Innanbúðarmenn á tökustað kvikmyndarinnar Revolutionary Road segja að samband Leonardo DiCaprio og Kate Winslet fyrir framan myndavélarnar sé engu síðra en það sem blasti við áhorfendum í vinsælustu kvikmynd allra tíma, Titanic, sem sýnd var fyrir réttum áratug. Leo og Kate leika elskendur í hinni nýju mynd og neistar á milli þeirra sem aldrei fyrr.
Leo og Kate hafa haldið góðu sambandi síðan þau léku í Titanic en þar áttu þau í stuttu en eldheitu ástarsambandi á hinu sögufræga skipi. Samleikur þeirra þar þótti með besta móti og laus við alla tilgerð. Leo er tíður gestur á heimili Kate og Sam Mendes, eiginmanns hennar, en hann leikstýrir einmitt Revolutionary Road og passar væntanlega vel upp á að neistinn á milli DeCaprio og sinnar heittelskuðu kvikni alls ekki utan hvíta tjaldsins.