Tvær nýjar heimildarmyndir um Sigur Rós verða sýndar í kvikmyndahúsinu Odeon í Covent Garden í London 10. nóvember. Sama dag kemur út í Bretlandi nýtt smáskífulag, Við spilum endalaust.
Í fyrri heimildarmyndinni er hljómsveitinni fylgt eftir á ferðalagi um Ísland, London, Bandaríkin og Mexíkó. Í hinni síðari er fjallað um upptökur á laginu Árabátur sem var tekið upp í Abbey Road-hljóðverinu með aðstoð sextíu manna strengjasveitar og tuttugu manna kórs.
Viðhafnarútgafa af plötu Sigur Rósar með myndunum tveimur og ljósmyndabók kemur svo út 17. nóvember. Fyrst heldur sveitin í tónleikaferð um Bretland sem hefst 4. nóvember.