Það held ég að sé alveg öruggt að Nicolas Sarkozy verður næsti forseti Frakklands. Hann er skörulegri maður en Ségolène Royal sem hefur þann galla að hún virðist aldrei ætla að koma sér að efninu þegar hún talar. Hins vegar er ekki víst að breytingarnar verði jafnmiklar og margir halda. Sarkozy er nú einu sinni franskur stjórnmálamaður, hefur lengi starfað í hinu franska kerfi, það er alveg út í hött að líkja honum við Thatcher eða ameríska repúblikana.
Það er nokkuð furðulegt að helsta tímabil einkavæðingar í Frakklandi var á árunum þegar sósíalistinn Lionel Jospin var forsætisráðherra. Jospin var kannski besti stjórnmálamaður sem Frakkar hafa átt í seinni tíð en naut aldrei lýðhylli, hann var ekki góður ræðumaður, virkaði alltaf full tæknilegur - og svo var hann líka mótmælandi! Ferli hans lauk þegar hann náði ekki einu sinni í seinni umferð forsetakosninganna fyrir fimm árum sökum þess að kjósendur misstu vitið, greiddu atkvæði trotskíistasamtökum og alls konar rugluðu liði. Fyrir vikið komst Jean Marie Le Pen áfram og keppti við Jacques Chirac sem þá varð allt í einu hin stóra táknmynd lýðræðisins..
Frakkar skömmuðust sín niður í tær eftir þessar kosningar og kannski er það ein skýringin á því hversu kjörsóknin var góð í fyrri umferð forsetakosninganna á sunnudaginn. 85 prósenta kosningaþáttaka er glæsilegt í svona fjölmennu landi.
--- --- ---
Það er líka mjög orðum aukið að ástandið í Frakklandi sé sérlega slæmt. Frakkar eiga hugsanlega besta heilbrigðiskerfi í heimi. Samgöngukerfi þeirra er örugglega hið besta í veröldinni. Þeir framleiða varning sem er eftirsóttur út um allan heim - bílaiðnaðurinn þar stendur til dæmis í blóma. Ekkert land í heiminum tekur á móti fleiri ferðamönnum. Hvergi í heiminum eru glæsilegri söfn eða opinberar byggingar sem er betur viðhaldið.
Þjóðin er afar tæknivædd og fljót að tileinka sér nýungar á því sviði. Bóklestur er hvergi meiri en í Frakklandi. Þrátt fyrir vandamál með unga innflytjendur í sumum úthverfum er kurteisi og gott viðmót almennara í Frakklandi en víðast í Evrópu. Dólgslæti ungs fólks eru miklu fágætari en til dæmis í Bretlandi.
Frakkar kunna enn að borða góðan mat. Þeir taka sér löng og góð sumarfrí. Þeir hafa það sem kallast savoir vivre. Ég sé satt að segja ekki að þeir geti lært mikið af enskumælandi þjóðum þrátt fyrir tímabundinn áhuga á le blairisme.
--- --- ---
Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að það var hrein vitleysa að leggja niður Þjóðhagsstofnun gömlu. Nú veit enginn hvaða efnahagsspám hann á að trúa. Fjármálaráðuneytið hefur augljóslega hag af því að gylla framtíðina og bankarnir hafa líka hagsmuna að gæta - þeir reyna að halda að fólki sinni útgáfu af framtíðinni. Því er enginn fullkomlega hlutlaus aðili að gera hagspár. Hvað með Seðlabankann? Ja, allir virðast segja að síðasta spá hans hafi verið alltof full af svartagalli.
Meira jafnvægi er að komast á í hagkerfinu voru skilaboðin frá fjármálaráðuneytinu í dag. Það er hægt að lesa þetta öðruvísi: Lítill hagvöxtur til 2012. Vaxandi atvinnuleysi. Króna sem veikist. Niðursveifla.
Nema við fáum meiri stóriðju. Þá er aftur hægt að rífa hagkerfið upp á rassgatinu. Það eru skilaboðin frá Geir Haarde í viðtali við Viðskiptablaðið.
Önnur hugmynd gæti verið einkavæðing í orkugeiranum og heilbrigðiskerfinu. Til að smyrja hjól efnahagslífsins eins og gerðist þegar fiskurinn í sjónum var einkavæddur og síðan bankarnir.
En það á sjálfsagt enginn eftir að stinga upp á því.
--- --- ---
Ég er nýbúinn að uppfæra tenglalistann hér til hægri á síðunni. Hann er býsna gagnlegur fyrir þá sem vilja vafra um helstu pólitísku síðurnar á netinu. Þarna eru tenglar á blogg sem birtast á bæði Vísi og Mbl.is, auk tengla á aðrar vefsíður og vefrit sem fjalla um þjóðmál.
Í dag bendi ég sérstaklega á vefsíðu Stefáns Snævarr, prófessors í Noregi. Hann er að skrifa um varnarsamning milli Íslands og Noregs og kallar til vitnis engan annan en Einar þveræing. Kemst að þeirri niðurstöðu að eina landið sem hugsanlega ógni öryggi Íslands sé - Noregur!