Fótbolti

Hannes fer með til Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Þorsteinn Sigurðsson.
Hannes Þorsteinn Sigurðsson.

Hannes Þ. Sigurðsson fer með norska úrvalsdeildarliðinu Viking til Rio de Janeiro í Brasilíu þrátt fyrir að hann sé enn að jafna sig eftir árás í miðbæ Reykjavíkur.

Ráðist var á Hannes með þeim afleiðingum að hann þríbrotnaði í andliti. Talið var að hann yrði frá fram í febrúar af þeim sökum.

Hann ferðast þó með liðinu til Brasilíu þar sem það spilar nokkra æfingaleiki, þann fyrsta á laugardaginn.

Miðvallarleikmaðurinn Birkir Bjarnason fer einnig með liðinu til Brasilíu.

Það er einnig að frétta af Hannesi að hann hefur bæst í hóp þeirra sem hafa skorað á framherjann Peter Ijeh að vera áfram hjá Viking.

Ijeh hefur að undanförnu verið sagður á leið frá Viking stuðningsmönnum félagsins til mikils ama.

Einn þeirra stofnaði hóp á vefsíðunni Facebook þar sem skorað er á Ijeh að vera áfram hjá Viking. Hannes Sigurðsson er meðlimur í þeim hópi.

„Mér var boðið að vera með í þessum hópi og að sjálfsögðu tók ég því," sagði Hannes í samtali við Roglands Avis. „Vonandi tekst félaginu að fá hann til að vera áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×