Hin hliðin 5. júní 2009 06:00 Ríkisstjórn Íslands átti í meiri vandræðum með heimsókn Dalai Lama en nágrannaþjóðirnar eins og Danmörk til að mynda. Ástæðan er ekki ósnoturt hjartalag ráðherranna. Þvert á móti má vitna til margra yfirlýsinga þeirra frá stjórnarandstöðutímanum sem bera vott um sterka samstöðu með undirokuðum minnihlutahópum. Það er hins vegar önnur hlið á viðbrögðunum við heimsókn þessa friðarverðlaunahafa Nóbels til Íslands sem vert er að skoða. Hún snýr að stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Segja má að tvær kenningar hafi verið ráðandi um hvernig Ísland kæmi ár sinni best fyrir borð í alþjóðasamfélaginu. Önnur er sú að best sé að skipa landinu í sveit og bindast þeim þjóðum sem næst okkur standa í menningarlegum efnum, pólitík og viðskiptum. Um þetta snerist aðildin að Atlantshafsbandalaginu. Sókn og vörn fyrir þá stefnu hvíldi á þeirri tíð mest á herðum Bjarna Benediktssonar. Hin leiðin felst í því að aka seglum eftir vindi og leita skjóls og samstöðu í alþjóðasamfélaginu eftir því hvernig vindar blása hverju sinni. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, talaði fyrir þeirri hugmyndafræði á ráðstefnu í Andorra fyrir rúmu ári um tækifæri smáríkja í hagkerfum veraldarinnar. Þar minnti forsetinn á að Ísland væri fyrsta og eina Evrópuríkið sem ætti í sjálfstæðum fríverslunarviðræðum við Kína. Um leið ítrekaði hann að Ísland gæti tryggt stöðu sína og sveigjanleika með því að stofna sjálfstætt til viðskiptatengsla við þjóðir og fyrirtæki víðs vegar í heiminum án þess að vera bundið af flóknu samningaferli Evrópusambandsins. Þessi kenning lítur betur út í orði en á borði. Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar með Dalai Lama er lítið saklaust dæmi um að heimurinn er harðari og hagsmunirnir flóknari en svo að það gangi upp að tryggja stöðu þjóðar með samningum við Kína í dag og Bandaríkin á morgun. Stærri þjóðir en Íslendingar hafa komist að þeirri niðurstöðu. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra töldu að stoðir fullveldisins væru ekki sterkari en svo að þær þyldu ekki andúð kínverskra stjórnvalda. Danski forsætisráðherrann mat styrk fullveldis þjóðar sinnar á annan veg. Sveigjanleikakenningin byggist á sömu hugsun og hlutleysisstefnan. Um hana var algjör pólitísk eining í byrjun. Hún hrundi hins vegar í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar. Í stað þess að endurreisa hana með orðaleppum var farin önnur leið. Heimurinn hefur breyst síðan. Atlantshafsbandalagið, sem var þungamiðjan í utanríkispólitík Íslands, missti áhrifavald sitt í lok kalda stríðsins. Norðurlandaráð hefur nú menningarlegt gildi en enga pólitíska þýðingu. Þannig hefur losnað um kjölfestu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Spurningin um aðild að Evrópusambandinu snýst ekki einasta um peningastefnu og viðskipti. Í ljósi nýrra aðstæðna er hún nauðsynlegt og rökrétt framhald af þeirri utanríkisstefnu sem mótuð var fyrir sex áratugum. Hún er mikilvæg til að festa pólitískan þyngdarpunkt landsins í alþjóðasamfélaginu eftir að aðrar stoðir hafa veikst. Svo má ekki gleymast að íslensk menning er hluti af evrópskri arfleifð. Hin hliðin á heimsókn Dalai Lama varpar nokkru ljósi á þennan veruleika. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Varist eftirlíkingar Franklín Ernir Kristjánsson Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Nærsýni afinn og baunabyssan Ragnar Þór Pétursson Skoðun Íslenskan okkar allra Bryndís Haraldsdóttir Skoðun Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Feður eiga undir högg að sækja í forsjármálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun
Ríkisstjórn Íslands átti í meiri vandræðum með heimsókn Dalai Lama en nágrannaþjóðirnar eins og Danmörk til að mynda. Ástæðan er ekki ósnoturt hjartalag ráðherranna. Þvert á móti má vitna til margra yfirlýsinga þeirra frá stjórnarandstöðutímanum sem bera vott um sterka samstöðu með undirokuðum minnihlutahópum. Það er hins vegar önnur hlið á viðbrögðunum við heimsókn þessa friðarverðlaunahafa Nóbels til Íslands sem vert er að skoða. Hún snýr að stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Segja má að tvær kenningar hafi verið ráðandi um hvernig Ísland kæmi ár sinni best fyrir borð í alþjóðasamfélaginu. Önnur er sú að best sé að skipa landinu í sveit og bindast þeim þjóðum sem næst okkur standa í menningarlegum efnum, pólitík og viðskiptum. Um þetta snerist aðildin að Atlantshafsbandalaginu. Sókn og vörn fyrir þá stefnu hvíldi á þeirri tíð mest á herðum Bjarna Benediktssonar. Hin leiðin felst í því að aka seglum eftir vindi og leita skjóls og samstöðu í alþjóðasamfélaginu eftir því hvernig vindar blása hverju sinni. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, talaði fyrir þeirri hugmyndafræði á ráðstefnu í Andorra fyrir rúmu ári um tækifæri smáríkja í hagkerfum veraldarinnar. Þar minnti forsetinn á að Ísland væri fyrsta og eina Evrópuríkið sem ætti í sjálfstæðum fríverslunarviðræðum við Kína. Um leið ítrekaði hann að Ísland gæti tryggt stöðu sína og sveigjanleika með því að stofna sjálfstætt til viðskiptatengsla við þjóðir og fyrirtæki víðs vegar í heiminum án þess að vera bundið af flóknu samningaferli Evrópusambandsins. Þessi kenning lítur betur út í orði en á borði. Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar með Dalai Lama er lítið saklaust dæmi um að heimurinn er harðari og hagsmunirnir flóknari en svo að það gangi upp að tryggja stöðu þjóðar með samningum við Kína í dag og Bandaríkin á morgun. Stærri þjóðir en Íslendingar hafa komist að þeirri niðurstöðu. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra töldu að stoðir fullveldisins væru ekki sterkari en svo að þær þyldu ekki andúð kínverskra stjórnvalda. Danski forsætisráðherrann mat styrk fullveldis þjóðar sinnar á annan veg. Sveigjanleikakenningin byggist á sömu hugsun og hlutleysisstefnan. Um hana var algjör pólitísk eining í byrjun. Hún hrundi hins vegar í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar. Í stað þess að endurreisa hana með orðaleppum var farin önnur leið. Heimurinn hefur breyst síðan. Atlantshafsbandalagið, sem var þungamiðjan í utanríkispólitík Íslands, missti áhrifavald sitt í lok kalda stríðsins. Norðurlandaráð hefur nú menningarlegt gildi en enga pólitíska þýðingu. Þannig hefur losnað um kjölfestu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Spurningin um aðild að Evrópusambandinu snýst ekki einasta um peningastefnu og viðskipti. Í ljósi nýrra aðstæðna er hún nauðsynlegt og rökrétt framhald af þeirri utanríkisstefnu sem mótuð var fyrir sex áratugum. Hún er mikilvæg til að festa pólitískan þyngdarpunkt landsins í alþjóðasamfélaginu eftir að aðrar stoðir hafa veikst. Svo má ekki gleymast að íslensk menning er hluti af evrópskri arfleifð. Hin hliðin á heimsókn Dalai Lama varpar nokkru ljósi á þennan veruleika.