Þrátt fyrir að Harrison Ford hafi leikið í mörgum af vinsælustu kvikmyndum sögunnar þá stefnir allt í að fjórða myndin um Indiana Jones verði sú vinsælasta hingað til ef marka má fyrstu frumsýningarhelgina. Ford tókst ekki að slá met sjóræningjahers Jerrys Bruckheimer en getur unað sáttur við sitt. Myndin er sú vinsælasta á heimsvísu og ef að líkum lætur gæti hún orðið vinsælasta kvikmyndin í sögu Indiana Jones-mynda. Önnur Narníu-myndin um prinsinn Kaspían náði engan veginn að trufla velgengni Indiana og varð að láta sér lynda annað sætið, rétt komst upp fyrir Iron Man en vinsældum þeirrar myndar virðast engin takmörk sett.
Hins vegar er það ekki bara velgengni fornleifafræðingsins sem vekur athygli því Speed Race, nýjasta afrek Wachowski-bræðra, heillaði fáa upp úr skónum. Þrátt fyrir að vera hlaðin tæknibrellum og flottum tökum þá virðast bræðurnir hafa gleymt að góð kvikmynd þarf víst líka að hafa skiljanlegan söguþráð. Þeim til mikillar skelfingar héldu Cameron Diaz og Ashton Kutcher sínu striki með hinum óvænta smelli What Happens in Vegas og stungu kappakstursmyndinni ref fyrir rass.