Leikjavísir

Flestir tölvuleikir fjölskylduvænir

Forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins Eidos heldur fyrirlestur á ráðstefnunni You Are In Control.
Forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins Eidos heldur fyrirlestur á ráðstefnunni You Are In Control.
Bretinn Ian Livingstone, forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins Eidos, heldur fyrirlestur á alþjóðlegu ráðstefnunni You Are in Control sem verður haldin í fjórða sinn í Reykjavík dagana 1. og 2. október. Fréttablaðið ræddi við hann um Eve Online, ofbeldi í tölvuleikjum og framtíð iðnaðarins.

„Ég hlakka mikið til að koma til Íslands. Segðu mér aðeins frá Bláa lóninu," segir Livingstone sem er að koma hingað í fyrsta sinn.

Árið 1975 stofnaði Livingstone Games Workshop ásamt tveimur félögum sínum. Fyrirtækið tryggði sér söluréttinn á borðspilinu Dungeons & Dragons í Evrópu og hagnaðist vel á því enda leikurinn afar vinsæll. Árið 1981 samdi Livingstone gagnvirka ævintýrabók fyrir börn, Fighting Fantasy, sem sló í gegn og seldist í nærri sextán milljónum eintaka og var þýdd yfir á 27 tungumál. Næst fjárfesti hann í fyrirtækinu Dorkmar og samdi þar leikinn Eureka sem kom út 1984. Síðar meir var fyrirtækið eitt fjögurra sem runnu inn í Eidos Interactive sem fór á hlutabréfamarkað í London 1995. Það fyrirtæki hefur gefið út vinsæla tölvuleiki á borð við Tomb Raider, Hitman og Commandos.

Undrandi á Eve Online
Angelina Jolie lék Löru Croft í myndinni Tomb Raider, sem var byggð á samnefndum tölvuleik Eidos.
„Mér finnst mjög áhugavert að sjá hvert stefnir í leikjum á Netinu. Það sem hefur gerst á Íslandi með Eve Online er spennandi, rétt eins og leikir sem eru spilaðir á Facebook og á iPhone. Tæknin er að skapa fullt af nýjum tækifærum," segir Livingstone. Aðspurður segist hann hafa orðið mjög undrandi þegar hann frétti að Eve Online kæmi frá Íslandi. „Ég vissi ekki að það væri stór leikjaiðnaður á Íslandi. Það var gaman að heyra það. Þetta sýnir bara að leikir höfða til fólks úti um allan heim."

Livingstone lítur björtum augum á framtíð tölvuleikja. „Hér áður fyrr var erfitt að spila tölvuleiki. Þeir voru gerðir af litlum hópi áhugamanna um tölvuleiki fyrir aðra áhugamenn. Á undanförnum árum hafa leikir orðið mun aðgengilegri fyrir stóran hóp fólks. Fólk getur spilað Wii í stofunni heima hjá sér eða Farmville á Facebook," segir hann.

En hver er eiginlega lykillinn að góðum tölvuleik?

„Það er leikur sem er auðvelt að læra en erfitt að ná fullum tökum á."

Sjálfur er hann mikill leikjakarl og spilar mikið í frístundum sínum. „Í hjarta mínu er ég stórt barn. Heima hjá mér eru tvö herbergi tileinkuð leikjum. Í öðru eru um eitt þúsund borðspil en í hinu eru tölvuleikir og stór kúluspil. Ég hef mjög gaman af því að spila."

97 prósent leikja fjölskylduvænirMikið hefur verið rætt um ofbeldi í tölvuleikjum og hversu slæm áhrif það getur haft á ungdóminn. Livingstone segir mikilvægt að öflugt kerfi sé til staðar sem merki bannaða leiki. „Leikirnir sem eru gagnrýndir eru oftast bannaðir fyrir yngri en átján ára. Þetta eru leikir fyrir þroskaða einstaklinga. Í kvikmyndaiðnaðinum eru margar myndir bannaðar innan átján sem fólk talar ekkert um," segir Livingstone.

„Fólk sem spilar ekki leiki heldur að einu leikirnir sem eru í boði séu ofbeldisfullir en staðreyndin er sú að aðeins 3 prósent leikjanna sem eru í boði eru bannaðir innan átján. Fólk hefur afbakaða mynd af því sem er búið til af leikjum því 97 prósent af þeim eru fjölskylduvænir. Þetta eru leikir eins og Wii Sports, Guitar Hero, Farmville og Doodle Jump á iPhone. Oftast er það fólk sem veit ekkert um tölvuleikjaiðnaðinn sem gagnrýnir þá fáu titla sem eru bannaðir yngri en átján ára."

Hve langan tíma tekur að búa til einn tölvuleik?

„Að gera einn stóran tölvuleik fyrir Playstation 3 og Xbox 360 tekur um tvö til þrjú ár. Um 150 til 200 manns búa hann til og kostnaðurinn er um 30 til 40 milljónir dollara (3,5 til 4,7 milljarðar króna). Það þarf mikla hæfileika til að búa svona leik til," segir Livingstone.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.