Um 170 manns mættu í kokkteilboð sem Útón hélt í Los Angeles til að kynna íslenska tónlist fyrir Bandaríkjamönnum. Emilíana Torrini söng þar fimm lög við góðar undirtektir.
Boðið var haldið á heimili Lanette Phillips, sem er einn virtasti framleiðandi tónlistarmyndbanda í heiminum. Tilgangurinn var að kynna íslenska tónlist fyrir þeim sem koma tónlist að í kvikmyndum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum í Bandaríkjunum.
Mætingin í boðið var enn betri en í fyrra þegar það var haldið í fyrsta sinn. Þá var Jónsi í Sigur Rós hálfgerður fulltrúi íslenskrar tónlistar á svæðinu en í þetta sinn var það Emilíana Torrini og stóð hún sig með miklum sóma.
Á meðal erlendra gesta var Eric Grunbaum, sem er yfirmaður Media Arts Lab, fyrirtækis sem býr til allar auglýsingar fyrir Apple. Einnig var þar Dilly Gent sem framleiddi Live Earth-verkefnið sem Al Gore stóð fyrir. Að auki hefur hún unnið með hljómsveitinni Radiohead við myndbandagerð. freyr@frettabladid.is