Leikjavísir

Ekkert dekrað við börn Donalds Trump

Börn milljarðamæringsins Donalds Trump, þau Donald Trump yngri og Ivanka, vörðu föður sinn í deilu hans við sjónvarpskonuna Rosie O'Donnel, í spjallþætti á dögunum. O'Donnel réðst harkalega á föður þeirra, í þætti sínum, fyrir að reka ekki fegurðardísina Töru Conner, eftir að upp komst um óhóflegt líferni hennar.

Trump á stóran hlut í fyrirtækinu Miss USA, þar sem Conner var kjörin fegurst kvenna. Eftir að upp komst um pöbba-rölt hennar ákvað Trump að gefa henni annað tækifæri. Rosie O'Donnel lét sér ekki nægja að lýsa óánægju með þá ákvörðun heldur hellti sér yfir persónu Trumps.

Hún sagði, meðal annars, að hann væri feitur, með ljótt hár, og hefði orðið gjaldþrota. Trump svaraði fullum hálsi og benti á að O'Donnel væri sjálf þrýstin í betra lagi. Það var eiginlega það fallegasta sem hann sagði um hana. Svo hefur þetta aukist hjá þeim, orð af orði.

Í sjónvarpsspjallinu sögðu þau Donald og Ivanka að það væri ekkert athugavert við að fólk væri ósammála pabba. Hinsvegar hefði verið óþarfi að ráðast á hann persónulega. Bæði óþarfi og óráðlegt, því jafnframt því að vera besti vinur sem menn gætu eignast sé hann versti óvinur sem menn geti eignast.

Athyglisvert var það sem systkinin sögðu um uppeldi sitt. Þau hefðu átt fallegustu heimili og fengið bestu menntun sem völ væri á, en þau þurftu að hafa fyrir öllu öðru. Ef þau til dæmis vildu Nintendo spil þurftu þau að leysa eitthvað verkefni sem jafnvel tók þau mánuði. Donald yngri sagði að oft hefði það sem þau báðu um verið komið úr tísku þegar loks verkinu var lokið.

Trump á bæði einkaflugvélar og þyrlur. Systkinin sögðu að þau fengju að ferðast í þeim, ef þau væru að fara eitthvað með föður sínum, en aldrei annars. Þau sögðu að það væri skrýtið að upplifa svona lúxus en vera með það á hreinu að þau ættu ekkert í honum. Það hvetti þau til dáða, því þau VILDU eignast þetta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×