The Sun segir í dag að Giovani Dos Santos sé þegar búinn að semja við Tottenham og að hann fari þangað frá Barcelona fyrir tólf milljónir punda.
Giovani er nítján ára gamall og lék í aðalliði Barcelona í fyrsta sinn á nýliðnu tímabili. Hann skoraði þrennu í síðasta deildarleik liðsins í vor en það voru hans einu mörk með aðalliði félagsins í deildinni.
Hann mun hafa hitt forráðamenn Tottenham að máli í janúar síðastliðnum og ákveðið þá að fara til félagsins. Honum stóð til boða að gera lánssamning við Tottenham en vildi frekar yfirgefa Barcelona fyrir fullt og allt.
Chelsea, Manchester City og Inter voru einnig sterklega orðuð við Giovani. Hann er sonur brasilíska knattspyrnumannsins Zizinho, en hann á mexíkóska móður og leikur því fyrir hönd Mexíkó.