Í frumskógum Afríku Einar Már Jónsson skrifar 15. febrúar 2010 06:00 Góðkunningi minn, píanóleikari, gítarleikari, tónlistarkennari, lagasmiður, söngvari og teiknari með meiru, varð nýlega fyrir undarlegri reynslu. Hann var að borða morgunmat í ró og næði þar sem hann býr í úthverfi Parísar, þegar nokkrir lögregluþjónar, gráir fyrir járnum, knúðu dyra og sögðu að fjölskylda hans hefði verið að reyna að hafa samband við hann en án árangurs og því farin að fá áhyggjur þungar. Kunningi minn sýndi lögreglumönnunum skilríki sín til að sanna að þetta væri hann sjálfur og enginn annar, og við það fóru þeir en sögðu honum áður að tala við lautinant Mary. En lautinantinn var ekki við þá stundina, svo kunningi minn byrjaði á því að hringja í aldraða foreldra sína. Af einhverjum ástæðum var síminn hjá honum bilaður en hann náði sambandi gegnum gemsa sem hann var alveg nýbúinn að festa kaup á, og enginn vissi því um. Í ljós kom að foreldrarnir höfðu ekki reynt að ná sambandi við hann og höfðu þar af leiðandi engar áhyggjur. Það var ekki fyrr en kunningi minn hafði tal af lautinantinum, sem reyndist vera kona með blíða og mjög svo ólautinantslega rödd, að hann gat lagt saman tvo og tvo. Daginn áður hafði hann sem sé verið að vinna á Netinu, og þar sem hann var nýbúinn að dreifa 3000 auglýsingamiðum um tónlistarkennslu var hann á höttum eftir svörum. En þá birtist tilkynning á skerminum þar sem honum var sagt að hann yrði þegar í stað að slá inn nafn sitt og lykilorð, annars myndi vefsíða hans lokast. Í einhverju fáti hlýddi hann þessum fyrirmælum hugsunarlaust, og hélt áfram að vinna. En þarna voru að verki svikahrappar, og þeir notuðu nú þessar upplýsingar til að komast inn á vefsíðu hans og fiska þar upp nöfn og tölvupóstnúmer allra þeirra sem hann hafði verið í netsambandi við gegnum tíðina, nemenda bæði gamalla og nýrra og fjöldamargra annarra. Þessum mönnum öllum sendu þeir nú tölvubréf í nafni kunningja míns, og hljóðaði það á þessa leið: „Ég er í mestu nauðum staddur í frumskógum svörtu Afríku, og þarf á hjálp að halda tafarlaust. Viltu nú gera það fyrir mig að senda mér 450 evrur sem allra fyrst og leggja þær inn á meðfylgjandi bankareikning." Svo kom númer á bankareikningi í Abidjan, en ef einhver skyldi ekki vita það er sá staður á Fílabeinsströndinni. Ekki er gott að segja hvernig gamlir nemendur kunningja míns, eða þá menn sem hann hafði haft eitthvert lauslegt samband við fyrir mörgum árum og aldrei síðan tóku þessari orðsendingu, en fáein svör fékk hann. Einn sagði: „Á enga aura," annar sagði: „Farðu til andskotans." En sá þriðji brást þannig við að hann reyndi þegar í stað að hafa samband við kunningja minn í heimasíma hans en árangurslaust, því sá sími var sem sé bilaður eins og áður var sagt. Og þá hringdi hann í lögregluna með þeim árangri að lautinantinn gerði menn sína út af örkinni. Kunningi minn vildi nú gera eitthvað í málinu og senda tölvubréf til að leiðrétta þann misskilning sem kynni að hafa orðið. En þá brá svo við að hann gat það ekki, hann gat einungis tekið á móti bréfum en ekki sent þau. Einhver hafði sem sé klagað hann fyrir „misnotkun á tölvupósti", eins og það mun vera kallað, og þess vegna hafði netsambandi hans við umheiminn verið lokað með þessum hætti. Allar tilraunir til að útskýra málið fyrir viðeigandi aðilum hafa reynst árangurslausar til þessa, og við það situr enn. En í þessu hálfgildings iðjuleysi veltir hann fyrir sér þeirri spurningu hvers vegna hann hafi verið svona trúgjarn. Þegar hann rifjar upp fyrir sér tölvubréfið sem kom öllu af stað minnist hann þess að í því voru nokkrar slæmar stafsetningarvillur og jafnvel málvillur að auki; hann átti því að geta sagt sér sjálfur að þarna lægi fiskur undir steini. Telur hann að dómgreindarleysið hafi stafað af því að hann varð skyndilega dauðhræddur um að missa af svörum við auglýsingunni um tónlistarkennslu. En er þetta einhlítt? Æfintýri kunningja míns er ekkert einsdæmi; margir hafa fengið tölvubréf sem eru augljóslega runnin undan rifjum einhverra svindlbraskara og gengið í gildruna. Samkvæmt frönskum blaðafréttum er þetta að færast í aukana og tekur á sig alls kyns myndir, m.a. fá menn bréf sem svo látið er heita að séu frá skattyfirvöldum og boða miklar endurgreiðslur; eru þeir beðnir um upplýsingar um bankareikninga o. fl. svo hægt sé að leggja þessar fúlgur inn. Viðvaranir stoða lítið. Svo er að sjá að þegar Netið er annars vegar verði dómgreindin oft að láta í minni pokann. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Sorg barna - fyrstu viðbrögð barna við missi Matthildur Bjarnadóttir Skoðun Með styrka hönd á stýri í eigin lífi Árni Sigurðsson Skoðun Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Hjólað inní framtíðinna Búi Bjarmar Aðalsteinsson Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Halldór 11.01.2025 Halldór Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð Sara María Júlíudóttir Skoðun
Góðkunningi minn, píanóleikari, gítarleikari, tónlistarkennari, lagasmiður, söngvari og teiknari með meiru, varð nýlega fyrir undarlegri reynslu. Hann var að borða morgunmat í ró og næði þar sem hann býr í úthverfi Parísar, þegar nokkrir lögregluþjónar, gráir fyrir járnum, knúðu dyra og sögðu að fjölskylda hans hefði verið að reyna að hafa samband við hann en án árangurs og því farin að fá áhyggjur þungar. Kunningi minn sýndi lögreglumönnunum skilríki sín til að sanna að þetta væri hann sjálfur og enginn annar, og við það fóru þeir en sögðu honum áður að tala við lautinant Mary. En lautinantinn var ekki við þá stundina, svo kunningi minn byrjaði á því að hringja í aldraða foreldra sína. Af einhverjum ástæðum var síminn hjá honum bilaður en hann náði sambandi gegnum gemsa sem hann var alveg nýbúinn að festa kaup á, og enginn vissi því um. Í ljós kom að foreldrarnir höfðu ekki reynt að ná sambandi við hann og höfðu þar af leiðandi engar áhyggjur. Það var ekki fyrr en kunningi minn hafði tal af lautinantinum, sem reyndist vera kona með blíða og mjög svo ólautinantslega rödd, að hann gat lagt saman tvo og tvo. Daginn áður hafði hann sem sé verið að vinna á Netinu, og þar sem hann var nýbúinn að dreifa 3000 auglýsingamiðum um tónlistarkennslu var hann á höttum eftir svörum. En þá birtist tilkynning á skerminum þar sem honum var sagt að hann yrði þegar í stað að slá inn nafn sitt og lykilorð, annars myndi vefsíða hans lokast. Í einhverju fáti hlýddi hann þessum fyrirmælum hugsunarlaust, og hélt áfram að vinna. En þarna voru að verki svikahrappar, og þeir notuðu nú þessar upplýsingar til að komast inn á vefsíðu hans og fiska þar upp nöfn og tölvupóstnúmer allra þeirra sem hann hafði verið í netsambandi við gegnum tíðina, nemenda bæði gamalla og nýrra og fjöldamargra annarra. Þessum mönnum öllum sendu þeir nú tölvubréf í nafni kunningja míns, og hljóðaði það á þessa leið: „Ég er í mestu nauðum staddur í frumskógum svörtu Afríku, og þarf á hjálp að halda tafarlaust. Viltu nú gera það fyrir mig að senda mér 450 evrur sem allra fyrst og leggja þær inn á meðfylgjandi bankareikning." Svo kom númer á bankareikningi í Abidjan, en ef einhver skyldi ekki vita það er sá staður á Fílabeinsströndinni. Ekki er gott að segja hvernig gamlir nemendur kunningja míns, eða þá menn sem hann hafði haft eitthvert lauslegt samband við fyrir mörgum árum og aldrei síðan tóku þessari orðsendingu, en fáein svör fékk hann. Einn sagði: „Á enga aura," annar sagði: „Farðu til andskotans." En sá þriðji brást þannig við að hann reyndi þegar í stað að hafa samband við kunningja minn í heimasíma hans en árangurslaust, því sá sími var sem sé bilaður eins og áður var sagt. Og þá hringdi hann í lögregluna með þeim árangri að lautinantinn gerði menn sína út af örkinni. Kunningi minn vildi nú gera eitthvað í málinu og senda tölvubréf til að leiðrétta þann misskilning sem kynni að hafa orðið. En þá brá svo við að hann gat það ekki, hann gat einungis tekið á móti bréfum en ekki sent þau. Einhver hafði sem sé klagað hann fyrir „misnotkun á tölvupósti", eins og það mun vera kallað, og þess vegna hafði netsambandi hans við umheiminn verið lokað með þessum hætti. Allar tilraunir til að útskýra málið fyrir viðeigandi aðilum hafa reynst árangurslausar til þessa, og við það situr enn. En í þessu hálfgildings iðjuleysi veltir hann fyrir sér þeirri spurningu hvers vegna hann hafi verið svona trúgjarn. Þegar hann rifjar upp fyrir sér tölvubréfið sem kom öllu af stað minnist hann þess að í því voru nokkrar slæmar stafsetningarvillur og jafnvel málvillur að auki; hann átti því að geta sagt sér sjálfur að þarna lægi fiskur undir steini. Telur hann að dómgreindarleysið hafi stafað af því að hann varð skyndilega dauðhræddur um að missa af svörum við auglýsingunni um tónlistarkennslu. En er þetta einhlítt? Æfintýri kunningja míns er ekkert einsdæmi; margir hafa fengið tölvubréf sem eru augljóslega runnin undan rifjum einhverra svindlbraskara og gengið í gildruna. Samkvæmt frönskum blaðafréttum er þetta að færast í aukana og tekur á sig alls kyns myndir, m.a. fá menn bréf sem svo látið er heita að séu frá skattyfirvöldum og boða miklar endurgreiðslur; eru þeir beðnir um upplýsingar um bankareikninga o. fl. svo hægt sé að leggja þessar fúlgur inn. Viðvaranir stoða lítið. Svo er að sjá að þegar Netið er annars vegar verði dómgreindin oft að láta í minni pokann.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun