðið og ég er ennþá að horfa á The American.

Niðurstaða: Falleg og djörf mynd sem tekur tíma að melta. Þeir sem vilja hasar verða vonsviknir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.