Bíó og sjónvarp

Fjalakötturinn sýnir þrjár myndir byggðar á sögum Astridar Lindgren

Hvar eru rassálfarnir? Fjalakötturinn sýnir myndina um Ronju ræningjadóttur í Tjarnarbíói í kvöld.
Hvar eru rassálfarnir? Fjalakötturinn sýnir myndina um Ronju ræningjadóttur í Tjarnarbíói í kvöld.

Fjalakötturinn sýnir þrjár myndir byggðar á sögum Astridar Lindgren nú um helgina, auk þess sem síðustu sýningar á myndum franska kvikmyndagerðarmannsins Raymond Depardon fara fram.

Sögur Astridar Lindgren eru sívinsælar hjá börnum jafnt sem fullorðnum. Þær hafa allar verið gefnar út á íslensku og sumar hverjar settar upp sem leiksýningar.

Kvikmyndirnar þrjár hafa auk þess verið talsettar á íslensku fyrir myndbandsmarkaðinn og nú gefst áhorfendum tækifæri til að sjá þær með upprunalegri talsetningu í gamaldags bíóstemningu. Þær eru allar sýndar með sænsku tali og enskum texta og eru fyrir alla fjölskylduna. Í kvöld verða sýndar myndirnar um Ronju ræningjadóttur og Börnin í Ólátagarði en á morgun verður sýnd mynd byggð á sögunni Bróðir minn Ljónshjarta. Leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson mun kynna myndirnar og bregða á leik með börnunum.

Frönsk kvikmyndagerð hefur verið í forgrunni síðustu vikur vegna fransks vors og nú um helgina verður endapunkturinn settur með því að sýna sex franskar stuttmyndir í tveimur hlutum. Sýning þeirra hefst kl. 19 í kvöld

Annað kvöld verða sýndar þrjár stuttmyndir til auk tveggja mynda eftir heimildarmyndagerðarmanninn Raymond Depardon. Nánari upplýsingar um dagskrána og starfsemi klúbbsins er að finna á heimasíðunni www.filmfest.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.