Ræður Framsókn úrslitum enn einu sinni? 22. apríl 2007 21:58 Ég hef tilhneigingu til að leggja saman fylgi vinstri flokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Í því felast í raun ekki ómerkilegri upplýsingar en í fylgi hvers flokks fyrir sig. Undanfarin misseri hefur þetta fylgi verið mjög mikið, það hefur hæst farið milli 47 og 48 prósent í skoðanakönnunum. Sem bendir til óvenjulegs styrks vinstri flokkanna. Um tíma gátu þeir jafnvel látið sig dreyma um að ná hreinum meirihluta á Alþingi saman - þeir hefðu glaðst yfir því ef ekki væri þessi endalausa togstreita milli flokkanna. En samkvæmt nýjum skoðanakönnunum fer sameiginlegt fylgi vinstri flokkanna dalandi. Í nýrri Gallup könnun er það ekki nema 43 prósent. Samfylkingin og Vinstri græn munu ætíð þurfa einhvern flokk í lið með sér til að koma saman meirihlutastjórn. Ef fylgið verður ekki meira duga tæplega Frjálslyndir eða Íslandshreyfingin til - jafnvel þótt þessir flokkar komi fáeinum mönnum á þing. Ríkisstjórnin er á mörkum þess að geta haldið áfram af tveimur orsökum. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sterkur og Íslandshreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn taka atkvæði sem mögulegt er að nýtist ekki í kosningunum. Það mætti jafnvel leika sér að þeirri hugmynd að Sjálfstæðisflokkurinn kynni að eiga möguleika á að ná hreinum meirihluta í fyrsta sinn í sögunni - ef mikið af atkvæðum falla dauð þarf kannski ekki nema 46 prósenta fylgi til þess. --- --- --- Fylgi Framsóknar virðist ekkert vera að hressast, ólíkt því sem sumir höfðu spáð. Hver skoðanakönnunin á fætur aðra er áfall fyrir flokkinn. Þó er líkt og flestir ráðherrar Framsóknar séu þess fýsandi að sitja áfram í stjórn. Þeir eru góðu vanir. Þetta gæti þó staðið tæpt. Sumir þeirra detta væntanlega af þingi. Það gæti farið svo að ríkisstjórnin hefði nauman þingmeirihluta og gæti þess vegna setið áfram, en að Framsóknarflokkurinn hefði einfaldlega ekki nægilega marga þingmenn til að manna ráðherraembætti og helstu nefndir. Þá yrði að endurhugsa allt stjórnarsamstarfið. Helmingaskipti eins og hafa verið tíðkuð í ríkisstjórn síðustu tólf ár virka hjákátleg ef annar flokkurinn er fimm sinnum stærri en hinn. Hugsanlega ættu að vera lög um þetta. Skipti á jöfnu myndu heldur ekki ganga nema Framsókn kalli til fólk sem er utan þings til að manna ráðherrastóla. Stór hluti af liðsmönnum Framsóknar telur að óhugsandi sé að vinna áfram með Sjálfstæðisflokknum. Þeir óttast að þá muni flokkurinn einfaldlega þurrkast út, þá verði hér ekki lengur fjögurra flokka kerfi heldur þriggja flokka kerfi. Ef til vill væri best fyrir Framsókn að fara einfaldlega í stjórnarandstöðu og endurskipuleggja sig, svona eins og fótboltalið sem fellur niður um deild. Ný kynslóð flokksmanna myndi þá líklega taka við, manni finnst eins og hún láti ekki mikið á sér bera, ætli kannski ekki að leggja of mikið undir í töpuðum kosningum. --- --- --- En þörfin fyrir Framsókn og eftirspurnin kann enn að vera til staðar. Vinstri flokkarnir kunna að telja sig nauðbeygða til að fá Framsókn í ríkisstjórn með sér. Eins og stendur virðist ekki annar möguleiki á að mynduð verði ríkisstjórn til vinstri. Þetta fer náttúrlega eftir prinsíppfestu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna - annar hvor flokkanna gæti tekið sig út og farið að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Til að afstýra því hafa verið uppi hugmyndir um að Samfylkingin og Vinstri græn lýstu því yfir að flokkarnir færu ekki í ríkisstjórn nema saman. En þetta yrði ekki eins og í gamla daga þegar Framsóknarflokkurinn fékk alltaf forsætisráðuneytið í vinstri stjórnum. Sá tími er líklega liðinn. Nú yrði hann að sætta sig við minni hlut - í mesta lagi þrjá ráðherra. En flokkurinn hefur alltaf þessi völd í okkar pólitíska kerfi. Hann minnkar en ræður samt úrslitum. Nema þá að yrði bryddað upp á nýung í íslenskum stjórnmálum og til dæmis Framsóknarflokkurinn veiti minnihlutastjórn VG og Samfylkingar hlutleysi, eða minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks. Það væri athyglisvert að prófa það. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Ég hef tilhneigingu til að leggja saman fylgi vinstri flokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Í því felast í raun ekki ómerkilegri upplýsingar en í fylgi hvers flokks fyrir sig. Undanfarin misseri hefur þetta fylgi verið mjög mikið, það hefur hæst farið milli 47 og 48 prósent í skoðanakönnunum. Sem bendir til óvenjulegs styrks vinstri flokkanna. Um tíma gátu þeir jafnvel látið sig dreyma um að ná hreinum meirihluta á Alþingi saman - þeir hefðu glaðst yfir því ef ekki væri þessi endalausa togstreita milli flokkanna. En samkvæmt nýjum skoðanakönnunum fer sameiginlegt fylgi vinstri flokkanna dalandi. Í nýrri Gallup könnun er það ekki nema 43 prósent. Samfylkingin og Vinstri græn munu ætíð þurfa einhvern flokk í lið með sér til að koma saman meirihlutastjórn. Ef fylgið verður ekki meira duga tæplega Frjálslyndir eða Íslandshreyfingin til - jafnvel þótt þessir flokkar komi fáeinum mönnum á þing. Ríkisstjórnin er á mörkum þess að geta haldið áfram af tveimur orsökum. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sterkur og Íslandshreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn taka atkvæði sem mögulegt er að nýtist ekki í kosningunum. Það mætti jafnvel leika sér að þeirri hugmynd að Sjálfstæðisflokkurinn kynni að eiga möguleika á að ná hreinum meirihluta í fyrsta sinn í sögunni - ef mikið af atkvæðum falla dauð þarf kannski ekki nema 46 prósenta fylgi til þess. --- --- --- Fylgi Framsóknar virðist ekkert vera að hressast, ólíkt því sem sumir höfðu spáð. Hver skoðanakönnunin á fætur aðra er áfall fyrir flokkinn. Þó er líkt og flestir ráðherrar Framsóknar séu þess fýsandi að sitja áfram í stjórn. Þeir eru góðu vanir. Þetta gæti þó staðið tæpt. Sumir þeirra detta væntanlega af þingi. Það gæti farið svo að ríkisstjórnin hefði nauman þingmeirihluta og gæti þess vegna setið áfram, en að Framsóknarflokkurinn hefði einfaldlega ekki nægilega marga þingmenn til að manna ráðherraembætti og helstu nefndir. Þá yrði að endurhugsa allt stjórnarsamstarfið. Helmingaskipti eins og hafa verið tíðkuð í ríkisstjórn síðustu tólf ár virka hjákátleg ef annar flokkurinn er fimm sinnum stærri en hinn. Hugsanlega ættu að vera lög um þetta. Skipti á jöfnu myndu heldur ekki ganga nema Framsókn kalli til fólk sem er utan þings til að manna ráðherrastóla. Stór hluti af liðsmönnum Framsóknar telur að óhugsandi sé að vinna áfram með Sjálfstæðisflokknum. Þeir óttast að þá muni flokkurinn einfaldlega þurrkast út, þá verði hér ekki lengur fjögurra flokka kerfi heldur þriggja flokka kerfi. Ef til vill væri best fyrir Framsókn að fara einfaldlega í stjórnarandstöðu og endurskipuleggja sig, svona eins og fótboltalið sem fellur niður um deild. Ný kynslóð flokksmanna myndi þá líklega taka við, manni finnst eins og hún láti ekki mikið á sér bera, ætli kannski ekki að leggja of mikið undir í töpuðum kosningum. --- --- --- En þörfin fyrir Framsókn og eftirspurnin kann enn að vera til staðar. Vinstri flokkarnir kunna að telja sig nauðbeygða til að fá Framsókn í ríkisstjórn með sér. Eins og stendur virðist ekki annar möguleiki á að mynduð verði ríkisstjórn til vinstri. Þetta fer náttúrlega eftir prinsíppfestu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna - annar hvor flokkanna gæti tekið sig út og farið að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Til að afstýra því hafa verið uppi hugmyndir um að Samfylkingin og Vinstri græn lýstu því yfir að flokkarnir færu ekki í ríkisstjórn nema saman. En þetta yrði ekki eins og í gamla daga þegar Framsóknarflokkurinn fékk alltaf forsætisráðuneytið í vinstri stjórnum. Sá tími er líklega liðinn. Nú yrði hann að sætta sig við minni hlut - í mesta lagi þrjá ráðherra. En flokkurinn hefur alltaf þessi völd í okkar pólitíska kerfi. Hann minnkar en ræður samt úrslitum. Nema þá að yrði bryddað upp á nýung í íslenskum stjórnmálum og til dæmis Framsóknarflokkurinn veiti minnihlutastjórn VG og Samfylkingar hlutleysi, eða minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks. Það væri athyglisvert að prófa það.