Matur

Undir dönskum áhrifum

Jóhanna útbýr fljótlegan og hollan kjúklingarétt úr smiðju eiginmannsins. Uppskriftin er á bls. 2.
Jóhanna útbýr fljótlegan og hollan kjúklingarétt úr smiðju eiginmannsins. Uppskriftin er á bls. 2. fréttabladid/gva
Jóhanna Harpa Árnadóttir lætur til sín taka í eldhúsinu auk þess að sinna áhugaverðu starfi og vera fyrsti kvenformaður Verkfræðinga­félags Íslands.

Jóhanna starfar við áhættustýringu hjá Straumi-Burðarási og er í byrjun matarspjallsins spurð hvort hún sé með einhverja áhættustýringu í eldhúsinu. Hún hlær. „Hún felst þá aðallega í því að koma í síminnkandi mæli að eldamennsku því maðurinn minn, Þorsteinn Páll Hængsson er svo dugandi kokkur. Það hófst þegar ég veiktist eitt sinn á Þorláksmessukvöld og hann þurfti að sjá um jólamatinn.

Við höfum að minnsta kosti skipt með okkur verkum í eldhúsinu hin síðari ár og vinnuaðstaðan hefur breyst því hann kaupir líka allar flottu græjurnar.“ Jóhanna segir þau hjón elda flesta daga heima og reyna jafnan að vera með gott hráefni. „Ef ekki er tími til að elda þá berum við fram gróft brauð, til dæmis danska rúgbrauðið frá Myllunni með síld, reyktum laxi og grænum aspas. Lifrarkæfa með súrum gúrkum er líka vinsæl.“

Í ljós kemur að Jóhanna og fjölskylda átti heima um tíma í Danmörku og þaðan er áhuginn á smurbrauðinu kominn. „Manni varð starsýnt á matarpakkana sem litlu börnin þar komu með á leikskólann, brauðið skreytt með steinselju og dilli og smjörpappír á milli sneiða. Þetta umhverfi hafði áhrif á okkar matarmenningu. Efst á mínum persónulega smurbrauðslista eru bufftartar. Þá er lykilatriði að hafa gæðakjöt, nautafilet eða lund sem er rifin niður, borin fram með hráum lauk, kapers, ferskri piparrót og eggjarauðu ofan á grófu brauði. Svo held ég líka upp á sushi sem bóndinn er leikinn í að búa til og ég og aðrir í fjölskyldunni fáum að aðstoða við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.